top of page
  • Writer's pictureAnna María

Kennsluáætlanir

Updated: Jul 18, 2019

Undanfarið hef ég verið að skoða hinar ýmsu kennsluáætlanir og komist að því að mínar hafa aldrei verið nógu upplýsandi. Góð kennsluáætlun inniheldur ýmsar lýsingar sem svara nemandanum um tilgang með verkefninu sem fyrir hann er lagt. Mér hefur fundist kennsluáætlanir frá Smiðjunni í Langholtsskóla mjög góðar ( https://www.smidjan.com/sprellifix/ ) og einnig þær sem Álfhildur Leifsdóttir hefur deilt ( https://alfhildur.com/kennsluaaetlanir-i-bokmenntum/ ) sem tengjast bókmenntakennslu. Ég hef líka skoðað kennsluáætlanir frá Grundarskóla á Akranesi sem voru mjög fínar en ég er svo heppin að skólinn sem ég starfa í er í samvinnuverkefni með Tröppu og þaðan fékk ég kennsluáætlun sem inniheldur eiginlega allt sem ég gæti látið mig dreyma um í góðri kennsluáætlun og annað sem ég hafði ekki hugmyndaflug fyrir en gerir áætlunina súper flotta að mínu mati.


Ég ætla að leyfa mér að deila hluta af því hvernig svona áætlun er sett upp hjá Tröppu:


1. Markmið með verkefninu (hvað lærir nemandinn)

2. Kveikja (myndband)

3. Spurningar sem bekkurinn notar til að ræða um efnið og svo aðrar spurningar sem nemendur svara út frá eigin hugmyndum/skoðunum.

4. Hvernig er forþekking nemenda skoðuð

5. Lykilhæfnin sem er notuð í verkefninu

6. Hæfniviðmiðin

7. Kennsluaðferðir og skipulag

8. Hvað er gert í tímum?

9. Verkefnalýsing

10. Hvernig sést að nemandi hafi náð árangri?

11. Hvernig er verkefnið skipulagt svo að það hæfi öllum nemendum? (þeim sem þurfa meiri aðstoð, hvernig nemendur geta sett sér eigin markmið, tækifæri til að velja sér námsaðferð....)

12. Náðust sett markmið? Hvernig er árangurinn metinn?

13. Ígrundun að loknu verkefni. Hvað vakti áhuga nemenda og hvernig má gera verkefnið betra næst.


Ég veit að þetta eru margir punktar en sé fyrsta áætlunin sett upp með það í huga að hún sé nýtanleg fyrir fjölbreytt verkefni, þá er eftirvinnan auðveldari. Þá eru þarna punktar sem nýtast í flestum verkefnum án mikilla breytinga. Skýr kennsluáætlun hjálpar öllum nemendum og þó að sumir lesi aldrei það sem við setjum fyrir þá, þá geta þeir leitað upplýsinga í áætluninni og verkefnin koma þá hvorki þeim né foreldrum þeirra á óvart. Við gerum líka allt of mikið af því að sleppa nemendum við að lesa lýsingar/útskýringar og gefum þeim svörin í stað þess að benda á það sem við erum með á töflunni, í verkefnalýsingum eða í rafrænu formi (t.d. inni á Mentor eða í rafrænum verkefnabókum s.s. Google Classroom eða Seesaw).


Hæfniviðmið og mat á verkefnum


Ég er að vinna í því að setja upp kennsluáætlanir fyrir verkefni sem komandi 4. bekkur ætlar að taka og við þá vinnu fann ég t.d. yfir 20 hæfniviðmið sem nemendur gætu uppfyllt. Í einu verkefni frá Tröppu eru þau 50 enda er lykilhæfnin öll þar inni, mörg viðmið úr samfélagsfræði (verkefnið byggir á grunnþáttunum lýðræði og mannréttindi) og svo nokkur úr íslensku. Svo mörg hæfniviðmið eru ansi mikil vinna fyrir kennara og því legg ég til að þegar svona mörg viðmið passa við verkefnin okkar að við gefum nemendum val um að leysa hluta þeirra. Það gætu verið 2 viðmið úr þessum þremur sem hér eru nefnd eða 6 viðmið (2x lykilhæfni, 2x samfélagsfræði og 2x íslenska) og að það sé að þeirra eigin vali. Geti nemandi ekki gert það sjálfur, getum við sest niður með viðkomandi, skoðað viðmiðin og útskýrt hvað þau gætu þýtt í því samhengi sem þau birtast í verkefninu. Í byrjun gæti þessi vinna farið fram að verkefni loknu fyrir þá nemendur og við bent þeim á leiðir sem nemandinn getur nýtt sér til að uppfylla viðmiðin betur en hann gerði og svo auðvitað leyfa honum að skila aftur.


Það er gríðarlega mikilvægt að nemandinn ígrundi eftir hvert verkefni hvað hann lærði, hvaða viðmið hann var að uppfylla og hvernig hann stóð sig. Ég studdist lengi við bæði jafningjamat og sjálfsmat þegar ég var að kenna og það skilaði mjög góðum árangri. Smá saman lærðu nemendur að þeir áttu að standa með sjálfum sér en ekki segja að nemandi sem ekkert gerði væri jafnvígur þeim í verkefninu. Auðvitað vita kennarar hverjir eru ekki virkir í verkefnunum og því þarf að ræða það við hópinn í hvert sinn ef að nemendur segja að samvinnan hafa gengið vel en kennarinn veit betur. Þetta er tækifæri til að fá nemendur til að tjá sig og einnig þann sem vann ekkert sem þarf þá að útskýra af hverju hann á rétt á sömu einkunn og hinir í hópnum. Það er hellings lífsleikni í því og ljóst að nemandi sem lét sig fljóta með hinum var ekki að uppfylla hæfniviðmið eins og þetta úr lykilhæfninni: Nemandi getur unnið með öðrum og tekið á jákvæðan hátt þátt í samskiptum og lagt sitt af mörkum í uppbyggilegu samstarfi sem tengist námi og félagsstarfi innan skólans.Mynd: Teachhub.com. (2019). Book Stairs [Mynd]. Sótt af http://www.teachhub.com/reading-lessons-scaffold-texts


492 views0 comments

Comments


bottom of page