top of page
  • Writer's pictureAnna María

Heimsókn í skóla á Möltu


Valletta, höfuðborg Möltu

Um miðjan maí fór ég, ásamt tveimur kollegum á námskeið á vegum Enjoy Italy á Möltu sem hluti af Erasmus styrk sem við fengum. Námskeiðið sjálft var ekkert sérstakt, en það var kannski vegna þess að fátt af því var nýtt fyrir mér. Það var t.d. farið yfir hvað þarf til að vera verkefnastjóri í Erasmus verkefni. Það kann ég ágætlega. En hápunkturinn á ferðinni, fyrir utan gríðarlega fallega eyju, var heimsókn í grunnskóla sem kallast Kullegg Sta Klara (eða St. Clare's college) í Sliema. Nemendur eru frá 3 ára og upp í 11 ára. Elstu nemendurnir fara í samræmt próf sem er notað til að ákveða hvort að að þeir fái að fara bóknámsleið eða verknámsleið (lítið val um það).

Fyrir utan að mér finnst þetta glatað, þá heillaði skólastjórinn mig upp úr skónum. Hún var svo flottur stjórnandi að ég gat varla orða bundist. Hún er nýja fyrirmyndin mín í lífinu ;)

Það sem gerir hana svona flotta er hvernig hún stjórnar. Hún byrjaði fyrir þremur árum í skólanum og byrjaði strax á því að heimsækja hvern og einn einasta bekk og fylgjast með kennslunni. Kennarar tóku ekki vel í það í byrjun, þannig að hún ákvað að gera eitthvað fyrir þá í staðinn. Í hvert sinn sem hún kemur eiga kennarnir von á glaðningi eftir heimsóknina. Það gætu verið nýjar gardínur, auka skriffæri (sem kennarinn bað ekki um) eða ný (notuð) húsgögn. Nú þremur árum síðar spyrja kennararnir hana hvenær hún kemur og virðast spenntir.

En það sem hún fær í staðinn er að hún veit nákvæmlega hvað er verið að kenna í hverjum árgangi í hennar skóla, hún aðstoðar fólk við að uppfylla matsviðmið - stundum þannig að hún bendir á auðveldari leiðir en kennarinn heldur að hann þurfi að fara. Hún hefur líka tækifæri til að setjast niður með kennaranum í lok heimsóknarinnar og fara yfir kennsluáætlanir og hvernig kennarinn hafi verið að uppfylla þær í kennslustundinni (en hún veit líka að stundum þarf að fara aðra leið en áætlað var).

Fyrir nokkrum árum voru gerðar opinberar niðurstöður úr Talis könnunni (sem er könnun sem kennarar innan ESB og EES svara). Skv. henni segja um 70% (man ekki nákvæmlega töluna) íslenskra kennara að þeir séu látnir afskiptir í kennslustofunni og að stjórnendur viti ekki hvað fer þar fram. Það kemur líka fram að allir (eða margir þeirra) vilja að þetta breytist. En ég heyrði líka af dæmi hér á landi þar sem stjórnendur hafa lagað einmitt þetta (þau eru nokkur). Það sem kom mér á óvart var að kennararnir sögðu að "þeir (stjórnendur) kæmu bara einu sinni yfir veturinn" og voru auðsýnlega ekki nógu ánægðir með það. Kannski snýst þetta meira um hvað er verið að gera og hvað sagt er, heldur en að vera með viðveru án nokkurs árangurs.

Annað sem hún er að gera sem mér finnst aðdáunarvert. Skólinn er með um 80% börn frá öðrum löndum sem tilheyra frekar vel stæðum foreldrum (yfir 400 nemendur í allt frá 35 löndum). Þeir stoppa stutt í skólanum, því að foreldrarnir eru að vinna tímabundið á eyjunni. Hún vill að kennararnir hennar prófi að vera í skólum þar sem tungumálið er þeim framandi sem og aðstæðurnar svo að þeir skilji betur hvað börnin sem koma í skólann þurfi að aðlagast. Hún er búin að prófa einu sinni að sækja um Erasmus styrk þar sem kennarnir eiga ALLIR að fá tækifæri til að fara í ýmsa skóla í Evrópu. Styrkurinn er gríðarlega hár og hún fékk neitun en hún ætlar að reyna aftur. Hún er komin með tengingar um alla Evrópu en þessi skóli verður stjórnandi verkefnisins. Mér finnst það frábært framtak að skólastjóri fari í svona vinnu til að skólamenningin verði sem best og skilningur gagnvart nemendum meiri. Hún gaf sér góðan tíma til að tala við okkur og sýndi okkur svo skólann.14 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page