top of page
  • Writer's pictureAnna María

Hvað breytist með farsældarfrumvarpi

Updated: Apr 25, 2023

Ég ætla ekkert að þykjast vita nákvæmlega hverju þetta farsældarfrumvarp breytir þegar til lengri tíma er litið en ég ætla að reyna að útskýra hverju það breytir ekki.

Sem kennsluráðgjafi á þjónustumiðstöð (í fyrra starfi) var ég oft beðin að fylgjast með nemendum sem leið illa í skólanum eða voru með truflandi hegðun. Það sem ég sá var oft þetta:

  • Kennslustundirnar voru allt of langar og lítið svigrúm gefið fyrir hreyfingu (alveg niður í 3. bekk).

  • Eyðufyllingarverkefni voru það sem nemendur unnu með í löngum lotum þó að stundum var skipt um fag eftir 20 mínútur.

  • Í sumum tilfellum tóku við fleiri eyðufyllingarverkefni eftir pásur (frímínútur).

  • Nemendur sem ekki pössuðu í þetta umhverfi eða áttu við námsörðugleika að stríða, unnu einir að öðrum verkefnum en hinir nemendurnir.

  • Stundum voru nemendur upp á unglingastig að vinna með barnalegt námsefni af því að þeir voru á sama námslega stigi og nemendur á yngsta stigi, en auðvitað ekki sama þroskastigi.

  • Kennarar vildu ekki alltaf ráðleggingu um hvernig þeir gætu breytt kennslunni, heldur vildu að ég tæki barnið og lagaði það, eða fjarlægði það úr hópnum.

  • Í kennslustundum var sjaldan (þar sem voru vandamál) gefið færi á samvinnu nemenda, af því að það var of mikið álag á kennarann eða hann vissi ekki hvernig hann gæti gert það vel og stundum hafði bara ekki áhuga á því.

  • Bækurnar voru agatæki, þannig að allir áttu að sitja, þegja og vinna í bókunum en máttu vera á sitthvorri blaðsíðunni ef svo bar undir.

Það sem ég skil ekki eftir þetta er hvað þetta fólk lærði í náminu sínu. Kennarar eru sérfræðingar í sínu fagi og það þýðir að þeir eiga að hafa í sínum handraða fullt af verkfærum til að meta og aðlaga kennsluna sína að nemendahópnum hverju sinni.

Sem ráðgjafi núna í mörgum skólum leyfi ég mér stundum að segja við kennara að ef að þeir kenna eins og þeim var kennt, þá gæti það verið vandamál. Ég geri þá ráð fyrir að svona kennarar séu að apa upp þær aðferðir sem voru notaðar að einhverju leyti á fyrri árum. Ég hef reyndar litla reynslu af þannig námi sjálf, nema ef vera skyldi í framhalds- og háskólanámi (eftir að ég byrjari á Menntavísindasviði - kennslan var ekki svona í Hugvísindadeild nema að mjög litlu leyti). Að nám á Menntavísindasviði sé í engum takti við aðferðir sem kennara þurfa að nota í eigin kennslu, er náttúrulega bara ótrúlegt.

Varðandi þetta frumvarp, þá skilst mér að það snúist um að bjóða upp á alls konar sérfræðiþjónustu fyrir þessi börn sem kennarinn vill láta laga fyrir sig eða sýnir merki um vanlíðan í skóla eða heima. En ég var í skólaheimsókn í gær þar sem skólastjórinn tjáði mér og nokkrum pólskum kennurum sem ég dró með mér þangað að félagsráðgjafinn sem mætir reglulega í skólann, hefur minna að gera eftir að áherslur í kennslu breyttust. Nú er ég ekki að segja að hann hafi ekkert að gera, en með því að breyta áherslum í kennslu hefur dregið úr þörfinni á þjónustunni. Það hlýtur að segja okkur eitthvað, er það ekki?

Ég skrifaði pistil fyrir nokkru um að þora að breyta, en ég veit ekki hver er að biðja kennara að nota aðferðir sem virka ekki fyrir nema hluta nemendahópsins. Þannig að þetta snýst kannski ekkert um þor, heldur bara um að nota aðferðir sem er vitað að virki fyrir breiðan hóp nemenda.

Í Skóla í skýjunum eru nokkrir nemendur sem hafa rekist illa í skólakerfinu en með því að nota leiðsagnarnáms aðferðir þá hefur tekist að virkja þá með ótrúlegum hætti. En þessar aðferðir virka ekki bara á þá nemendur í þeim skóla, heldur á alla nemendur, alveg sama hvernig þeir standa. Allir eru að sýna framfarir og það er það sem nám og kennsla eiga að snúast um.

Ég hitti ömmu eins barns sem ég hef aðeins komið að sökum þess að það er bráðgert. Það sem ég gerði (í mjög stuttu máli) var að ráðleggja kennara barnsins (sem hringdi í mig) að vera ekki að þvælast fyrir barninu. Bráðger börn hafa oft kennt sér sjálf að lesa, skrifa og reikna. Þau hafa jafnvel sjálf kennt sér á hljóðfæri eða að teikna eins og fólk sem er mun eldra en þau. Þau hafa þennan hæfileika að læra sjálf og það má ekki taka það af þeim. Amman tjáði mér að skólagangan sem hafði verið mjög brösug, væri allt önnur núna og barninu líður svo miklu betur bæði innan og utan skólans. Kannski er þetta ráð sem kennarinn fékk frá mér, jafn gott ráð fyrir alla nemendur. Í stað þess að mata þá stöðugt að upplýsingum, segja þeim hvernig afurðir þeirra eiga að líta út og gefa færi á ígrundun um viðmið námsins og námsmatið, þá þurfi ekki að eyða ógrynni af skattféi okkar í að leysa vandamál sem er í mörgum tilfellum auðleyst inni í kennslustofunni.

John Hattie sem gerði meta-analísu (rannsókn á rannsóknum) lagði fram ályktun upp úr þessum öllu að það sem hefur mest áhrif á gott gengi nemenda er góð samvinna kennara, að nemendur meti sig sjálf, trú kennara á getu nemenda og ígrundun. Það má segja ýmislegt um svona gerð rannsókna, því að þær eru rannsaka niðurstöður rannsókna sem voru oft gerðar með ákveðið markmið í huga, sem er ekki það sem hann var að skoða. En það sem er áhugavert er að sjá hvað það er sem hefur engin áhrif á námslegu getu nemenda eða neðstu sætin og þar er ADHD á botninum. Annað sem skv. honum hefur ekki áhrif á námslega stöðu er leiði, þunglyndi, sjónvarp, svefnleysi eða hvort að foreldrar séu að fá félagslega aðstoð (það er reynar íslensk rannsókn sem bendir til þess að svo sé og mig minnir að hún hafi verið gerð um framhaldsskólanemendur). Ef að við segjum að Hattie hafi rétt fyrir sér (sem má alveg þræta um) er spurning hverju þetta frumvarp mun bjarga. Því að samkvæmt hans tilgátu þá hafa kennararnir og þær aðferðir sem eru notaðar við undirbúning og greiningu á því sem fram fer í kennslustofunni mest áhrif og því trúi ég mjög vel.88 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page