Ég er að lesa rannsókn sem var gerð til að kanna hvaða aðstæður eru til staðar í skólum og umhverfi barna af erlendum uppruna sem gera það að verkum að þeim gangi vel í íslenskum skólum. Það er sem sagt ekki verið að taka út meðaltal eða eitthvað svoleiðis, bara að skoða hvaða umhverfi fóstrar góðan árangur. Þetta er efni sem ég og hópurinn sem ég er að vinna með í verkefni í félagsfræðikenninum ákváðum að einblína á í lokaverkefninu okkar í faginu. Ég viðurkenni alveg að ég hef aldrei verið mikið að velta þessu fyrir mér, enda hef ég lengst af starfað sem dönskukennari og nemendur sem höfðu annað móðurmál en íslensku, voru lítið í tímum hjá mér. Reyndar var ég með nokkra erlenda nemendur sem fögnuðu því að læra dönsku og ég man eftir einum nemenda sem var að bæta við sjöunda tungumálinu sem hann kunni. Um tíma bjó líka einn vinur sonar míns hjá mér en hann kemur upprunalega frá Eistlandi. Hann hafði orð á því að honum hafi þótt miður að hafa ekki þurft að taka dönsku í grunnskóla því að hann fyndi svo fyrir því að það væri gott að hafa þá þekkingu síðar meir (hann stefnir á að fara í tækninám í Danmörk).
En við lestur á niðurstöðum rannsóknarinnar fór ég að velta fyrir mér af hverju þessum nemendum gengur oft mjög illa í íslensku skólakerfi. Eflaust er eitthvað af vandræðum tengdur menningamun en ég held að það tengist mest hvernig við metum nemendur í skólum. Íslenska er eitt af aðalfögum allra skóla, svo er stærðfræði (sem er með helling af orðadæmum), náttúrufræði, samfélagsfræði, enska og danska. Enska er eina fagið á þessum lista sem gæti verið auðvelt fyrir nemendur af erlendum uppruna, því að þar standa þeir jafnhliða íslenskum nemendum. Þeir eru að læra nýtt tungumál eins og þeir. Danskan er erfið í öllum tilfellum, því að þar er tungumál sem er líkt íslensku en oftast skrifað allt öðruvísi en það er talað. Að setja nemendur sem ekki skilja íslensku inn í öll hin fögin er að mínu viti tilgangslaust. Ég var að velta fyrir mér hvort að það væri ekki lang best að redda þessum nemendum náttúrufræðibókum, stærðfræðibókum og samfélagsfræðibókum á þeirra tungumáli svo að þeir geti uppfyllt sömu hæfniviðmið og íslenskir jafnaldrar þeirra. Hvort græðum við sem þjóð (og þeir á sama tíma) meira á því að þeir þekki mannréttindi,lýðræði, jafnrétti, umhverfisvernd, náttúruvísindi og stæðfræðiaðferðir jafn vel og íslenskir jafnaldrar eða að þeir læri íslensku svona lala? Ég held að allir græði meira á því að leyfa þeim að vinna með bækur á eigin tungumáli svo að öll orkan fari ekki í að kenna þeim íslensku sem er gríðarlega erfið fyrir útlendinga að tileinka sér. Auðvitað á að kenna þeim íslensku, við viljum jú að þeim líði vel hjá okkur og séu virkir þjóðfélagsþegnar, en ég held að það sé röng leið að henda þeim inn í tíma þar sem þeir skilja ekki námsefnið sem er (vonandi) eitthvað sem að myndi gagnast þeim að kunna/þekkja til framtíðar. Það getur ekki verið svo mikið mál að hafa samband við sendiráðin, biðja um áþekkar kennslubækur og við erum að nota og leyfa nemendum að vinna með efnið á sínu eigin móðurmáli. Það græða allir á því að mennta vel öll börn, alveg sama hvaðan þeir koma eða hvernig þeir eru.
Comments