Innleiðing á hæfnimiðuðu námi hefur ekki tekist sem skyldi eins og við vitum og fram hefur komið í viðtölum við viðmælendur Morgunblaðsins sem birst hafa undanfarið. Viðtölin eru mörg mjög upplýsandi en það er oft meira ósagt en það sem sagt er. Ég er ekki að þykjast hafa öll svörin, en ég hef verið að vinna við að aðstoða kennara undanfarin ár að breyta kennslunni og nýta viðmið aðalnámskrá, þannig að ég hef reynslu af þessu.
Það sem ég hef aðallega orðið vör við varðandi aðalnámskránna og það sem gerir kennurum erfitt fyrir eru eftirfarandi atriði:
Menntamálastofnun hefur í gegnum tíðina gefið út bækur fyrir skólana og sumar þeirra eru byggðar á gömlum fræðum og gömlum markmiðum. Starfsmenn stofnunarinnar hafa sjálfir sagt að bækur sem eru gefnar út fyrir árið 2011 standist varla ný viðmið. Ég er ekki að meina að við eigum ekki að kenna nemendum fræðin, heldur að það vantar svo margt sem ætti að vera í þessum bókum og kannski ætti frekar að vera þar. Ef að við horfum við framtíðar barnanna þá vitum við að þau þurfa að vera með góða rökhugsun, gagnrýnin (ekki veitir af þegar hægt er t.d. að breyta ræðum fólk með gervigreind til þess að koma þeim í vandræði eða nota frægt fólk til að boða skaðlegan boðskap) og lausnamiðuð, en það er ekki síst af því að við vitum ekki hvernig starfsvettvangur þeirra verður í framtíðinni og því næstum ómögulegt fyrir okkur að undirbúa þau fyrir eitthvað sem við þekkjum ekki. Þau þurfa að þekkja verkfærin sem eru í boði til að finna lausnirnar. Við getum ekki sagt þeim að svörin séu í bókum, við sjálf leitum yfirleitt af svörum á internetinu. En við þurfum, eins og börnin að læra að vera gagnrýnin á það sem þar er. Fólk er misduglegt að koma skoðunum sínum á framfæri og nú þegar uppgangur populisma er gríðarlegur hér og erlendis, þá veitir ekki af að við séum gagnrýnin á það sem við lesum og sjáum. Við hunsun kannski orð fræðimanna en hlustum á hina af því að við trúum orðunum sem sögð eru. Þetta er ekki kennt í námsbókum. Þannig að þær þurfa að vera eitt af þeim verkfærum sem við notum, bara ekki aðalverkfærið því að þær verða þessum nemendum ekki aðgengilegar síðar og því varla verkfæri sem hentar til framtíðar. Inntakið skiptir því meira máli en bókin og hvernig hún er uppbyggð.
Íslensku menntakerfi fer aftur í alþjóðlegum samanburði. Það sýna rannsóknir og það er ekkert hægt að efast um það. Við þekkjum alveg að þegar nemendur taka próf sem gilda ekkert fyrir þá, þá er lítið lagt í þau, sérstaklega ef að þau eru flókin og erfið. En það er líka alveg klárt að ef að nemendum finnst prófin auðveld og þeir sjá að þeir kunna þetta alveg, þá eru meiri líkur á að þeir “nenni” að leggja eitthvað á sig. Ef að þeim finnst þeir vel undirbúnir og engin ástæða til að fá lélega útkomu, þá “nenna” þeir frekar. Þannig að ef að við veltum fyrir okkur þessari staðreynd að okkur fer aftur í íslensku, í stærðfræði og í náttúrufræði þá hljótum við sem sérfræðingar að geta horft í eigin rann, skoðað hvað við getum gert betur til að útkoman verði betri fyrir börnin. Ef að þau fá slæma útkomu úr prófum þá verðum við að vinna með það. Kenna þeim það sem vantar upp á, þjálfa það sem við erum ekki að þjálfa og svo framvegis. Sem kennari hef ég oft séð að nemendur sem hafa komið úr erlendum skólum eru langt á undan okkar börnum í stærðfræði. Þetta hefur verið svona í langan tíma en svona fullyrðingar orka að sjálfsögðu tvímælis. Það koma ekki allir klárari, en of margir gera það. Við hljótum því að geta gert meiri kröfur á okkar börn. Skoðum námsefnið, sleppum endurtekningum ár eftir ár og gerum ráð fyrir að nemendur kunni það sem við höfum kennt. Ef að þeir þurfa upprifjun, notum þá tæknina, bendum á myndbönd sem eru nú þegar til, eða búum til okkar eigin. Viti nemandi í 5. bekk ekki hvað nafnorð, sagnorð og lýsingarorð eru, en einhverjir aðrir í bekknum þekkja það, bendum við á myndbönd fyrir þá sem ekki kunna. Við þurfum að passa að miða ekki kennsluna okkar við minnsta mögulega samnefnara í hópnum. Ef að það eru nemendur sem eru hægir að tileinka sér nýja hluti, látum þá inn í hóp með öðrum sem eru sneggri. Látum þau útskýra uppi á töflu af hverju þeir vita svörin og hvernig þeir komust að þeim niðurstöðum sem þeir gerðu. Þeir sem eru seinir að nema, græða bara á því. Það er finnska leiðin. Nemendur vinna saman og sitja ekki einir við borð með eigin bók að leysa verkefnin.
Varðandi aðalnámskrá og mat á greinum er margt sem er óljóst að því er virðist í skólum. Sem kennsluráðgjafi og áður verkefnastjóri hef ég heyrt ýmsar ástæður fyrir þessum ruglingi.
Bækur sem MMS gefur út eru ekki allar auðmetanlegar út frá hæfniviðmiðum. Ef að þið takið t.d. bókina Norðurlönd sem er kennd á miðstigi eru kannski tvö - þrjú hæfniviðmið sem er hægt að miða við ef að hún er kennd út frá lesbókinni. Það þarf því að skoða hæfniviðmiðin áður en efnið er tekið í notkun. Annað gæti orðið til þess að kennurum reynist erfitt að meta hæfniviðmiðin að lokinni vinnu með bókina. Oft þarf samt lítið til. Að láta nemendur kynna eitthvað er hæfniviðmið, að láta þau vinna saman og nota viðeigandi hugtök eru tvö í viðbót. Vandamálið birtist bara þegar maður skoðar ekki viðmiðin áður en maður ákveður hvaða þætti maður vill að nemendur tileinki sér (nb. það geta ekki bara verið blaðsíður í bók, það þurfa að vera einhver þekkingarviðmið eða önnur metanleg hæfni). Við verðum því að rýna vel í efnið sem verið erum að nota hverju sinni og vera gagnrýnin á það námsefni sem er í boði.
Sumir virðast halda að það megi ekki meta sama hæfniviðmiðið oft, að þegar hæfni er náð, þá sé henni náð (ég veit að Gylfi Jón sem var hjá MMR sagði það, ég heyrði það líka). Þannig geti nemendur bara fengið nýtt mat ef að þeir fari ofar. Það getur ekki verið rétt. Við verðum að gefa bæði nemendum og foreldrum niðurstöður úr verkefnum þeirra og prófum eins og við höfum alltaf gert með reglulegu millibili allt skólaárið. Við getum verið að meta eitthvað hæfniviðmið í einu verkefni þar sem nemandi stenst þær kröfur sem við gerum, en svo gerir hann það ekki í næsta. Hann þarf að fá að vita það og það sama á við um foreldra hans. En þegar kemur að mati á viðmiði (A-D námsmat) við lok 10. bekkjar eða skólastiga þá horfa kennarar á söguna á bak við viðmiðið. Ef að nemandi sýnir að hann sé oftast að ná viðmiðinu þá fær hann B í námsmati. Nemendur í 10. bekk eru hræddir um að við drögum þá niður fyrir að hafa ekki náð viðmiðum í 8. Bekk (sem er alveg hægt. Námsmatið er alltaf miðað við eðlilegar kröfur í hverjum árgangi). Það er heldur ekki rétt. Við skoðum að sjálfsögðu hvernig nemandi hefur vaxið. Þetta er ekki vélrænt mat, þetta er mannlegt námsmat. Alveg eins og alltaf hefur verið.
Fyrir utan landsprófin nýju, þá búa kennarar alltaf til próf sem samræmast kennslu þeirra. Þó að ég hafi lagt fyrir lokapróf í gamla daga fyrir mína nemendur í 10. bekk og gefið þeim einkunn, þá var prófið að sjálfsögðu út frá því sem ég hafði kennt. Nemendur í næsta skóla sem fengu sömu einkunn gætu hafa farið í mun léttara eða þyngra próf án þess að nokkur skipti sér að því. Þannig að allt námsmat er huglægt. Landsprófin (samræmdu- og Pisa) mæla svo eitthvað sem að einhverjum finnst eðlilegt að nemendur kunni á vissum aldri. Ég er nokkuð viss um að svona próf eru líka misjöfn milli landa (nema Pisa auðvitað). Við gerum ekki sömu kröfur í sumum fögum (stærðfræði og náttúrufræði) og margar aðrar þjóðir, þannig að samræmd próf hljóta að miða við kröfur í hverju landi. Málið er bara að próf sem mælitæki eru alltaf huglægt mat. Það er svo bara spurning hvað við gerum við niðurstöðurnar.
Hæfniviðmið og matsviðmið tala ekki alltaf saman og ef að skólar ákveða að nota matsviðmiðin í 10. bekk en hæfniviðmið á öðrum stigum, verður hæfnikort nemandans ekki nýtt til að meta hvað hann getur. Nemendur safna þá inn á kortið í t.d. 8. og 9. bekk en eru svo með allt annað námsmat í 10. bekk sem er síðan nýtt til að meta þau út úr skólanum. Hæfniviðmiðin verða þá heldur ekki krafa í þeim árgangi eða nemendum gefið tækifæri til að bæta hæfni sem þeim þeir náðu ekki áður. Besta leiðin að mínu mati er að merkja áfram inn á hæfnikortin í 10. bekk og nota matsviðmiðin eingöngu til að ákveða hvort að nemandi sem við viljum t.d. gefa B í námsmati standist þann texta sem er við matsviðmiðin. Ég get ekki séð hvernig bæði geta stýrt námsmati nema að skapa mikla óþarfa vinnu fyrir kennara.
Sumir halda því fram að það megi ekki vera með próf. Ég er ekki talsmaður prófa nema þau séu notuð til að bæta kennsluna. En það þýðir ekki að próf séu ekki við hæfi. Ef að kennari vill meta hverjir náðu námsefninu og hverjir ekki (sérstaklega ef að þeir vilja hjálpa þeim sem ekki náðu að ná meiri færni) þá er það mjög eðlilegt. En það þarf ekki að fara inn á hæfnikort nemanda nema að prófið sé þannig uppbyggt að það standist hæfniviðmiðin. Það verður þó vandamál ef að námsmatið byggir að stórum hluta á prófum og það veldur mörgum kennurum vandræðum og miklum áhyggjum. Þess vegna er besta leiðin að skoða hæfniviðmiðin, velja þau sem kennari vill vinna með og útbúa verkefni og próf út frá þeim. Það auðveldar vinnuna umtalsvert.
Sum hæfniviðmiðin eru illskiljanleg en það er misjafnt milli faga. Mér finnst þau best í erlendum tungumálum, en þau byggja líka á Evrópska tungumálarammanum. Ef að við skoðum svo önnur hæfniviðmið nánar, t.d. í náttúrufræði þá er verið að biðja um svipaðan eða sama hlutinn aftur og aftur. Hér eru dæmi:
Nemandi getur:
1. greint stöðu mála í eigin umhverfi og aðdraganda þess, í framhaldi skipulagt þáttöku í aðgerðum sem fela í sér
úrbætur.
2. tekið eftir og rætt atriði í umhverfi sínu, gert grein fyrir áhrifum þeirra á lífsgæði og náttúru, sýnt umhverfinu umhyggju og rökrætt eigin skoðun á því.
3. sýnt fram á getu til að vinna að umbótum í eigin sveitarfélagi eða í frjálsum félagasamtökum.
Það er aðeins stigsmunur á þessum viðmiðum. Svo eru stundum sömu eða svipuð viðmið á milli greina. Það má sjá varðandi kynhegðun sem er að finna í náttúrufræði, samfélagsfræði og skólaíþróttum í mismunandi útgáfum.
Það er því ekki spurning í mínum huga að það þurfi að skoða hæfniviðmiðin og gera þau aðgengilegri, sérstaklega í náttúrufræði og samfélagsfræði. Það er líka glatað að vera með samþætt fög og þurfa svo að ákveða úr hvaða fagi maður ætlar að taka viðmið sem er að finna í mörgum þeirra þegar nemandinn uppfyllir þau öll á sama tíma. Þetta mætti laga.
Ég er annars mjög hrifin af aðalnámskránni og því sem hún hefur gefið skólunum. Skólar geta núna í meira mæli sérhæft sig ef að þeir vilja, svo lengi sem þeir uppfylla viðmiðin. Ef að ég væri í skóla sem vildi leggja meiri áherslu á list- og verkgreinar þá er það alveg í boði. Það er hægt að kenna fullt af þekkingamiðuðu efni í tengslum við þau fög. Ef að skólinn minn myndi aftur á móti frekar leggja meiri áherslu á tækninám, þá er það líka í boði. Þannig að frelsið er gott og það gæti líka gefið nemendum meira val. Þar sem ég vinn eru þrír skólar á litlu svæði. Ef að hver þeirra væri með sérhæfingu, þá gætu nemendur og foreldrar þá líka valið skóla eftir þeim áherslum sem henta barninu. Viðmiðunarstundaskráin er heldur ekkert vandamál. Svo lengi sem að við sinnum þessum fögum og getum sýnt fram á að við séum að þjálfa grunnþekkingu eins og allir aðrir hvernig sem við kjósum að gera það, þá er það í boði. Það er nefnilega svo margt gott í boði á meðan miðstýringin er ekki meiri en hún þó er.
En það þýðir ekki að ég vilji ekki eftirlit. Mér finnst nauðsynlegt að stjórnendur sem eru í vandræðum með að fá sitt fólk til að uppfylla kröfur úr aðalnámskrá (hverjar sem þær svo sem eru eða verða) fái aðstoð. Ég vil þó ekkert breskt Ofsted kerfi sem lokar skólum og rekur stjórnendur. Ég myndi vilja aðstoð inn í skólana sem er ekki valkvæð. Við erum með ytra mat sem hefur enga merkingu. Skólar fá athugasemdir, gera umbótaáætlun en svo hvað? Skoði maður næsta ytra mat er stundum að finna nákvæmlega sömu athugasemdirnar. Það breyttist ekkert á milli heimsóknanna og það gerist ekkert þó að skólinn hafi ákveðið að hunsa matið. Sjálfstæði skóla er algjört hvað þetta varðar. Þannig geta skólar sem uppfylla ekki aðalnámskrá og/eða eru með enga eða mjög litla skólaþróun í gangi starfað áfram óáreittir. Þannig að mér finnst þurfa gagnlegt eftirlit af hálfu hins opinbera. Ég þekki þó örugglega marga sem eru vissir um að það sé ekkert svoleiðis til. En ef að maður skoðar ytra matið, þá eru þar gríðarlega margir góðir punktar sem ættu að vera í lagi í öllum skólum.
Að skólar árið 2019 noti sömu kennsluaðferðir og voru notaðar þegar ég var í grunnskóla er svo ekki í lagi. Við erum ekki að undirbúa nemendur undir sama veruleika og var fyrir 40 árum. Margir skólar eru gera frábæra hluti, en sjaldnast allir í skólanum. Kennarinn hefur nefnilega gríðarlegt vald til að breyta engu í sinni kennslu. Að breyta kennsluháttum tekur tíma en þegar sumir eru ekkert að gera, þá erum við komin í vandræði sem samfélag. Hver og einn kennari ætti því að skoða eigin kennslu, hvað það er sem þeir vilja að nemendur læri hjá þeim, hvort að það sé búið að kenna það áður og kominn tími á að dýpka þekkinguna eða hvort að nemandinn fái nægjanlega þjálfun í gagnrýnni hugsun, í lausnamiðun, að nota eigin áhugasvið og sýna ábyrgð í námi.
Við erum með skapandi greinar í skólum á Íslandi sem er ekki allstaðar og sköpun er mikilvæg enda ein af grunnþáttum menntunar. En ef að nemendur í skapandi greinum eiga allir að fylgja sömu uppskrift, þá er það lítil sköpun. Hugsum um hvað við erum að gera og hvort að við sem sérfræðingar getum ekki gert betur fyrir okkar nemendur. Biðjum einhvern að skoða kennsluna okkar og fáum endurgjöf um hvort að það sé eitthvað sem að við getum gert betur. Skólar eiga að vera lærdómssamfélag og þannig læra allir hver af öðrum og ekki síst lærum við helling af nemendum okkar. Þeir geta oft gefið hreinskilnasta endurmatið og komið með frábærar leiðir til að æfa þá þekkingu eða hæfni sem við viljum leggja til grundvallar í námi þeirra.
Mynd: SecEd The voice for secondary education. (2018). Sótt af http://www.sec-ed.co.uk/best-practice/creative-learning-creative-teaching/
Comments