Í fyrsta sinn í vetur sá ég og heyrði eitthvað sem ég hef ekki heyrt áður en er kannski undirrótin að undirliggjandi óánægju í sumum skólum sem ég hafði ekki fattað fyrr. Sumir kennarar og líklega aðrir starfsmenn vilja nefnilega fá hrós fyrir vinnuna sína. Án þess finnst þeim stjórnendur ekki kunna að meta starf þeirra og eftir að hafa kannað þetta aðeins, þá hef ég heyrt að þetta sé tilfinning margra. Þetta er þó tvíbent að mínu mat. Það eru kennarar sem vilja þetta á meðan öðrum finnst þetta óviðeigandi (ég sem sagt heyrði það líka) og vilja alls ekki fá hrós frá stjórnendum á fundum með samkennurum. Líklega er besta leiðin að gera þetta einslega þegar stjórnendur eru annars vegar til að mæta öllum. En að því sögðu þá held ég að það sé til betri leið því að það er alltaf gott að fá hrós fyrir eitthvað sem að manni finnst maður eigi skilið að fá hrós fyrir. Hvernig væri að láta kennarana sjálfa sjá um hrósin? Ef að það væri hluti af menningu skólans að fylgjast með kennslu annarra þá væri það auðvelt mál. Það væri líka hægt að hrósa fyrir samstarf eða fyrir verkefni sem maður fær frá öðrum kennara. Það mætti gera á fundi fyrir framan alla.
Mér finnst líka að við gerum allt of lítið af því að deila innan skólans þeim verkefnum sem við erum að gera. Ekki það að ég haldi að kennarar vilji ekki deila, en sem kennsluráðgjafi veit ég um fullt af flottum verkefnum innan þess skóla sem starfa í, en það er ekki þar með sagt að aðrir kennarar viti af þeim. Mér þætti þess vegna spennandi að í upphafi hvers deildarfundar væri stutt kynning á völdu verkefni frá einum árganginum eða einu faginu þar sem viðkomandi kennarar segja frá spennandi verkefnum sem þeir hafa verið að láta nemendur leysa, hvernig tiltókst (ef að það er búið), hvaða hæfni þeir vildu að nemendur næðu og hvort að þeir teldu þetta verkefni gæti verið samþætt við annað fag (bara svona til að hafa einhvern sameiginlegan þráð í kynningunum). Þannig geta aðrir kennarar séð hvað er hægt að gera, spurt spurninga um hvernig hægt væri að leysa vandamál sem þeim finnst gætu komið upp eða aðstoðað við að leysa vandamál sem komu upp fyrir næsta verkefni. Þeir gætu líka notað tækifærið og hrósað fyrir þau verkefni sem þeim finnst flott. Ég held að flestum finnist það skemmtilegri hrós en hrós frá stjórnanda sem er oftar en ekki upptekin við að leysa hin ýmsu mál og sjá hvorki né heyra af öllu því góða starfi sem kennarar eru alltaf að inna af hendi, þó að vissulega fylgist þeir með eftir bestu getu.
Önnur leið er að leita til nemenda. Að vera með hrós-kassa í skólanum. Nemendur geta þá hrósað þeim kennurum sem þeim finnst eiga hrós skilið og eiga þá að sjálfsögðu að útskýra af hverju viðkomandi á skilið hrós. Það væri þá líka hægt að nota kassa í stofunum til að hrósa samnemendum fyrir eitthvað og lesa upp á bekkjarfundum. Allt þetta finnst mér skemmtilegri tilhugsun en að fá þvingað hrós frá stjórnanda af því að það á að veita hrós í upphafi fundar. En það er bara ég.
Comments