top of page
  • Writer's pictureAnna María

2. Vinna með snillingum

Í Hólabrekkuskóla í fyrra var ég með frábært verkefni. Ég hitti fulltrúa hvers bekkjar frá 2. bekk og upp í 9. bekk einu sinni í viku. Reyndar hitti ég unglingana ekki það oft, því að það voru yfirleitt próf þegar ég ætlaði að hitta þá. En þessir nemendur voru allir einstaklingar sem kennarar þeirra mátu svo að væru skapandi og sum þeirra þurftu meiri áskorun en námið sem bekkirnir voru að fara í gegnum, bauð upp á.

Ég fékk svo beiðni núna um daginn um að taka að mér einn snilling í Hörðuvallaskóla, sem ég gerði. Í síðustu viku hitti ég viðkomandi nemanda sem tilheyrir yngri deildinni og er kominn með skólaleiða strax. Þegar við hittumst kenndi ég honum það sem ég kann á tvíundarkerfið og gaf honum bæði útprentað verkefnahefti og spurningar á Google Classroom til að svara í tímum í þessari viku. Við hittumst aftur seinni partinn í vikunni, undirbúum að hann geti kennt samnemendum það sem hann lærði og svo í framhaldinu ætlum við að læra um Pythagoras. Þá gerir hann kynningu á þeim snillingi og útskýrir hvernig bollinn virkar sem er kenndur við Pythagoras. Við ætlum að reyna að prenta hann út í 3D prentaranum.

Þetta er sérkennsla fyrir snjalla krakka. Við viðurkennum fúslega að nemendur sem eiga erfitt með að tileinka sér það sem við erum að kenna, fái sérkennslu. En við viðurkennum ekki svo glatt að nemendur sem eiga allt of auðvelt með námið eigi líka rétt á sérkennslu eða verkefni við hæfi. Þetta þurfum við að laga.

Skólinn fékk að vita eftir þennan eina fund að þessi ungi nemandi sem var orðinn mjög leiður á skólanum, var kominn með glampa í augun af spenningi yfir komandi verkefnum. Skólaleiðinn er horfinn. Það er löngu komin tími til að hætta að steypa öllum í sama mót og koma til móts við börn þar sem þau standa og efla þau í námi miðað við áhugasvið þeirra.

15 views0 comments

Comments


bottom of page