Ég hef verið svolítið góð með mig undanfarið og talað um íslensku menntaleiðina. Ég hef notað hana í sambandi við námsmat þar sem ég get ekki betur séð en að stefnan okkar sé sú besta (þ.e.a.s hugmyndafræðin á bak við hana) og mér finnst að allir eigi að herma eftir okkur. En svo í dag las ég blogg eftir Pasi Sahlberg þar sem hann segir að finnar séu farnir að kíkja til "íslensku leiðarinnar" sem byggir ekki á því að ná sem besta árangri í samræmdum mælingum heldur að láta okkur öllum líða vel og viðhalda hamingjustuðlinum. Þar sem við erum hamingjusamasta þjóðin ár eftir ár, þá hlýtur menntakerfið að vera stórkostlegt eins og það er. Hann talar reyndar líka um þrautseigju, sem er flott markmið.
En skoðum aðeins út á hvað íslenska leiðin gengur í alvöru. Ég gæti alveg skrifað um hana í löngu máli, en það nennir engin að lesa það. Ég ætla frekar að deila eigin (lauslegu) þýðingu á hvað 21. aldar hæfni innifelur.
Gagnrýnin hugsun, lausnarmiðun, rökhugsun, greiningar og geta fundið kjarnann í efninu.
Hæfni til að rannsaka og nota rannsóknaraðferðir og spyrja réttu spurninganna.
Sköpun, listhæfileiki, forvitni, hugmyndaflug, nýsköpun og að geta tjáð sig á þann hátt.
Þrautseigja, sjálfsþekking, áætlunargerð, sjálfsagi, aðlögunarhæfni, frumkvæði.
Hæfni til að tjá sig munnlega og í riti. Tala opinberlega, kynna og hlusta.
Stjórnunarhæfileikar, samvinnuhæfileikar, hæfni til að nota stafrænar leiðir í samvinnu.
Upplýsingamennt (UT), læsi, miðla og fjölmiðlalæsi, forritun, að geta greint upplýsingar.
Borgarlegt, siðferðilegt og félagslegt læsi.
Efnahags- og fjármálalæsi, frumkvöðlahugsun.
Þekking á heimsmálum, fjölmenningarlæsi, samhygð.
Vísindalæsi og rökhugsun.
Umhverfis- og umhverfisverndarlæsi, skilningur á vistkerfum.
Læsi á heilbrigði og vellíðan, þ.a.m næringu, mataræði, þjálfun og lýðheilsu
Þetta er svolítið kjarninn í íslensku leiðinni og það sem grunnþættir menntunar og lykilhæfni gengur út á. Ef að þið trúið mér ekki lesið þá bara fyrri hlutann í aðalnámskrám, nýja menntastefnu og grunnskólalögin. Ef að við sleppum öllum hæfniviðmiðum faggreinanna og uppfyllum þessa tvo þætti (grunnþætti og lykihæfni) erum við að uppfylla kröfur menntayfirvalda í stórum dráttum (reyndar ekki kröfur faggreinanna, en það er annað mál).

Comments