top of page
Writer's pictureAnna María

Það sem ég hefði átt að gera

Updated: Jan 7, 2021

Undanfarin ár hef ég verið heilluð af hugmyndafræði Shirley Clarke um leiðsagnarnám og viðmið um árangur. Það er svo margt í þessu sem ég hefði getað nota til að virkja stærri hóp nemenda þegar ég var að kenna. Ég hlustaði nýverið á Ted fyrirlestur John Hattie þar sem hann sagði að kennsla, eins og ég stundaði, var svolítið eins og segja nemendum að fara í leik og ekki segja þeim hverjar reglurnar eru. Ég taldi mig vera að gefa þeim tækifæri til að setja mark sitt á verkefnin, nýta áhugasvið sín og styrkleika en ég gerði það án þess að útskýra fyrir þeim hvernig gott verkefni liti út. Þetta þýddi að oftast gerðu nemendur bara það sem þeir héldu að ég vildi fá, af því að ég er kennari, eitthvað sem þeir voru vanir að gera eða sáu aðra nemendur gera. Ég fékk rosalega mörg flott verkefni, en ég fékk þau frá nemendum sem gátu lært, voru dugleg að spyrja mig (og vissu því af hverju þeir ættu að spyrja) og sýndu faginu (dönsku) áhuga. Ég fékk lítið frá hinum og sætti mig við það. Þeim gekk hvort sem er ekkert svo vel í öðrum fögum heldur. Eins og margir kennarar taldi ég það því vera eðlilegt ástand og eðilegan fórnarkostnað.

Það sem ég hef aftur á móti lært er að verkefnin mín voru allt of opin og afraksturinn sem átti að koma úr þeim, oft of óljós. Ég hefði svo gjarna vilja að ég hafi þekkti til viðmiðs um árangurs (e. success criteria), um að kenna nemendum að vinna saman (ekki bara ætlast til þess af þeim) og að kenna þeim að bæta eigin verkefni með skýrum hætti. Ég er sek um að hafa tekið verkefni af þeim, farið yfir þau og afhent þeim þau til baka með einkunn. Þetta gerði ég án þess að velta fyrir mér gagnseminni. Þetta er líka mjög algengt að nota þá aðferð og oft sem okkur kennurum dettur hreinlega engin önnur leið í hug til að meta nemendur. En þetta er arfaléleg aðferð því að það á ekki taka verkefni af nemendum fyrr en það uppfyllir það sem það á að uppfylla. Verkefnið og námsmatið er ferli.

Hér er saga sem flestir geta sagt. Það var kennari sem ég þekki sem eyddi heilli helgi í að fara yfir íslenskuritgerðir nemenda í unglingadeild, skrifaði inn á þær athugasemdir um hvað mætti bæta, gerði athugasemdir við orðalag og gaf ritgerðinni einkunn. Nemendur tóku við blöðunum á mánudeginum með þeim skilaboðum að þeir mættu skila inn aftur ef að þeir vildu. Nemendurnir skoðuðu námsmatið og á meðan sum blöðin enduðu ofan í blaðabunkanum í skólatöskunni, enduðu nokkur þeirra í rusli kennarans. Enginn skilaði aftur. Maður spyr sig, hverju skilaði öll þessa vinna kennarans? Engu líklega.

John Hattie hefur farið í gegnum rannsóknir sem hafa verið gerðar á milljónum nemenda (það kallast meta-analýsa) og fundið út hvað það er sem hefur bætandi áhrif á nám þeirra samkvæmt þeim rannsóknum. Það er ekki að nota fyrrgreinda aðferð, það er ekki að gefa nemendum tæki, það er ekki einu sinni að gefa ADHD nemendum lyf (sem ég hélt að hefði gríðarleg áhrif) sem hefur mestu áhrifin, heldur áhugi, samvinna og fagmennska kennaranna. Ef að þeir vinna saman í því að finna leiðir fyrir alla nemendur, þá skilar það meiri árangri en nokkuð annað. Þeir þurfa að vera uppteknir að því að kenna nemendum að læra og þeir þurfa að vera vakandi fyrir hvað virkar og hvað virkar ekki á einstaka nemendur.

Hann tilgreinir það sem virkar skv. þessari meta-analýsu hans og sem dæmi af því sem hann nefnir og mér finnst ég hefði átt að nota:

Einstaklingsmiðuð leiðsögn (sem gæti verið Viðmið um árangur).

Hugtakavinna og námstækni.

Þjálfa hugann og nota eitthvað eins og Hugarfar vaxtar meðvitað með nemendum.


Eitt af þessu hefði bætt kennsluna mína til muna og þannig upplifun mun stærri hóps nemenda en ég sætti mig við að ná til á kennslunni minni. Ef að ég hefði innleitt allt af þessu, sem ég sé að ég hefði vel getað gert, þá hefði ég náð til allra nemendanna minna. Ef að ég hefði svo unnið með öðrum kennurum (ég var eini dönskukennarinn lengi), þá hefði ég getað lært af þeim hvað virkaði á suma nemendur sem sýndu mínu fagi lítinn áhuga. Ég hefði kannski lært hvers konar verkefni þeim þættu skemmtilegt að leysa og getað nýtt mér það í námi þeirra hjá mér.

Líklega er vandamálið helst það að við hugsum ekki nóg í lausnum og við ígrundum svo sannarlega ekki nógu oft eigin kennsluhætti. Ég held að ef að við náum til færri nemenda en 80% í bekk eða árgangi (það er færri en 80% fá Hæfni náð), þá þurfum við að endurskoða það sem við erum að gera. Við ættum svo að hækka markið upp í 97% eða 100%. Við þurfum að taka með í reikninginn að sumir eiga slæma daga, en skv. fyrrgreindri rannsókn Hattie hafa utanaðkomandi aðstæður mun minni áhrif á nám nemenda en áður var talið. Ef að maður skoðar það sem hefur áhrif á nám nemenda og sér t.d. að svefn, ADHD og fátækt hefur akkúrat engin áhrif (skv þessu en það er íslensk rannsókn sem gefur annað í skyn), þá gæti maður orðið hissa. https://visible-learning.org/hattie-ranking-influences-effect-sizes-learning-achievement/

Auðvitað er það þannig að engin rannsókn er heilagur sannleikur, en þetta eru samt sláandi niðurstöður og sem kennari ætti maður að skoða frekar eigin kennsluhætti skv. þessu en utankomandi aðstæður nemenda eða það sem við teljum vera hamlandi þætti fyrir að nám eigi sér stað. Þetta snýst mjög mikið um okkur og mörg okkar þekkjum söguna sem er að baki myndinni Freedom Writers (ég mæli með henni í kennslu). Myndin byggir á sannsögulegum atburði og allir 150 nemendurnir sem leikarnir standa fyrir, skiluðu sér í framhaldsnám. Þeir áttu skelfilegt bakland og enga framtíðarmöguleika en þessi eini kennari gerði kraftaverk og það er það sem John Hattie er að tala um og rannsóknir sýni að skili mestum árangri. Viðhorf okkar, metnaður til að einstaklingsmiða kennsluna okkar og aðlaga hana, er mesti áhrifavaldurinn á hvernig nám á sér stað. Ef að við höfum trú á að nemendur okkar geti allir lært, þá getum við orðið áhrifavaldur (það er vinsælt núna). Það er engin stétt með sömu tækifæri og við þegar að því kemur.

Með allt þetta í huga og þær leiðir sem Shirley Clarke hefur lagt fram í tengslum við Leiðsagnanám, þá gætum við verið með skólakerfi sem nær til allra og skilur ekki eftir nemendur með slakt bakland, með annað móðurmál en íslensku eða öll þessi börn sem eru greind með hina og þessa ástæðuna fyrir þeim gengur illa í námi. Hér eru tvö Youtubemyndbönd sem sýna kennslustundir þar sem Viðmið um árangur er notað og Leiðsagnarnám er sett í grunninn. https://www.youtube.com/watch?v=DGNp0AJte_c og

Ef að það er einhver að lesa þetta sem veit það ekki, þá byggir aðalnámskrá frá 2011 á þessari hugmyndafræði og því væri mun auðveldara fyrir skóla að uppfylla allt það sem þar er krafist ef að þeir tækju um Leiðsagnarnám sem kjarna í því sem eru að gera. Ég hef heyrt stjórnendur í íslenskum skólum sem hafa innleitt þessa hugmyndafræði tala um að hegðunarvandamál hverfi næstum og að allur skólabragurinn hafi orðið mun jákvæðari. Það eru því til leiðir til að leysa það sem við erum oftast að kljást við, við þurfum bara að læra af þeim sem eru með góðar reynslu og hafa vilja til að laga ástand sem þarf að laga.



126 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page