top of page
  • Writer's pictureAnna María

Að þora að breyta

Updated: Feb 17, 2021

Undanfarin ár hef ég verið í þeirri sérstöku aðstæðu sem ráðgjafi að fara inn í kennslustundir til að fylgjast með kennslustundum fólks sem ég þekki lítið eða ekkert. Ég er mjög sjaldan beðin að koma til að sjá hvað megi vera öðruvísi í kennslu og er oftast fengin til að fara inn til að "laga" einstaka nemendur. Þetta eru bæði nemendur með ákveðnar greiningar og aðrir sem er (oft) búið að reyna að setja í greiningarferli en hefur ekki tekist (vegna ósamræmis á milli upplifunar fólks á nemandanum). Að sama skapi er ég að vinna með öðrum ráðgjöfum (og sérfræðingum) á þjónustumiðstöð og heyri oft að vandamál ákveðinna nemenda liggi ekki í síst í því kennsluumhverfi sem þeim stendur til boða. Það fólk hefur þó ekki grundvöll til að dæma um hvað mætti vera betur gert í kennslunni sjálft, enda ekki menntaðir kennarar. Þetta er meira tilfinning þeirra og ég beðin um ráð.


Ég er þó í skrítnu hlutverki hérna. Mér ber að gefa kennurum ráð varðandi nemendur og hún liggur yfirleitt alltaf í því að það þurfi að breyta kennsluháttum. Það eru svo fáir kennarar sem óska eftir þannig ráðgjöf eða taka henni fegins hendi. Mér finnst sjálfri glapræði að koma inn með ráð sem henta aðeins þessum eina nemanda því að það er sjaldnast bara einn nemandi í bekk sem á við einhverja námsörðugleika að stríða og þarf að taka tillit til í kennslustundum. Við erum jú með einstaklingsmiðað nám og skóla án aðgreiningar. Það væri fráleitt að vera með ráð sem byggja á sérþörfum hvers og eins.


Mínir skjólstæðingar eru oftast með greiningar eins og ADHD (eða athyglisbrest án ofvirkni), einhverfu eða þeir eru seinfærir. Þegar ég fer í áhorf og skoða þann nemanda sé ég alla hina sem þurfa líka sérúrræði. Sem dæmi þá fór ég í áhorf um daginn og þar inni var minn skjólstæður og í þeim tímum sem ég fór í var ljóst að uppbygging kennslustunda var erfið fyrir um 25% nemenda í hópnum. Þarna voru nemendur sem þurftu þau ráð sem minn skjólstæðingur þurfti líka vegna ADHD greiningar sinnar.


Við ráðgjafarnir gefum ráð byggð á ráðum úr greiningarpappírum nemenda. Þar kemur alltaf fram það sama. Sé nemandi greindur með ADHD þarf hann ákveðin úrræði eins og styttri vinnulotur, tímavaka, fiktdót (ekki fidget spinner- hann virkar ekki) og ýmislegt annað. Þetta vita skólarnir og kennarar fá (vonandi) upplýsingar um þetta þegar þeir taka við nemanda sem er með þekkta greiningu. Af hverju er þetta þá ekki það sem við sjáum þegar við komum í kennslustundir? Jú, það er vegna þess að kennarar eru gríðarlega uppteknir af því að láta alla komast sem lengst í námsefninu sem er verið að vinna með. Þeir eru uppteknir við að sjá til þess að nemendur sitji í sætunum sínum og gefi vinnufrið. Í öllum tímum sem ég fer farið í er komið los á nemendahópunum eftir 20 mínútna setu við ákveðið verkefni. Það er þá sem nemendur fara að missa einbeitinguna. Það getur verið eftir 10 mínútur á yngri stigum eða hjá einstaka nemendum. Þetta þýðir að í tíma sem er 40+ mínútur eru sífellt fleiri sem detta úr lestinni eftir því sem tímanum líður og starf kennarans fer í að reyna að halda nemendum í ró og í sætunum sínum.


Ég fer stundum í áhorf í lengri lotur en einfaldan tíma og ég hef farið í tíma þar sem svona 15 til 20 mínútur voru einmitt notaðar til að halda athygli nemenda með því að skipta um námsefni. Ég hef ekki farið í kennslustund þar sem sama efnið hefur verið í gangi í meira en 50 mínútur þó að loturnar geti verið lengri fyrir nemendur. Hugsum okkur nú nemenda með mikla hreyfiþörf sem er búin að missa athyglina eftir 15 mínútur og þarf að fara að hreyfa sig. Hvað gerir hann? Í flestum tilvikum stendur hann upp og annað hvort heimtar athygli annarra í bekknum eða kennara. Hann veit að það er ekki vinsælt, en hann verður að gera eitthvað. Honum líður illa. Til að mæta þessu hafa kennarar reynt að stytta námsloturnar en sjaldnast þannig að þessi nemandi fái það sem hann þarf. Það skiptir nefnilega engu máli hvort að kennari skipti um efni á 10 mínútna fresti ef að það sem tekur við er bara eitthvað af því sama. Í öllum tilvikum sem ég hef séð eru nemendurnir beðnir að skipta um námsefni (fag) en ekki að standa upp eða hreyfa sig. Þeir sitja enn í sætunum sínum, fá kannski að sækja nýjar bækur sjálf (ekki alltaf) og eiga svo að byrja á nýja efninu. Nemendur með greiningar sem tókst að halda athyglinni í upphafi tímans í allt að 10 mínútur, eru orðnir ókyrrir eftir 7 mínútur og athyglin farin. Í hvert sinn sem skipt er um efni, styttist þessi tími því að þörfum þeirra hefur ekki verið mætt á milli lotanna. Þeir þurfa að hreyfa sig og þeir þurfa að hvíla heilann til að geta haldið athyglinni út tímann. Ég segi stundum við kennara að þeir ættu að hafa meiri áhyggjur af nemendum sem geta setið mjög lengi án þess að hreyfa sig. Það sé ekki eðli barna.


Skólinn í dag er svo uppfullur af öllu. Við kennum næstum öll fög frá 1. bekk og upp úr, það eru svo margar bækur sem þarf að klára í grunnskólanum og auðvitað mikil hæfni sem þarf líka að þjálfa. Bara í unglingadeild eru 340 hæfniviðmið sem nemendur eiga að ná. Það fer þó vonandi að lagast eftir að samþykkt hefur verið að fara í endurskoðun á aðalnámskrá grunnskóla og hæfniviðmiðum. Stýring á námi og kennslu er gríðarleg í gegnum útgefið námsefni, gegnum viðmiðunarstundaskrá og skólanámskrár. Þegar ég byrjaði í skóla (fyrir næstum hálfri öld!) þá var 1. bekkur ekki skylda. Ég var líka ein af fáum í kringum mig og af mínum jafnöldrum sem var í leiksskóla í 2 tíma á dag. Ástæðan fyrir því var að mamma mín var dönsk og hún vildi að ég væri í íslensku málumhverfi, ekki vegna þess að hún talaði dönsku við mig heldur vegna þess að hún vissi að hún talaði ekki rétta íslensku. En þessi fyrstu ár skólagöngu minnar voru ekki neitt svakalega krefjandi fyrir mig. Ég kom ólæs inn í 0. bekk og var næstum ólæs enn við lok 1. bekkjar. Ég var 8 ára þegar bróður mínum fannst skammarlegt að ég kynni ekki á klukku og læsti mig inni í svefnherbergi (með honum) og ég fékk ekki að fara út fyrr en ég gat sagt honum hvað stæði á vekjarklukku foreldra minna. Í minningunni var ég þarna í marga klukkutíma og fékk hvorki vott né þurrt, en líklega eru það einhverjar ýkjur. En þetta var samt það stífasta lærdómsferli sem ég fékk á þessum fyrstu árum mínum. Ég var svo stelpa þannig að foreldrum mínum fannst nú ekkert eins mikið mál að ég væri menntuð eins og þeim fannst það um son sinn. Þannig að kröfurnar heima voru akkúrat engar. Ég fékk hjálp ef að ég bað um hana en það var engin þrýstingur á að ég gerði meira en ég vildi. Smá saman lærði ég að lesa og skrifa (ég fékk Ó = ófullnægjandi í einkunn í skrift eftir 1. bekk). Ég hefði klárlega verið í neðstu þrepum í öllum könnunum MMS ef að þannig próf hefðu verið í boði á þeim tíma. Ég föndraði mikið í skólanum, sem mér fannst skemmtilegt. Ég lærði stærðfræði fyrir slysni en það nám hófst ekki fyrr en ég var orðin eldri. Ég kunni reyndar að leggja saman og draga frá þegar ég byrjaði í skóla. Ég lærði það hjá mömmu sem var alltaf að spila við mig og kenndi mér að leggja kapla sem kröfðust reikningskunnáttu. Við systkinin notuðum líka peninga þegar við vorum að spila saman, þannig að líklega lærði ég fjárhættuspil mjög snemma. En ég lærði þá á peninga í leiðinni. Stærðfræðina lærði ég ekki fyrr en á miðstigi. Ég lærði það af því að kennarinn setti upp litakóðun á styrkleika verkefnanna og ég vildi ekki vera í lélegasta litnum. Ég vann gríðarlega vel í þeim tímum því að keppnisskapið mitt var þannig að ég vildi ná sem hæst upp þennan litakóða. Þetta var líka notað þegar ég var í ensku í FB mörgum árum síðar. Ég var í sama gír þar og varð ekki ánægð fyrr en ég var komin í erfiðasta litinn. Skítt með hvað ég lærði, því að fókusinn minn var alfarið á litunum. Ef að ég lærði eitthvað á þeim spjöldum þá var það líka fyrir slysni. Ég held að ég hafi ekki farið í sund eða leikfimi fyrstu árin í grunnskóla og skóladagurinn minn var ekki langur. Ég held þó að fáir myndu segja að ég væri illa menntuð í dag. Ég tók mér bara minn tíma og það er eitthvað sem að við leyfum ekki í dag. Sem betur fer var ég ekki stimpluð seinfær sem kannski var alveg tilefni til miðað við nútíma staðla.


Finnar kenna mun minna en við en samt gengur þeim betur en okkur í alþjóðlegum mælingum. Ég leyfi mér að efast um að þeir séu með viðmiðunarstundaskrá faga. Þeir byrja skóladaginn á svipuðum tíma og við. Eftir 45 mínútna kennslu fara nemendur út í 15 mínútur (7 til 12 ára börn - 6 ára börn eru ekki í grunnskólum hjá þeim) og eldri nemendur fá hvíld eða fara út að gera eitthvað ákveðið. Reyndar eru í skólunum borð sem nemendur geta tekið með sér út þegar kennslustundirnar eru utandyra (sem er oft). Stundum er farið inn í nærliggjandi skóg eða bara út á skólalóð sem er mikið notuð þegar sól er á lofti. Útivera er alltaf hluti af skóladegi nemenda. Svona gengur hjá þeim fram að hádegismat. Kennarar borða með nemendum sínum. Eftir mat eru ein til tvær lotur (fer eftir aldri nemenda) en oftast er skóladeginum lokið um klukkan 13.30. Þá fara nemendur heim. Skóladagurinn er styttri, skólaárið er styttra (allir komnir í leyfi 1. júní) og það er mun meira um hvíld og útiveru en í okkar skólakerfi. En samt gengur þeim betur. Okkar kennarar eru að drukkna í undirbúningi og vinna það eftir að kennslu er lokið. Finnskir kennara eyða litlum tíma á kennarastofunni og fara eingöngu þangað til að sækja sér kaffi eða aðra drykki. Því að á þessum 15 mínútum sem nemendur eru í útiveru eða í hvíld nota þeir til að undirbúa sig. Með hverjum 100 nemendum úti er 1 kennari. Aðrir kennarar í hans teymi eru inni í undirbúning. Í næsta hléi er hann með og einhver annar úti. Kennarar eru því oftast farnir heim um leið og nemendur fara. Tvisvar í mánuði í öðrum skólanum sem ég fór í heimsókn í var ætlast til þess að kennarar og þessir tveir stuðningfulltrúar/sérkennarar sem störfuðu við skólann, væru lengur í skólanum. Þá voru fundir. Ég hjó líka eftir því að í 300 barna skóla væru 2 stuðningsfulltrúar/sérkennarar sem sáu líka um nýbúakennslu og skólastjórinn kenndi sjálfur 10 tíma á viku. Þetta væri óhugsandi í okkar skólakerfi eins og það er núna.


Ég byrjaði á að skrifa um mína skjólstæðinga sem þurfa annað námsumhverfi og ég get lofað ykkur því að ástæðan fyrir því að það þarf bara tvær manneskjur til að sjá um allan stuðning í þessum finnska skóla er að nemendunum líður þar mun betur en hjá okkur. Börn þurfa hreyfingu og hvíld og við erum ekki að sinna þeirri grunnþörf í okkar grunnskólum. Við þurfum að þora að breyta okkar kerfi til heilla fyrir okkar nemendur og sú breyting þarf að eiga sér stað innan skólanna og með því að losa okkur við viðmiðunarstundaskránna. Hún er bara til óþurftar.


Mynd af kennarastofunni í öðrum skólum:


61 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page