top of page
  • Writer's pictureAnna María

Hágæða rafræn endurmenntun

Dagana 25. og 26. september var Utís Online í fyrsta sinn og vonandi verður þessi ráðstefna aftur af tveimur árum liðnum. Það voru mörg hundruð kennarar að taka af veisluborðinu sem boðið var upp á og oft mátti heyra þátttakendur segja "þetta þurfa allir kennarar að horfa á". Allir sem tóku þátt græddu helling, hvort sem þeir eru kennarar, stjórnendur eða bara kennsluráðgjafar eins og ég. Miðað við Utís viðburðina sem hafa verið árlega undanfarin ár á Sauðarárkróki voru áberandi margir skólastjórar á Online ráðstefnunni. Mér finnst það lofa góðu. Ráðstefnan á Sauðarkróki er aðallega fyrir oddana í skólastarfi, staður til að hittast, læra hver af öðrum og fá fóður til að bera inn á hina ýmsu starfsstaði. Þegar fyrsti hittingur var (mig minnir að það hafi verið 2015) vorum við sem tilheyrum þessum hóp, frekar ein í okkar starfsþróun, hvert í sínu horni. Þetta var því kærkomið tækifæri til að deila og læra af fólki sem var í sömu sporum. Ef að þið vitið ekki hvað oddar eru, þá er hér fín þýðing sem Ingvi Hrannar gaf út fyrir nokkrum árum.


Ráðstefnan í ár var reyndar ekki mikið um tækni og hvernig við notum tækni í skólastarfinu. Það var smá um það, en það var ekki aðalfókusinn. Hann var á velferð nemenda. Það er reyndar ekki skrýtið miðað við það árferði sem við erum að upplifa núna. Börn um allan heim eru að lifa óvenjulega tíma og fyrir suma þeirra gæti þetta haft áhrif á líðan og líf þeirra í mörg ár.


Það var því mjög velkomið að fá allar þessar hugmyndir í verkfæraboxið til að skoða og bæta líðan nemendanna okkar. Eftirminnilegasta setningin sem ég tók eftir, var "myndi ég vilja vera nemandi í minni kennslustofu". Þetta kom fram í fyrirlestri Pernille Ripp sem var með margt fleira sem vakti mann til umhugsunar um hvernig umhverfi og andrúmsloft í skólastofunni væri best.


Það sem var öðruvísi við þessa gerð af Utís var að þátttakendur voru (auðvitað) fleiri en líka sumir mjög nýjir og óreyndir í svona pælingum. Kennarar sem vilja alveg breyta, en vita ekki hvernig eða kennarar sem voru bara að taka þátt í partýinu. En hvort sem þeir fara með helling af hugmyndum í farteskinu inn í kennsluna í næstu viku eða ekki, er nokkuð ljóst að allir sem tóku þátt í þessari ráðstefnu eiga eftir að nýta eitthvað af því sem þeir heyrðu og lærðu á einhverjum tímapunkti. Það gerist kannski ekki í næstu viku, en það gerist einhvern tímann. Það gæti gerst þegar aðrir í skólanum eru búnir að plægja akurinn svo að eftirspilið verði auðveldara. Þannig gerast hlutirnir oft. Þeir gerast líka þannig að við sjáum eitthvað sem er bara fínt hjá öðrum, en það verður svo ekki fyrr en við stöndum í miðri skólaþróun að við sjáum hvernig það gæti nýst okkur.


Rödd nemenda var mikið rædd á Utís Online. Að nemendur viti til hvers er ætlast af þeim, að þeir hafi eitthvað um eigið nám að segja og jafnvel að þeir meti kennsluna sem "þeir verða fyrir". Þeir séu oftast að "gera skóla" (doing school) eða leika þennan skólaleik, en þeir eru ekki að hafa áhrif á framkvæmdina eða hvernig leikurinn er spilaður (Denise Pope). Þetta er sérstakt áhugamál hjá mér. Ég sé fullt af leiðum til að auka aðgengi nemenda að eigin námi en engin þeirra byggir á því að kennarinn ákveðið hvaða dæmi á að vinna með, hvort að "valið" í verkefnavinnu liggi í að nemendur velji á milli tveggja skilaaðferða (veggspjald eða glósur - það er ekki raunverulegt val) eða að kennarinn þurfi að vita og kunna allt sem nemendur vilja gera. Kennarar og nemendur verða að læra saman. Það ætlast engin til þess að kennarar kunni allt, en það er ætlast til þess að kennarinn getu stutt hugmyndir nemenda og spurt spurninga sem gera verkefnin þeirra dýpri og auki skilning á efninu. Kennarinn þarf að vera leiðbeinandi en ekki valdið í skólastofunni.


Fyrir nokkrum árum hlustaði ég á Ritu Pearson flytja Ted fyrirlestur sem átti mikinn samhljóm í fyrirlestrum helgarinnar. Það skein í gegn í mörgum þeirra að nemendum sem líður illa og líkar ekki við kennarna sína, þeir læra ekki. Margir kennarar telja sig þurfa sömu reglur fyrir alla, svo að það sé hægt að viðhalda agastjórnun. Það getur orsakað meiri vandamál en það leysir.

Kennarar þurfa því að velta fyrir sér hvernig nemendum líður í kennslustundinni fyrst og fremst. Ef að þeim líður illa eða kvíða fyrir skóladeginum, þá eru þeir ekki að fara að læra neitt þann daginn. Við þurfum alltaf að velta fyrir okkur hvað við séum að gera fyrir hvern nemanda, erum við að mæta honum og þörfum hans með því sem við leggjum fyrir eða getum við mætt honum á annan hátt? Við aukum sem dæmi ekki áhuga á lestri með því að heimta að nemendur sem eru ekki færir í honum lesi upphátt fyrir framan hina. Í flestum tilfellum veldur þetta þeim vanlíðan. Á tölvuöld, er hægt að fylgjast með framförum í lestri á annan og betri hátt.


Eitt sem mér datt í hug við hlustun á einum af fyrirlestrunum er að við notum gervimenni (avatara) of lítið. Krakkar á vissum aldri (alveg upp í unglingastig) kunna ekki að eignast vini, vera vinir eða tjá sig um líðan sína. Það væri sniðugt að nota gervimenni í þannig tilgangi. Þar geta allir tjáð sig án þess að aðrir viti hverjir þeir eru. Nemendur sem tjá sig lítið sem ekkert, eru að reyna að fela sig í skólanum og inni í kennslustofunni, þeir gætu kannski frekar tjáð sig sem önnur persóna.


Að lokum. Á meðan á Utís stóð fengum við tækifæri til að "hitta" fólk sem við tölum aldrei eða sjaldan við í gegnum vefforritið Icebreaker https://icebreaker.video/. Það er hægt að nota það í fjölmörgum tilgangi í skólastarfi og ekki síst í námi og kennslu nemenda á öllum stigum í grunnskóla. Ég sé fyrir mér að það væri frábært að nota þetta til að kanna forþekkingu nemenda á ákveðnu efni, til að draga saman það sem nemendur lærðu í ákveðnu verkefni, til að ræða sögupersónur eða atburði sem er búið að vinna með og til að nemendur komi frá sér viðbótarupplýsingar um eitthvað efni sem þeir eru að læra og deili með öðrum nemendum, þ.e. einhverjar upplýsingar sem þeir fundu sjálfir. Möguleikarnir eru endalausir.


Ég vil svo þakka öllum þeim sem stóðu að baki þessum glæsilega viðburði kærlega fyrir mig.


132 views0 comments

Comments


bottom of page