top of page
Writer's pictureAnna María

Ég á mér draum....

Updated: Jun 7, 2021

Þessi ódauðlegu orð ætla ég að gera að mínum í þessari færslu um tilgang og markmið skólastarfs. Ég á mér nefnilega þann draum að leik- og grunnskólar verði skólar þar sem það verður sett á oddinn að nemendum líði vel, að þeir læri að nýta styrkleika sína (hverjir svo sem þeir reynast vera) og áhugasvið og að þeir komi úr skólanum með styrk umfram nokkuð sem þeir höfðu sjálfir trú á að þeir gætu haft.


Ég hef oft verið í áhorfi þar sem í bekknum eru fleiri en einn einstaklingar sem líður mjög illa. Þeir taka lítinn þátt í starfi bekkjarins en af ólíkum ástæðum. Þessi vanlíðan hefur sjaldan eitthvað með kennarann að gera heldur eru líf þeirra flókin og áskoranir miklar. Þegar við stöndum frammi fyrir þannig áskorunum í bekknum okkar verðum við að hafa þor til að spyrja okkur hvort sé mikilvægar að nemendur læri hvað sagnorð, nafnorð og lýsingarorð eru eða hvort að við viljum útskrifa þá þannig að þeir eru hamingjuasamir og hafi trú á sjálfum sér. Ég var spurð fyrir nokkrum árum af hverju það væri verið að kenna þessa orðflokkagreiningu frá yngsta stigi og upp í gegnum allan grunnskólann (og þess vegna notaði ég þetta dæmi). Ég var með hóp nemenda hjá mér sem var að ræða um námið sitt og tilgang þess. Þegar þessi spurning kom upp, þá var það annar nemandi sem svaraði og sagði að það væru enn nemendur (í 10. bekk) sem kynnu þetta ekki. En nú langar mig að spyrja, hverjar eru líkurnar að nemendur sem hafa verið að vinna með sama eða álíka efni í 6 ár læri allt í einu eitthvað sem er margtuggið? Og hvar í lífinu verður þessi þekking þeim til framdráttar á annan hátt en að ná prófum í skóla?


Ég á mér þann draum að við gefum velferð og vellíðan nemenda mun meiri gaum en við gerum í dag í skólakerfinu. Það eru ekki allir nemendur sem líður illa, sem eru óþekkir. Við vitum þó mest um þá sem haga sér ekki eins og við teljum ásættanlegt. Í vetur fékk ég beiðni um að aðstoða í bekk á unglingastigi þar sem erfiðlega gekk að halda aga og fá nemendur til að læra. Áður en ég fór í það verkefni þá var þemavika hjá nemendum. Ég heyrði hjá kennurum að þetta væri svo skemmtilegt því að sömu nemendur væru svo áhugasamir og duglegir í þeirri vinnu sem fór þarna fram. Þannig að ég spurði náttúrulega af hverju það væru ekki þemavikur alla daga ef að það væri það sem vakti áhuga nemenda. Við þurfum að vera duglegri að vinna með það sem nemendum finnst skemmtilegt og finna leið til að nám eigi sér stað þó að takmarkmið snúist um að námið sé þannig (þ.e. skemmtileg).


Ég hef skrifað áður um Twitterfærslu sem ég las fyrir nokkru síðan og ég vildi óska að einhverjir kennarar myndu taka hana bókstaflega og taka á móti nemendum í haust þannig að markmiðið væri að nemendum myndi hlakka gríðarlega til að koma í skólann næsta dag. Færslan var frá skólastjóra sem heitir Danny Steele. Ég veit ekki í hvaða landi hann býr en mig grunar Bandaríkin eða Kanada. Danny var efnafræðikennari áður en hann varð skólastjóri og það skemmtilegasta sem nemendur gerðu í hans tímum var að gera tilraunir. Eftir að hann varð skólastjóri fattaði hann að það hefði verið sniðugt að láta nemendur byrja veturinn, fyrsta daginn á því að gera það sem þeim þætti skemmtilegast. Þetta væri í stað þess sem hann og aðrir kennarar gerðu sem var að halda ræðu um skóla- og bekkjarreglur eða afhenda bara einhverja áætlun og bækur fyrir veturinn. Hann fullyrti í færslunni að nemendur sem hefðu fengið að gera það sem þeim þótti skemmtilegt að gera þennan fyrsta skóladag færu heim og segðu við foreldra sína að þeir gætu ekki beðið eftir að fara aftur í skólann. Það hlýtur að vera markmið okkar allra.


Í haust væri líka gagnlegt fyrir kennara sem vita af því að í bekknum þeirra eru nemendur sem hafa engan áhuga á námi, vilja ekki skrifa í bækurnar eða hafa ekki trúa á sjálfum sér í námi, að setja niður áætlun um hvaða atriði þeir vilja setja á oddinn (alls ekki blaðsíður í bókum). Fáið nemendur með ykkur í lið við að uppfylla þessi atriði. Ef að markmiðið er að læra deilingu, þá útskýrið þið markmiðið (og eina eða fleiri mögulegar aðferðir) fyrir nemendum og spyrjið þá hvernig þeir vilji læra og tileinka sér þá þekkingu sem er nauðsynleg. Safnið saman fullt af leiðum, s.s. bókum, blöðum, myndböndum, þrautum og öðru sem þjálfar þetta ákveðna atriði og gefið þeim val um hvað þeir velji af því veisluborði. Útskýrið fyrir þeim hvernig þekkingin og hæfnin sem þeir eiga að sýna verði metin við lokin og gefið þeim frjálsar hendur í hópavinnu um hvernig þeir læri þetta. Ekki gefa þeim færa á að vinna ein, því að hvort sem nemendur eru slakir eða miklu sterkari en aðrir þá græða allir á vel samsettri hópavinnu. Í lok hvers tíma kynna nemendur það sem þeir hafa lært og unnið í tímanum fyrir öllum öðrum og eru þannig að deila með öðrum sem kannski föttuðu ekki léttustu leiðina á sama tíma og þeir eru að ígrunda eigið nám.


Gerið samvinnuverkefni að reglu frekar en undantekningu. Veljið í hópana eftir styrkleika þannig að í hverjum hóp séu 2 nemendur sem geti auðveldlega lært og 1 sem á erfiðara með það. Ég veit af árgangi þar sem nemendur voru settir í próf í félagsmiðstöð skólans þar sem verið var að athuga styrkleika þeirra og komu sumir út sem leiðtogar og hvort að þeir væru jákvæðir eða neikvæðir leiðtogar og aðrir sem fylgisveinar sem sumir voru jákvæðir og aðrir neikvæðir. Með einhverja svona vitneskju í farteskinu er hægt að raða í hópa eftir styrkleikum og veikleikum nemenda en ekki eftir vinahópum. Þess ber að geta að það eru mjög fáir nemendur sem eru sterkir í öllu (alveg sama hvernig þeim gengur á prófum) og það geta allir eflt einhverja hæfni. Sumum foreldrum (og nemendum) líkar ekki þegar við setjum börnin þeirra í hópavinnu með einhverjum sem er ekki vinur barnsins. En þegar markmiðin eru skýr með af hverju við veljum svona í hópa og við getum útskýrt að markmiðið sé að efla ákveðna færni barnsins, þá hefur það í öllum tilfellum sem ég þekki til þau áhrif að foreldrar eru sammála þessu og styðja þessa ákvörðun kennarans við eldhúsborðið heima.


Allir þeir sem hafa nennt að lesa bloggfærslurnar mínar vita að ég er ekki hrifin af því að námsbækur stýri námi nemenda. Það er engin rannsókn sem sýnir að það skili árangri. Engin. Eins og einn starfsmaður Menntamálastofnunar sagði við mig þá kenna þessar bækur sig ekki sjálfar og það er ekki tilgangur með útgáfu þeirra. Bækur eru ítarefni og ein af mörgum leiðum til að tryggja að ákveðið nám eigi sér stað. Þannig að í haust þegar þið gerið áætlanir fyrir kennsluna ykkar, ekki skrifa niður blaðsíður í bókum. Þannig áætlun lýsir ekki hvaða nám eigi að fara fram eða hvaða hæfni eigi að þjálfa. Ef að þið eigið í vandræðum með að feta nýja braut, hafið þá í huga að það er fullt af kennurum hérlendis og erlendis sem hafa séð ljósið og geta hjálpað ykkur. Ef að útkoman vegna breyttra áherslna verður að nemendur eru meiri þátttakendur í eigin námi, að þeim líður vel og þeir sýna metnað þá er það líka markmið sem eiga að sjást í kennsluáætlunum. Það gerir nám nemenda skýrara og það gerir að sjálfsögðu starf kennarans mun betra.


Ef að svo ólíklega vill til að þið teljið að skólastjórnendur í ykkar skóla vilji að þið vinnið í bókum (klári þær fyrir næsta árgang) eða þið eruð í samkennslu með kennurum sem vilja ekki breyta, fáið þá líka aðstoð. Fólk eins og ég, Ingvi Hrannar og Bergþóra Þórhallsdóttir höfum verið að fara á milli skóla og aðstoða við ýmsar breytingar. Við erum öll með ólíka styrkleika og áherslur og það er fleiri fólk þarna úti sem hægt er að leita til vegna ákveðinna atriða eins og vegna leiðsagnarnáms eða agastjórnunar. Ákveðið bara hverju þið viljið breyta og hafið að huga að þið þurfið ekki að gera þetta ein.


Næsta haust hef ég formlega starf hjá Ásgarði - í skýjum (ais.is) sem er einmitt ráðgjafafyrirtæki fyrir skóla og okkar markmið verður að hjálpa ykkur að gera þær breytingar sem þið viljið gera og auðvitað öllum þeim skólum sem við sinnum núþegar. Þetta er nýtt fyrirtæki sem byggir samt á þeim grunni sem Trappa ráðgjöf hefur verið að sinna undanfarin ár. Mitt hlutverk þar er að fara í skóla og aðstoða stjórnendur og kennara í skólaþróun. Mínir helstu styrkleikar liggja í samþættingu námsgreina, í námsmati og auðvitað snillismiðjum (Makerspace) og það er yfirleitt það sem skólar eru að leita eftir aðstoð með þegar haft er samband við mig. Þekking mín og reynsla í sambandi við bráðgera nemendur hefur líka þótt eiga erindi til kennara. En ég verð ekki bara í ráðgjöf, því að ég fæ líka að kenna nemendum. Allt það sem ég hef skrifað hér verður leiðarljós mitt í kennslunni. Þessir nemendur verða nemendur sem að einhverjum orsökum eiga erfitt með að sækja ákveðið nám í heimaskóla. Það gæti verið vegna skólaforðunar, vegna þess að fjölskyldan flytur tímabundið til útlanda, vegna þess að það vantar faggreinakennara í smærri skóla eða valfög. Þessi skóli sem hefur nafnið Ásgarður - skóli í skýjum er yngsti skóli landsins og eins og nafnið bendir til, þá er allt kennt yfir netið. Fyrirtækið hefur reynslu af því að sinna nemendum með skólaforðun eða sem hefur ekki þótt stætt á að vera í heimaskóla með mjög góðum árangri. Ég hlakka mikið til að taka þátt í þessari vegferð. En ég er ekki (bara) að auglýsa fyrirtækið með þessu heldur er ég fyrst og fremst að benda á að það eru leiðir til að hjálpa þeim vilja hjálp og þurfa hana.


Ég byrjaði þesssa færslu á að skrifa um draum, draum þar sem sögur barna verða jákvæðari en þær eru núna á samfélagsmiðlum, þar sem fókus verður á vellíðan nemenda og þá er gott að hafa í huga TED fyrirlestur Ritu Pierson um að nemendur læra ekki ef að þeim líður illa og við höfum ekki trú á þeim. Það ættu reyndar allir kennarar að horfa á þennan fyrirlestur á hverju hausti. Hann er valdeflandi fyrir okkur kennarana.


Ég á mér líka þann draum að ég heyri ALDREI aftur kennara segja að þeirra börn geti ekki eitthvað. Öll börn geta helling ef að við höfum trú á þeim, ef að við vörðum leiðina að þeirra besta árangri með skýrum markmiðum og verkfærum. Förum út í sumar með það markmið að gera enn betur næsta vetur fyrir alla nemendur okkar, að engin nemandi fái að sleppa í gegnum rifurnar hjá okkur og að allir okkar nemendur klári næsta vetur með meiri trú á sjálfum sér og þekki betur styrkleika sína. En ekki síst að okkar nemendum líði vel.


Hafið það gott í sumar kæru áhrifavaldar




406 views0 comments

Recent Posts

See All

コメント


bottom of page