top of page
  • Writer's pictureAnna María

Heimsmarkmið SÞ

Updated: Apr 1, 2019

Dagarnir 26 og 27 mars 2019 eru þemadagar í Hörðuvallaskóla og var ákveðið að vinna með heimsmarkmið SÞ af því að Kópavogsbær hefur tekið ákvörðun um að láta þau markmið hafa áhrif á starfsemi bæjarins. Ég hef heyrt að ný menntastefna bæjarins muni t.d. taka mið af heimsmarkmiðunum 17 ( þau eru reyndar169 með undir markmiðunum). Fyrir þemadagana fengu allir árgangar hlutverk og verkefni til að vinna með.


1. bekkur = Ekkert hungur

2. bekkur = Engin fátækt

3. bekkur = Líf á landi

4. bekkur = Líf í vatni

5. bekkur = Menntun fyrir alla

6. bekkur = Aðgerðir í loftslagsmálum

7. bekkur = Heilsa og vellíðan


Nemendum í 8. bekk og 10. bekk var boðið að safna fyrir Unicef en þurftu sjálf að ákveða hvernig og bera ábyrgð á framkvæmdinni. Það komu 107 tillögur frá nemendum í 8. bekk og svo völdu þeir 4-5 sem þeir vildu vinna áfram með. Vinsælt var t.d. að hafa bingó en þar sem foreldrafélagið er bráðum með stórt bingó í skólanum, var tekin ákvörðun um að hafa samband við elliheimili sem er hér rétt hjá og athuga hvort að heimilisfólkið myndi vilja taka þátt í söfnunni með nemendum. Það var tekið mjög vel í þá hugmynd. Aðrir nemendur ætla að búa eitthvað til sem þeir geta selt.


7. bekkur er að vinna með markmiðin heilsa og vellíðan en það er verkefni sem er unnið með námsráðgjafa á Baugakór. Kennarar nemenda í 1.- 6. bekk fengu verkefnahefti með hugmyndum um hvernig þeir gætu unnið með þetta efni sem þeim var úthlutað. Mér er mjög í mun að nemendur hafi rödd í skólanum og því eru í verkefnaheftunum tillögur að t.d. gerð mótttökuáætlunar fyrir nýja nemendur (þ.e. hvernig taka nemendur á móti nýjum nemendum), áætlun gegn matarsóun innan skólans og svo framleiðis.


Nemendur í 9. bekk hafa undirbúið að setja upp Model UN þing í skólanum. Landsstjórar hafa dregið nöfn landa sem þeir og þeirra hópur tilheyrir og fer fyrri dagurinn í að undirbúa þingið sem verður seinni daginn. Það felst heilmikill undirbúningur í þessu, aðalritarinn okkar og aðstoðar-aðalritarinn hafa í nógu að snúast og við fengum nemendur úr framhaldsskólum og talsmann UN á Íslandi hingað til að ræða við nemendur og undirbúa þá. Allt þingið og undirbúningur hans er í höndum nemenda. Tillögur þingsins verða svo birtar á heimasíðu skólans en málefnin sem nemendur völdu að fjalla um voru mannréttindi með áherslu á flóttamenn og aðgerðir í loftslagsmálum. Þeir fjalla svo um þessi efni út frá mismunandi áherslum en við skiptum löndum í þrennt. Nokkur lönd fjalla um þessi mál út frá afvopnunar og öryggismálum, önnur út frá efnahags-, þróunar- og umhverfismálum og þriðji hópur landa fjallar um þau út frá félags- og mannréttindasjónarmiðum. Við erum með talsmenn 20 landa í allt sem taka þátt í þinginu.


Ég útbjó líka hefti fyrir unglingana út frá sama markmiði og 6. bekkur fékk. Þetta hefti er fyrir þá nemendur sem ekki hafa áhuga á að taka þátt í söfnuninni.


Það má nota öll þessi verkefni í hvaða árgangi sem er, en það sem gerir það að verkum að ég skrifa að þetta tilheyri yngsta-, mið- eða unglingastigi er að hæfniviðmiðin miðast við þau stig.


Verkefnaheftin má nálgast hér: https://www.kortsen.is/heimsmarkmidavinna











148 views0 comments

Comments


bottom of page