top of page
  • Writer's pictureAnna María

Flott finnskt skólakerfi

Updated: Oct 26, 2020

Ég er svo heppin að tilheyra hópi sem kallar sig Vexa eða #VEXAedu. Okkar markmið er að stuðla að sköpun í skólastarfi sem tengist tækni eða Makermenningu. Við fengum Erasmus styrk til að kynna okkur hvað aðrar þjóðir eru að gera og stækka tengslahópinn okkar. Af þeim ástæðum fórum við í vikunni og kynntum okkur finnskt skólakerfi og hvernig Makermenningu er sinnt bæði í þeim skólum sem við heimsóttum í Turku, á bókasafninu í Helsinki og í tækniskólanum í Tallinn í Eistlandi.


Fyrsta heimsóknin var í 50 ára gamlan skóla í Turku sem heitir Pääskyvuori Primary School sem er fyrir nemendur frá 7 ára og upp í 12 ára (6 ára börn eru ekki í grunnskóla þarna). Skólinn er í co-design verkefnum í gegnum háskólann í borginni með nemendum í Namibíu og Bangladesh. Þeir eru nýbúnir með verkefni með skólanum í Namibíu sem snérist um að hanna skemmtiferðaskip og verkefnið með skólanum í Bangladesh (sem er í fátækrahverfi) byrjar í janúar. Hessburger sem er finnsk hamborgarakeðja styrkir þennan erlenda skóla og mun t.d. senda þeim 6 HTC Vive og 6 öflugar tölvur til að þeir geta tekið þátt í verkefninu. Saman ætla nokkrir nemendur í 5. bekk í finnska skólanum og nokkrir nemendur úr erlenda skólanum að hanna verslun. Krakkarnir vildu ekki notast við avatara og er núna háskólinn í Turku að finna út hvernig best sé að útfæra verkefnið þannig að hægt sé að verða við því að þau "hittist" í gegnum forritið. Það sem mér fannst svo frábært við þetta er að nemendurnir hafa gríðarleg áhrif á hvernig tæknin er notuð og þeim er alveg sama hvernig hlutirnir eru venjulega framkvæmdir, þeir trúa því að allt sé hægt.

Það var mjög margt sem var gríðarlega forvitnilegt í skólanum eins og að starf skólastjóra er allt öðruvísi en hérlendis (minni skriffinnska) og í þessum skóla kennir skólastjórinn 10 tíma á viku. Hann tekur ekki á agamálum enda er það í starfslýsingu kennara (nema ef að eitthvað meiriháttar gerist). Skólastjórinn spurði mig hvort að hann ætti að fá hluta af launum kennarans ef að hann ætti að gera hluta af verkefninum hans. Agamál eru talinn hluti af náminu þarna úti, það átti líka við um hinn skólann sem við heimsóttum.

Annað sem ég tók með mér er að nemendur eru þjálfaðir í að fá frelsi til að vinna utan kennslustofunnar, sitja í sófa eða á gólfinu til að læra. Þeir þurfa að vinna sér inn traust fyrst. Svo geta nemendur fengið rautt band ef að þeir verða þreyttir að vera inni í stofunni og þeir eru búnir með verkefnin sín. Þetta rauða band sýnir öðrum í skólanum að nemendurnir eru í hreyfingu. Nemendur í 4. bekk byrja alltaf á haustin og búa til myndrænar leiðbeiningar um hreyfingar á stöðvum hingað og þangað um skólann. Skólavikan er 20-25 klukkutímar þar sem tímarnir eru í 45 mínútur í einu og svo fer einn kennari út með hverja 100 nemendur á meðan aðrir í teymunum eru inni að undirbúa kennsluna í 15 mínútur. Það er ekki greitt aukalega fyrir gæslu í Finnlandi en þeir eru líka aðeins yfir meðallaunum í landinu sem við erum ekki. Eftir að kennslu lýkur fara allir heim,nema ef að það eru fundir sem eru 1-2 í mánuði. Það er reiknað með að undirbúningur sé búinn þegar skóladegi lýkur.

Við tókum sérstaklega eftir því hversu hljóðlátt var í matsalnum. Skólastjórinn sagði okkur að nemendur hefðu beðið um leyfi til að hafa hljóðlausa þriðjudaga í matssalnum og því voru engin orð notuð, bara handabendingar kennara þegar máltíðinni var lokið og allur bekkurinn mátti standa upp. Í skólanum er starfandi nemendaráð með fulltrúum allra bekkja og kemur formaður þess á fund skólastjóra og leggur fram tillögur fundanna sem eru einu sinni í viku. Þannig að það var ansi margt flott í gangi í þessum skóla.


Daginn eftir fórum við í skóla sem opnaði í fyrra og var í nýbyggingu sem er samfélagsmiðstöð svæðisins. Hann heitir Syvälahden koulu. Þangað koma konur í meðgönguskoðun og í ungbarnaeftirlit og bókasafn svæðisins er í byggingunni. Einnig eru félagsmiðstöðin og leiksskólinn í húsinu. Við fengum leiðsögn myndlistakennarans sem sýndi okkur þessa flottu byggingu og ekki sýst gríðarlega flotta list- og verkgreina aðstöðu. Í þeim skóla eru frá 20 nemendum í bekk upp í 32!!! Það er ansi þröngt þegar svo margir mæta, en það er bara ekkert annað í boði fyrir kennara en að finna lausn á því. Það sem þau gera er að nýta gangana en eins og í hinum skólanum, fær engin að fara úr skólastofunni sem kennarinn treystir ekki að muni vinna sjálfstætt. Sé nemandi sem hefur "brotið" af sér í hópavinnu með nemendum sem er vel treystandi, vinnur allur hóourinn inni í stofunni. Kennarinn sagði okkur að þetta kæmi sjaldan fyrir, því að hinir í hópnum sussa, skamma og leiðbeina nemandanum þannig að það myndast jákvæður jafningjaþrýstingur og smá saman verða allir færir í þessu. Það mótmælir þessu heldur engin, því að nemendur vita að þeir eiga að bera ábyrgð á eigin hegðun og að það eru afleiðingar ef að hegðunin er ekki við hæfi. Þarna er líka notað einhversskonar co-design eða samvinna þar sem nemendur skiptast á að búa til hluti. Einn gerir kannski smíðahlutann, annar rafmagnið og þriðji hannar og prentar út í laserskeranum. Þetta snýst ekki um að nemendur búi til hluti til að fara með heim, heldur fái færni í að hanna, skapa og vinna saman. Verkefni nemenda er líka að kenna yngri nemendum og hanna og skapa fyrir þá það sem þeir vilja/þurfa. Við sáum t.d. búninga sem nemendur hönnuðu og saumuðu fyrir leiksskólann.

Í Turku er gefin út STEAM áskorun og er sveitafélagið með STEAM áætlun fyrir alla skólana. Í fyrra var áskorunin ljós og í ár er hún samvinna.

Það sem mér fannst mjög áberandi í samtölum við skólastjórann í fyrri skólanum og kennarann í þeim seinni er hversu mikil samvinna er við fyrirtæki og stofnanir utan skólanna. Það er mikil samfélagsleg tenging sem nemendur fá þarna og verkefnin sem þau leysa, sýna það. Í fyrri skólanum eru tæplega 300 nemendur en í þeim seinni um 600 og þeir verða 800 eftir tvö ár. Kennararnir eru að berjast fyrir að halda í allt það flott pláss sem þau hafa og kannski þess vegna malda þeir ekki í móinn þegar þeim er gert að kenna svona mörgum nemendum í einu. Það er reyndar engin fjöldatakmörkun í bekki í Finnlandi skv. því sem við heyrðum.

Það sem mér fannst líka áhugavert er að það er lítil sérkennsla í boði í þessum skólum. Eins og það er talið vera starf kennarans að taka sjálfur á agamálum er það líka starf kennarans að sinna fjölbreyttum námshópum. Í 300 barna skólanum eru 4 sérkennarar og það voru lítið fleiri í stærri skólanum. Næstum öll sérkennsla fer fram inni í bekkjunum og það eru bara erfiðustu málin sem fá sér- athygli eins og nemandi sem kann ekki tungumálið eða nemandi sem víkur mjög frá í þroska. Allt annað eins og ADHD, ADD, lesblinda og annað er á könnu kennaranna og virðist reyndar ekki vera neitt svakalega vandamál þarna. Við sáum amk enga haga sér illa í þessum heimsóknum, nemendur voru kátir, áhugasamir og tóku mikinn þátt í umræðum og verkefnavinnu. Ég held að ástæðan sé að þeim er kennt að vera í skóla frá byrjun og allar verkreglur um hegðun og annað eru skýrar og þeim framfylgt af öllum. Hvað er og hvað er ekki innan verksviðs kennara í Finnlandi virðist vera mun skýrara en ég hef tilfinningu fyrir að sé hjá okkur. Þeir eru sérfræðingar í kennslu og uppeldisfræðum, stjórnendur sinna öðrum verkefnum.

Í Turku eru allir nemendur með spjaldtölvur frá 4 bekk (okkar 5. bekkur) og mig minnir að í 7. bekk fái allir fartölvur (ég man ekki alveg hvar skiptingin er) en þar sem það fáir nemendur eru með fartölvur í yngra barna skólanum, er hellingur af fartölvum í boði til að vinna við.

Í báðum skólunum eru laus borð sem nemendur geta tekið með sér út þegar þeir læra úti á skólalóð eða úti í skógi. Í öðrum þeirra voru þessi lausu borð þannig að hægt var að hengja þau á vegginn og þannig standa við að læra á göngunum, en í hinum voru þetta samföst borð og stóll sem er eingöngu unnið með úti og eru mest notuð af yngri nemendum.


Hér eru myndir frá þessum tveimur skólum: https://photos.app.goo.gl/ThQq14D1JM4mwFT79

42 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page