top of page
  • Writer's pictureAnna María

Náms-, kennslu- og (eða aðallega) vikuáætlanir

Updated: Oct 27, 2020


Flestir kennarar útbúa áætlanir fyrir styttri eða lengri tíma. Markmið með slíkri áætlun ætti alltaf að vera að mæta öllum nemendum þar sem þeir standa og mega ekki snúast um blaðsíður eða bækur sem á að vinna með. Markmið með námi eru aldrei blaðsíður í bókum en samt verða þær oft það eina sem ratar inn í kennsluáætlanir. Ég hef sjálf útbúið þannig áætlun og veit að hún er lítið annað en bókhald yfir hvernig ég ætlaði að ná að klára ákveðnar bækur á einum vetri. En þetta var aldrei áætlun í þeim skilningi að það ætti að vera á hreinu hvað nemendur lærðu í tímum hjá mér eða hvaða hæfni ég vildi að þeir næðu með því að klára bækurnar.


Til þess að búa til góða áætlun þarf að gera ráð fyrir að sumir þurfi meiri tíma eða fjölbreyttari leiðir til að tileinka sér námsefnið og aðrir þurfi að fá tækifæri til að fara dýpra í efnið.


En hvernig gerum við þetta? Við gerum það fyrst og fremst með því að hafa samtal í öllum tímum milli kennara og nemenda og nemenda sjálfra. Við gerum það með því að vera búin að ákveða hvaða hæfni eða hugtök við ætlum að vinna með og viljum að nemendur hafi tileinkað sér það vel að þeir geti yfirfært þekkinguna í aðrar aðstæður.


Hér er möguleg uppsetning fyrir eina viku í stærðfræði í 6. bekk:Það má gera þetta á ýmsa vegu en það sem er mikilvægt er að megin áhersla sé á að fjölbreyttar leiðir séu nýttar í kennslunni ásamt samtali og samvinnu og að áætlunin miði við mjög breiðan nemendahóp. Samtal um námsefni skilar öllum nemendum bættum árangri í öllum fögum. Nemandi sem er seinn að tileinka sér námsefni lærir helling á því að heyra aðra nemendur kljást við verkefnin. Eigi hann svo að taka þátt í kynningu og hann veit að hann hefur hlutverki að gegna, þá leggur hann meira á sig. Hann fær líka meira sjálfstraust og fær meiri trú á að hann skilji það sem ætlast er til af honum. Nemandi sem er fljótur að nema og á í sama samtali fær tækifæri til að koma þekkingu sinni í orð og leiðbeina hinum í hópnum í rétta átt. Séu fleiri snjallir nemendur í hópnum gæti orðið gríðargóð umræða um leið að réttu svari eða niðurstöðu og þannig þjálfast félagsfærni, rökhugsun, samvinna og margt annað sem talin er nauðsynleg hæfni hjá okkur öllum í dag. Ég er ekki hrifin af því að snjallir nemendur séu „aukakennarar“, heldur vil ég frekar horfa á þetta þannig að þeir séu að þjálfa A hæfni sína.


Flokkunarkerfi Bloom´s útskýrir að A nemandinn geti kennt, skapað og metið tengingar (sett þekkingu í fjölbreyttara samhengi) og því er þetta samtal og ígrundun gríðarlega gagnleg þessum nemendum. Það gæti líka fært C nemandann upp í B hæfni ef að hann fattar leiðir til að nota þekkinguna í öðru samhengi þegar hann er að læra að læra af nemendum sem kunna það.

Ég heyrði það fyrir nokkru síðan að þetta kerfi væri notað til að flokka einkunnir í Bretlandi. Þar sé það þannig að C hæfni séu neðstu tvö þrepin, næstu tvö eru B hæfni og efstu tvö eru A hæfni. En hvað hefur þetta með áætlanir að gera?

Ég hef oft heyrt að kennarar eigi í vandræðum með nemendur sem eru fljótir að klára áætlun vikunnar. Ef að einhver er með það vandamál, liggur það klárlega í uppsetningu á áætluninni. Hún verður að bjóða upp á að nemendur geti kafið dýpra í hugtök, aðferðir og leiðir, að hann hafi fengið tækifæri til samtals og ígrundunar til að tryggja að það sem nemandinn eigi að taka með sér úr vinnu vikunnar, hafi skilað sér á þann hátt að hann geti yfirfært þekkinguna og nýtt hana á fjölbreyttan hátt (B og A hæfni). Það er ekki fyrr en sú hæfni er komin að hægt sé að segja að nemandi sé búinn að tileinka sér aðferðir og hugtök og því klára áætlunina.


Mitt áhugasvið liggur svolítið í skólagöngu bráðgerra nemenda. Reyndar er ég ekki hrifin af því orði, því að aðeins börn sem hafa skorað hátt á vitsmunaþroskaprófi eru talin bráðger. Mér finnst betra að tala um snjalla nemendur sem oftast koma inn í grunnskólann með forgjöf umfram samnemendur. Þeir eru mun fleiri en þeir sem fara í gegnum greiningarferli. Áætlanir sem byggja á blaðsíðum í bókum, en ekki hugtakaskilningi, yfirfærslu þekkingar og allt annað sem ég hef nefnt, eru skaðlegar þessum nemendum. Áætlanir okkar miða nefnilega oftast við meðal nemandann. Við gefum þessum nemendum sjaldan tækifæri til að kljást við áskoranir í námi sínu, að tileinka sér dýpri þekkingu á efni sem þeir þekkja eða tengja sérþekkingu sína við það sem við viljum að þeir nemi. Afleiðingarnar eru of oft skólaleiði, skólaforðun, gríðarleg vanlíðan, hegðunarvandamál og ýmislegt annað sem er auðvitað skaðlegt þessum börnum. Ég hef séð hvernig þessir nemendur missa trú á tilgangi námsins strax í 1. bekk og það versnar bara með árunum. Þegar upp á unglingastig er komið er vandamálið oft orðið gríðarlegt því að þessir nemendur, sem komu inn í skólakerfið með ákveðna forgjöf, kunna ekki að læra. Það er oftast skrifað á hegðunarvandamál og greiningar sem þessir nemendur hafa (bráðger börn eru oft með misstyrk og greiningar sem hamla þeim í námi). En vandamálið liggur ekki síst í því að frá fyrsta degi hafa þeir ekki fengið verkefni við hæfi. Þeir fá of sjaldan verkefni sem reyna á þá og eru klárlega áskorun fyrir þá. Það er áskorun fyrir barn í 1. bekk að læra að skrifa og lesa, en barn sem kann bæði þegar hann byrjar í skóla, fær sjaldan nógu erfið verkefni að kljást við. Við þurfum að gera betur fyrir þessu börn.


Vegna þessa eru góðar áætlanir gríðarlega mikilvægar. Ef að nemandi segir við ykkur að hann sé búinn með áætlun vikunnar, ekki gefa honum fleiri eins verkefni, endurskoðið áætlunina. Verið alveg viss um það fyrst að hugtakaskilningur og þekking sé eins góð og hægt er og aldrei setja blaðsíður eða dæmamiða sem meginmarkmið áætlanna. Ef að þið gerið það, spyrjið ykkur þá áður en þið afhendið áætlunina hvernig þið ætlið að meta hvort að nemandinn hafi numið það sem var markmið vikunnar og líka hvernig allir nemendur (ekki síst þeir snjöllu) getið unnið með efnið á fjölbreyttan hátt til að tryggja að sem flestir hafi mögulega á að tileinka sér efnið. Allt þetta þarf að vera innifalið í þeirri áætlun sem nemandinn fær, því að þá sér hann að hún er ekki endilega fljótkláruð. Ég mæli ekki með því að láta bara ákveðna nemendur fá viðameiri áætlanir en hina. Það eru fá börn sem vilja alltaf fá aukaverkefni eða vilja heyra að þeir eigi að gera meira en jafnaldrar þeirra. Þeir myndu frekar vilja gera eitthvað annað, eða fara meira á dýptina með það sem á að nema. En þá þarf það líka að vera markmið kennslunnar - að allir hafi tækifæri til að nema á einstaklingsmiðaðan hátt. Það gengur reyndar yfirleitt á yngsta stigi en reiðin og leiðinn kemur þá bara á næsta skólastigi.


Ef að þið viljið læra eitthvað um góðar áætlanir þá er hér gagnlegt hlaðvarp frá Kennslumiðstöð Háskóla Íslands.Tengingar í áætlun (mynd) eru á dæmahefti fyrir 6. bekk sem voru unnin eftir hugmynd Grétu Pálínar Kortsen Pálsdóttur (dóttur minnar).


134 views0 comments

Comments


bottom of page