top of page
  • Writer's pictureAnna María

Collaborative response - við þurfum það!

Undanfarin tvö kvöld hef ég, ásamt um 15 öðrum íslendingum (aðallega skólastjórnendur samt) tekið þátt í námskeiði sem heitir Envisioning collaborative response. Sá sem er með þetta heitir Kurtis Hewson og starfar hann í Alberta fylki í Kanada. Við þykjumst nokkuð góð að taka þátt þar sem námskeiðið er frá klukkan 22 til 23.30. Þá er maður yfirleitt farin að sofa! Tíminn var valinn svo að mögulegir þátttakendur í Ástralíu gætu tekið þátt, en þeir eru að vakna um það leyti sem við förum að sofa og svo er miður dagur í Kanada. En þetta er algjörlega þess virði að hlusta og taka þátt. Ég mæli með því að allir sem hafa tækifæri til að kynnast þessari aðferð, noti það tækifæri.


Þetta snýst um einstaka nemendur og fundarsköp sem eru til hagsbóta fyrir nemendur. Við þekkjum öll að sitja á langdregnum fundum sem skila litlu. Þessir fundir skila árangri. Ég ætla að reyna að segja aðeins frá þessu, en það verður aldrei fullkomin lýsing því að kerfið í kringum þetta er (næstum) fullkomið.

Í hverri viku eru fundir þar sem teymi (kennarar í árgangi og stuðningsfulltrúar) hitta stjórnanda og aðila úr skólaþjónustu (s.s. kennsluráðgjafa eins og mig). Allir eru með ákveðið hlutverk á fundinum og það eru um 8-10 manns á hverjum fundi. Aðilinn sem byrjar að tala kemur með nafn á nemanda inn á fundinn. Það er svo ein áskorun tekin fyrir, ekki einstaklingurinn sem slíkur. Segjum að áskorunin sé að nemandinn hafi slakan lesskilning. Það er þá kjarni umræðunnar eða það sem er kallað Key Issue (ekki í fleirtölu af ástæðu). Markmið fundarins er kynnt í upphafi og hvernig fundarsköpin eigi að vera. Eitt af markmiðunum er að telja tillögurnar sem koma fram á fundinum og að ná amk 10 tillögum (þeir kalla það what if´s). Kennarinn segir hvað hann hafi gert til að hjálpa nemandanum og allir aðrir á fundinum ræða það, koma með aðrar tillögur og setja undir þennan flokk, þ.e. slakur lesskilningur. Kerfinu fylgir forrit sem er notað og þar fara allar tillögurnar inn. Segjum svo að ég sé nýr kennari og ég er með sama vandamál á sama skólastigi. Ég gæti farið inn í forritið og skoðað allar tillögur sem hafa komið varðandi þessa ákveðnu áskorun. Það sem er svo kannski enn betra er að aðrir kennarar í sama árgangi segja frá nemendum hjá sér sem þetta á líka við um. Þannig er ekki verið að vinna með einstaklingana heldur nákvæmlega þessa áskorun sem felst í slökum lesskilningi nemenda í þessu tilfelli.


Eins og ég sagði er margt í þessu ferli en annað sniðugt er hvernig nemendurnir eru flokkaðir. Það eru notaðir litakóðar og segjum að ég hafi nemanda sem kemur út rauður í lesfimiprófi, hann stendur sig líka illa í stærðfræði og svo er kannski næsti dálkur mæting eða heimalærdómur. Ef að hann fær grænt í því báðu, hann mætir vel og sinnir heimavinnu en er sýnir samt slakan árangur í náminu þá þarf að skoða þetta vel. Séu mætingar og heimavinna líka rauð, gæti það verið gild útskýring á af hverju nemandinn er rauður og þá þarf að taka á því fyrst.

Svo er er það guli nemandinn. Það er sá sem gengur bara ágætlega. Hann getur kannski meira en hann er að sýna eða er með slaka námshæfni á einhverju sviði sem kemur þá fram í þessu kerfi. Að lokum eru þessir grænu og bláu nemendur. Það eru þeir sem eru á fínu róli eða framúrskarandi. Við þekkjum vel þessa liti og hvað þeir standa fyrir.


Á fundinum sem ég nefndi hérna áðan mæta kennarar inn með amk 3 nöfn sem þurfa athygli. Fyrsti er úr gula hópnum og umræðan um hann fer fram hjá öllum, sá næsti úr rauða og það er það sama þar, umræðan er um hvaða úrræði nemendurnir þurfi í náminu sínu. Síðasta nafnið kemur úr græna og bláa hópnum og það er uppáhaldið mitt. Það eru nemendur sem geta jafnvel meira en kennarinn ætlast til, hafa styrkleika umfram aðra og þurfa einhverjar áskoranir í námi sínu en eru ekki að fá þær. Þannig að enginn hópur gleymist og allir fá athygli, allir kennarar fá lausnir til að prófa og tækifæri til að tjá sig um þau vandamál sem þeir eru að kljást við í sinni kennslu. Þar sem þetta eru vikulegir fundir þá hafa kennarar bæði tækifæri til að tjá sig um áskoranir allra nemenda á einhverjum tímapunkti því að áskorun eins nemanda er að öllum líkindum áskorun fyrir einhverja aðra nemendur líka og þegar þú nærð að laga það, þá lagast kannski annað. Það er líka alveg tryggt að með þessu formi er nemandinn sjálfur (nafnið hans) ekki aðal atriðið heldur þetta Key issue sem hrjáir hann og eflaust fleiri í árganginum eða skólanum.


Hver umræða er tímastillt og það er tímavörður sem sér um að halda tímamörkin. Þannig verða umræður ekki langdregnar, þær snúast ekki um annað en þetta atriði og þær áskornir sem fylgja því því (það er ekki tími til að tala um hvernig mamman og pabbinn voru sem nemendur eða þá eldri systkini). Fókusinn er á réttum stað.


Það sem er kannski mikilvægast af þessu öllu er að þegar kennari tekur fyrir ákveðna áskorun hjá nemanda þá tiltekur hann fyrst styrkleika hans og svo áskorunina (key issue). Það hjálpar helling, ekki síst fyrir aðra að heyra hvar styrkleikarnir liggja þannig að hægt sé að leggja til lausnir sem gefa færi á að nýta þá. Hér er myndband sem útskýrir þetta líka og vefsíða.


Ég á eitt kvöld eftir á þessu námskeiði og þó að þetta sé ansi seint og ég hef lítið sofið síðustu daga (maður sofnar ekkert strax með hausinn fullan af hugmyndum!), þá get ég ekki beðið eftir að læra meira. Næsta mál er svo auðvitað að komast til Alberta í Kanada til að læra þetta almennilega og sjá þetta "in action".44 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page