top of page
  • Writer's pictureAnna María

Eignarhald nemenda á eigin námi

Undanfarin ár hef ég sífellt verðir sterkari í þeirri skoðun að nemendur eigi að hafa talsvert um nám sitt að segja og hef svo sem nefnt það í öðru bloggi. Með núverandi aðalnámskrá er það líka mun auðveldara í framkvæmd en áður, að mínu mati.

Ég hef núna hitt fulltrúa bekkja í unglingadeild í skólanum sem ég starfa, á fundum þar sem við ræðum um hæfniviðmiðin og ég hef reyndar líka verið að ræða við alla unglingana um nýtt þemanám sem ég stýri í skólanum sem byggir á hæfniviðmiðum. Bæði þessi verkefni byggja á sama grunni, að nemendur hafi ramma (aðalnámskrá) en útfærsla verkefna verði að öðru leiti innan þeirra eigin áhugasviðs.

Að ræða um hæfniviðmiðin og gildi þeirra fyrir skólastarf á þennan hátt, gefur nemendum líka tækifæri til að ræða tilgang þeirra og eykur skilning þeirra á hugmyndafræðinni um skóla án aðgreiningar. Nemendur sem eru eingöngu metnir á prófum, (þ.e. hvað þeir muna og hafa tileinkað sér af því efni sem kennarinn ákveður) geta komið út úr skólakerfinu niðurbrotnir einstaklingar. Ég heyrði skólameistara í framhaldsskóla meira að segja segja við kennaranema að sá skóli sem hann stýrði, tæki við nemendum sem grunnskólarnir eru búnir að brjóta niður. Þetta var fyrir nokkum árum, þannig að vonandi erum við farin að standa okkur betur fyrir alla nemendur. Hæfniviðmiðin eru frábær. Þau gefa okkur kennurum og nemendum, ramma til að fara eftir en að öðru leiti eru þeir opnir fyrir túlkanir á hvernig framkvæmdin geti verið. Þannig að núna er ekkert því til fyrirstöðu að við gefum nemendum meira eignarhald á eigin námi.

Einn kennaranna í skólanum hefur tekið þessar hugmyndir og útfært fyrir eigin kennslustundir. Hann ákvað þegar hann sá að nemendur voru mis spenntir að fara eftir þeirri áætlun sem hann settir fram, að gefa þeim val. Þeir mega núna velja sér útfærslu verkefna út frá þeim hæfniviðmiðum sem kennarinn ákveður hverju sinni. Það eru sömu hæfniviðmið og aðrir nemendur eru að vinna með. Kennarinn hugsaði þetta sérstaklega fyrir þá nemendur sem voru ekki spenntir fyrir náminu og strax eru einhverjir þeirra byrjaðir að hanna eigin kennslusáætlun sem kennarinn þarf svo að samþykkja. Það er gert til að tryggja að áætlun þeirra sér við hæfi, ekki of metnaðarfullt fyrir tímabilið eða of létt miðað við getu.

Þar sem ég er byrjuð í námi og er í tveimur áföngum á leið minni að mastersgráðu í stjórnun menntastofnanna, þá er ég stöðugt að lesa greinar og kafla sem ýta undir að þetta fyrirkomulag sem við erum byrjuð á í Hörðuvallaskóla og við byrjuðum á fyrir þremur árum í Hólabrekkuskóla, er einmitt það sem skólastarf á að ganga út á. Að leyfa nemendum að vinna innan eigin áhugasviðs til að efla áhuga þeirra á námi, en með ramma sem er ekki of stífur. Það er ekki í lagi að setja svona verkefni af stað og segja að allir hafi val um að gera annað hvort glærur, myndband eða veggspjald. Það er lítið val. Sumir vilja gera listaverk, lag og texta, búa til spil, búa til tölvuleik, hanna vefsíðu sem gæti verið upphafið af byltingu, eða bara hvað sem þeim dettur í hug. En auðvitað er tilgangurinn alltaf á hreinu sem og tenging við eitthvað efni eða fag/fög.

Ég átti góðar samræðum við nokkra nemendur í vikunni um þemaverkefnið. Þarna var t.d. hópur sem hafði valið sér að fjalla um réttindi minnihlutahópa. Þegar þeir fóru að velta fyrir sér hvað væru minnihlutahópar, spurðu þeir mig hver hefði eiginlega ákveðið að þessir hópar væru minnihlutahópar. Hver ákvað t.d. að öryrkjar væru minnihlutahópur og væri því skör lægri í þjóðfélaginu en aðrir? Ég vissi ekki svarið en sagðist geta mér til um að gagnkynhneigðir hvítir karlmenn hefðu þetta vald. Þannig að nú grunar mig að verkefnið muni einblína á þennan vinkil, hvernig hvíti maðurinn hefur sett sjálfan sig skör hærra en aðra og geti svo ákveðið örlög þessara hópa. Þetta verður spennandi efni að vinna með og ég hlakka til að heyra niðurstöður nemendanna. Ég ákvað reyndar að í þessu þemaverkefni mættu nemendur ekki gera veggspjöld eða glærur, en það var til að fá þau út fyrir þægindaramman enda segja sumir þeirra í fyrstu að þeir kunni ekkert annað, en ég gaf þeim hugmyndir sem hafa verið stökkpallur í eitthvað sem þeim finnst mjög spennandi að vinna með. Það eru amk allir hópar búnir að ákveða strax hvernig verkefnið þeirra verði kynnt við lok mánaðarins.

39 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page