top of page
  • Writer's pictureAnna María

Þrautseigja nemenda

Sem sjálfskipaður sérfræðingur í málefnum bráðgerra nemenda þá heyri ég oft að þeir hafi ekki þrautseigju í námi sínu. Þegar ég spyr hversu margir nemendur hafi þrautseigju í námi sínu er það misjafnt en nokkuð ljóst að þetta á við um mun fleiri nemendur en þá sem hafa greinst bráðgerir. Þannig að við þurfum að horfa á þetta með öðrum gleraugum. Það eru ekki bara þessir nemendur sem þurfa að sýna þá hæfileika, það eru allir nemendur. Það er ekki heldur raunhæft að segja að nemandi sem hafi ekki þrautseigju geti ekki verið bráðger (en ég heyri það samt reglulega). Þrautseigja þjálfast með því að eiga við áskoranir og þær áskoranir þurfa að vera eitthvað sem við skiljum tilganginn með. Ég er ekkert að fara að sýna einhverja þrautseigju varðandi hluti sem ég vil alls ekki gera. Það er frægt í minni fjölskyldu þegar ég ákveð að sauma gardínur (það er langt síðan mér datt það síðast í hug). Ég byrja á minnsta glugganum í stofunni og svo hætti ég eða það þyrmir yfir mig meiriháttar frestunarárátta. Minn fyrrverandi kláraði yfirleitt saumaskapinn þegar hann var orðin leiður á efninu á borðstofuborðinu. Ég hafði hvorki metnað né þrautseigju til að klára þetta, þó að ég vissi að ég yrði mjög ánægð að fá afraksturinn upp. Þegar ég lærði grunninn í forritun, þá gat ég setið við tímunum saman, fylgt leiðbeiningum á netinu og það var þvílíkur sigur fyrir mig þegar ég gat stjórnað ljósunum á brauðbrettinu sem var fyrir framan mig. (Ef að þú heldur að brauðbretti sé það sem við geymum í eldhúsinu, þá er það ekki rétt ályktun en eðlileg og ég skyldi ekki heldur fyrst þegar ég heyrði þetta orð, hvað í ósköpunum brauðbrettið mitt hafði að gera með örtölvur!) En varðandi forritunina, þá sýndi ég þrautseigju og uppskar eftir því. Þetta var samt mikil áskorun fyrir mig því að ég skyldi ekki lingóið. Árangurinn tengdist þó eingöngu því að ég hafði áhuga á því sem ég var að gera.

Þannig að ef að við skoðum hvað nemendur eru að gera þegar við kvörtum undan því að þeir sýni ekki þrautseigju í námi sínu, þá verðum við að skoða hvað það er sem við ætlumst til af þeim. Er efnið áhugavekjandi? Er það hentugt fyrir 80% hópsins eða of létt fyrir suma og of erfitt fyrir aðra? Er hægt að vinna með efnið (markmiðin) á fjölbreyttan hátt (við lærum öll á mismunandi hátt)? Er námið sett þannig upp að nemandinn veit að það er alltaf eitt rétt svar og að kennarinn er með það? Ef að námið gengur út á að gera eintómar endurtekningar, finna svör í bókum sem leitarlestur dugar á, þurfum við að spyrja okkur, hvað er það sem við viljum að sitji eftir og hvernig teljum við að nemendur geti sýnt metnað og þrautseigju í þeim verkefnum sem við setjum fyrir þá.

Ég er búin að vera að taka nokkur viðtöl við kennara fyrir mastersverkefnið mitt og hingað til hef ég ekki tekið viðtal við neinn sem man hvað hann var að gera í grunnskóla. Þeir muna ekki efnið, þeir muna ekki eftir verkefnum en þeir muna eftir að hafa verið í leiðinlegri vinnubókavinnu. Einn af viðmælendum mínum sagðist forðast þannig kennslu eftir bestu getu af því að hann hefur ekki trú á hún skili árangri. Ígrundun um tilgang þess sem við kennum er því gríðarlega mikilvæg. Tilgangurinn getur ekki verið blaðsíður í bókum. Þú mátt endilega endurtaka það daglega ef að þú heldur að það sé mikilvægt að klára bækurnar sem Menntamálastofnun gefur út. Einn af viðmælendum mínum sagði að vinnubókavinna þjálfaði ekki þrautseigju en ef að nemandi hefur lítið gaman af þannig vinnu og skilur ekki tilganginn en klárar verkefnin samt, þá er hann náttúrulega að sýna ákveðna þrautseigju. Hann er kannski ekki að gera það til að læra, heldur til að fá ákveðið viðmót eða námsmat hjá kennaranum. Ég ímynda mér að þetta sé algengara hjá stelpum en strákum án þess að hafa nokkuð annað fyrir mér en hugboð mitt.

Þrautseigja er eitthvað sem kennarar kvarta yfir að sé minnkandi hjá nemendum. Á þessum kóvid tímum finnum við líka sjálf hversu erfitt það getur verið að sýna þrautseigju til að komast í gegnum ástandið. En við sjáum líka hversu mikilvægt það er að hafa þrautseigjuna til að komast í gegnum þessa áskorun. Að hafa ekki þrautseigju núna, getur haft skelfilegar afleiðingar. En hvað getum við kennarar gert til að efla þrautseigjuna þegar okkur finnst hún vera þverrandi hjá nemendum okkar?

Við þurfum fyrst og fremst að gefa þrautseigjunni pláss í kennslunni okkar. Allt sem við hlúum að getur blómstrað. Ef að við reiknum bara með því að nemendur eigi að hafa hana án þess að við pælum í henni og sinnum henni, þá verðum við fyrir vonbrigðum. Stærðfræði, málfræði, formúlur í eðlisfræði og heljastökk eru eitthvað sem maður þarf þrautseigju til að ná færni í. Þekking á engu af þessu er meðfædd og við getum ekki lært þetta "óvart" eins og ensku. Við verðum að sinna þekkingarmarkmiðunum til að árangur náist. Það er það sama með þrautseigjuna. Í fyrirlestri um rannsókn á stærðfræðinámi í íslenskum skólum sem kynnt var á Menntakviku í haust, kom fram að kennarar eiga það til að gefa nemendum svör þegar þeir spyrja eða jafnvel reikna fyrir þá. Í þannig tilfellum missir nemandinn af þjálfun í rökhugsun, þrautseigju og stærðfræðiaðferðinni. Hver er þá tilgangurinn? Getur það verið að hann eigi bara að kunna að setja upp dæmið án þess að gera sér grein fyrir tilgangi þess? Getur verið að tilgangurinn sé bara að klára dæmalistann? Ég lærði það fljótlega í mínu hjónabandi að ég þurfti ekki að gera alla hluti sem ég vildi ekki gera (eins og að sauma), það var einhver annar sem gerði það fyrir mig ef að ég beið nógu lengi. Nemandi sem spyr mikið er líklegri til að fá of mikla aðstoð frá kennaranum þar sem kennarinn gefst upp á endanum. Ég heyrði af kennara í framhaldsskóla sem gafst upp á að kenna einum nemanda stærðfræði því að hann spurði of mikið og vildi fá að vita af hverju hann ætti að leysa dæmin á ákveðinn hátt. Kennarinn svaraði fyrir rest "þú átt ekki að skilja þetta, bara gera þetta". Verum mjög vakandi fyrir þessum tækifærum sem við fáum til að þjálfa þrautseigju nemenda og pössum okkur að velja ekki fljótlegustu leiðina.

Til að verða góður í fyrrgreindum námsþáttum (stærðfræði, málfræði....) er rökhugsun mikilvæg. Að geta yfirfært þekkingu, að geta dregið rétta ályktun og að sýna þrautseigjuna til að vinna með áskorun þar til markmiðinu er náð, er nauðsynleg til að ná hæfni í þessum og flestu öðru í lífinu. Þess vegna ættu verkefni sem þjálfa nákvæmlega þessa hæfni að fá pláss í tímum hjá okkur. Ef að við erum með 4-5 stærðfræði- eða íslenskutíma á viku, væri sniðugt að amk einn þeirra þjálfaði þessa hæfni. Ég tók saman nokkrar tillögur af verkefnum sem væri sniðugt að hafa til hliðsjónar.

Verkefni til eflingar þrautseigju og rök
.
Download • 305KB
70 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page