Í starfi mínu sem kennsluráðgjafi í skólaþróun fyrir Hörðuvallaskóla er ég í einstakri stöðu til að geta unnið að verkefnum sem eiga að aðstoða kennara við að vera með fjölbreytt verkefni í kennslunni sinni og þar af leiðandi í námi nemenda skólans. Sumir eru mjög klárir í þessu, en fyrir þá sem vilja, þá er ég þarna til að aðstoðað þá. Yfirleitt hafa ráðgjafar í skólum önnur verkefni líka eins og að sjá um spjaldtölvur skólans eða Mentor eða jafnvel allan búnað skólans, Mentor og Skólapúlsinn. Ég sé ekki um neitt af þessu þó að ég sé vel að mér í bæði umsjón með tölvubúnaði og Mentor. Mitt starf er eingöngu að létta undir með kennurum og vonandi stjórnendum svolítið líka.
Það gerðist kannski ekki mikið strax varðandi breytingar á kennsluháttum en eftir að kennarar gerðu sér grein fyrir að pósturinn frá mér væri ekki innleiðing á "einni breytingunni í viðbót", þá fóru hjólin að snúast. Í vetur er ég búin að setja upp UT áætlun fyrir alla árganga, ég er búin að útbúa stöðvavinnuáætlun sem á að vera sérstaklega skemmtileg fyrir stráka (en auðvitað stelpur líka), ég bjó til Sprellifix módel fyrir íslenskukennarana og ég bjó til verkefnahefti með Heimsmarkmiðum SÞ. Ég hef alveg gert ýmislegt fleira en það er samt aðallega þetta sem hefur haft þau áhrif að ég mér finnst ég sjá breytingar á kennsluháttum. Sprellifixið og stöðvavinnuáætlunin hefur gefið kennurum verkfæri til að breyta aðeins því að inn í þeim eru verkfæri sem kennarar geta nýtt sér og hugmyndir af skapandi leiðum í kennslunni. Auðvitað höfðu allir einhver verkfæri, en ég er kannski bara að gefa þeim önnur. UT kennsluáætlanirnar hafa líka gefið þeim kennurum sem vita ekki hvernig þeir geta nýtt sér tækni í kennslunni, form til að fara eftir. Það þarf ekki að gleypa allan heiminn, bara byrja og það er það sem þær áætlanir gefa kennurum. Spjaldtölvurnar geta verið ógnvekjandi því að það eru allir með góð ráð varðandi notkun á þeim og því er gott að geta byrjað á því að fara yfir þau örfáu öpp sem hvert stig vinnur með og svo bæta við síðar.
Kennsluráðgjafi í spjaldtölvuteymi Kópavogsbæjar sendi mér líka fyrr í vetur lista yfir þau forrit og öpp sem allir ættu að þekkja í skólanum. Ég útbjó Google forms könnun og sendi á alla. Ef að einhver merkti við að hann hafi ekki notað lausnina í kennslu eða að hann hreinlega þekkti hana ekki, þá stóð honum til boða að fá fund með ráðgjafanum sem kenndi kennurum á lausnina eða jafnvel kennurum og nemendum í einstaka bekkjum. Þetta var gott fyrirkomulag.
Ég var á fundi í dag með skólaþróunarleiðtogum víða að. Þar var einn að segja mér að það væri erfitt að fá kennara í unglingadeild í hans skóla til að nota UT í kennslu. Við í Hörðuvallaskóla ákváðum að láta nemendur um að bera ábyrgðina. Ég setti upp allt það sem er nefnt í fyrsta stig elsta í UT viðmiðum skólans í Google Classroom. Nemendur setja þar inn öll verkefni sem þeir vinna í spjaldtölvunum og að auki fylla út í þau markmið sem þar eru nefnd. Eitt er t.d. stafsetningaræfing af MMS síðunni. Þegar nemendur eru búnir með eina æfingu taka þeir bara skjámynd og senda inn í skilahólfið. Annað verkefni er Toontastic. Nemendur hafa verið að gera Toontastic verkefni í erlendum tungumálum og þeir sendu þau verkefni inn sem skilaverkefni í UT. Þannig verða öll verkefni í faggreinunum hluti af UT námi þeirra. Þegar þeir eru búnir að fylla allt út fá þeir aðgang að Google Classroom fyrir annað stig elsta. Við erum svo með kennara sem er með svigrúm í töflu til að halda utan um þetta og sjá um að fylla inn hæfniviðmiðin. Hann kennir þó ekki þetta fag enda eiga allir kennarar að vera UT kennarar eða amk að sjá til þess að nemendur hafi svigrúm til að nýta tæknina í verkefnunum.
Smá saga í lokin. Ég hitti stundum nemendur og ræði um námið þeirra. Oft er það vegna þess að kennurum finnst þeir vera að vinna undir getu og hitti einn þannig nemanda um daginn til að athuga áhugasvið og hvort að ég gæti bent honum á leiðir sem gætu hentað honum betur en það sem var verið að bjóða honum. Hann hafði bitið það í sig að eitt af fögunum hjá okkur væri svo leiðinlegt að hann nennti ekki að vinna í þeim tímum. Þannig að ég spurði hvað hann væri að gera í þessu fagi og hann sagði mér frá verkefnum sem hann hafði verið að vinna með fyrr í vetur. Ég spurði síðan hvaða verkefni hann væri að vinna með núna í faginu. Hann sagði mér þá frá verkefni sem mér fannst hljóma mjög skemmtilega og ég sagði honum það. Nemandinn tók sér þá smá pásu til að hugsa og sagði svo hissa "já, þetta ER mjög skemmtilegt verkefni". Þannig að nú er þetta fag ekki lengur fag sem hann hunsar og finnst leiðinlegt, því að bara með því að ræða þetta aðeins fattaði hann að það höfðu orðið breytingar til batnaðar að hans mati. Ég held að við gerum allt of lítið af því að tala við nemendur einslega og við ættum líka að spyrja þá sem ekki nenna að læra í tímunum hjá okkur, hvort að við getum gert eitthvað öðruvísi svo að þeir væru kannski virkari í tímunum.
Ef að einhver vill sjá þessar UT áætlanir eða annað sem ég nefnt í þessum pistli þá er hægt að nálgast þetta allt inni í vefsíðunni minni (www.kortsen.is). Ég deili öllu sem ég geri í þeirri trú að samvinna okkar skili sér í betra menntakerfi og að auki skili einstaklingum sem eru með þá hæfni sem ég held að sé bæði þeim og samfélaginu öllu til framdráttar.
Comments