top of page
  • Writer's pictureAnna María

Nýtt ár, nýjar áherslur með meiri reynslu

Ég hef skipt um starf núna. Verkefnið sem ég var ráðin í haustið 2018 í eitt ár (sem varð að tveimur) er búið og ég búin að flytja mig um sel. Ég er komin aftur til Reykjavíkurborgar, en nú starfa ég hjá skóla- og frístundadeild Breiðholts sem er staðsett í húsnæði Þjónustumiðstöðvar Breiðholts. Ég er bara nýbyrjuð en er strax komin með margar hugmyndir af verkefnum sem ég sem kennsluráðgjafi gæti innt af hendi. Það er nýr veruleiki fyrir skólana sem ég sinni að það sé starfandi kennsluráðgjafi fyrir þá sem sinnir meiru en einstaklingsmálum. Ég er búin að hitta stjórnendur í einum skóla og fá viðbrögð frá öðrum um þessa ráðningu mína og framhaldið lofar góðu. Skólarnir eru á fullu að breyta um stefnu og óska eftir stuðningi frá mér til þess.

Í Reykjavík er verið að innleiða metnaðarfulla menntastefnu og í Breiðholti er verkefni sem kallast Betri borg fyrir börn (BBB). Bæði þessi verkefni gefa góðan grunn að því sem ég gæti gert í starfi. Í BBB verkefninu stendur þetta:

“ Í Menntastefnunni er lögð áhersla á að í skóla- og frístundastarfi borgarinnar starfi framsækið starfsfólk sem rýnir eigin starfsaðferðir, vinnur saman að sameiginlegum markmiðum og tileinkar sér nýja starfs- og kennsluhætti. Þá er undirstrikað að það þurfi að styðja faglegt frumkvæði starfsfólks, veita því rík tækifæri til starfsþróunar og markvissa ráðgjöf og handleiðslu í starfi.„

Mér finnst þetta vera flott markmið og vonandi að allir skólarnir í hverfinu séu að vinna að því. Ég hlakka til að heyra hvernig kennarar rýni eigin vinnu eða hvort að það sé eitt af því sem þeir þurfa aðstoð við. Ég hef verið mikið í því að rýna kennslu og skólastarf undanfarin tvö ár.

Síðasta vetur vann ég með kennurum í 7. bekk í Hörðuvallaskóla að þróunarverkefni sem stóð yfir allan veturinn. Það er óhætt að segja að foreldrar hafi brugðist ókvæða við en það þýddi að það kom ekkert frá þessum kennurum sem ekki var vel ígrundað og gríðarlega flott upp sett. Allur tilgangur með öllum verkefnum var öllum ljós frá byrjun og alls ekki síst skýrt nemendum sem áttu að vinna með hugmyndirnar. Ég sá þarna nemendur fara frá því að vera þiggjendur í það að vera gerendur í eigin námi. Í upphafi sátu þeir og biðu eftir mötun, vildu líka fá að vita hversu mörg orð eða margar línur þeir ættu að skrifa. Ég man eftir verkefni þar sem nemendur voru að skrifa eitthvað og þeim fannst 10 línur vera gríðarlega mikið. En það var í haust. Í janúar var ég með eitt verkefni þarna (af því að ég flutti mig inn í bygginguna sem þessi árgangur var með í 1 mánuð). Verkefnið mitt var heimildaritgerð í þema sem kallaðist Evrópa. Ég kallaði 2-3 nemendur til mín í einu og útskýrði fyrir þeim hvað þeir ættu að gera, hvernig maður skráir heimildir í texta og í heimildaskrá og ég útskýrði fyrir þeim hvað góð heimild væri. Ég tiltók m.a. hvernig Wikipedia gæti verið góð heimild og hvenær hún væri það ekki. Ég var búin að setja upp á Google Classroom síðu þar sem ég var búin að finna bækur og annað sem væri ítarefni fyrir nemendur. Svo fékk hver nemandi að velja eitt af yfir 80 ritunarmöguleikum úr sögu Evrópu frá upphafi 1800 sem ég hafði tekið saman. Reyndar fékk hver hópur nemenda (2-3) bara 10 miða til að velja úr, svona svo að þeir sem kæmu fyrstir fengu ekki að velja "bestu bitana". Ég tók skýrt fram að ritgerðin mætti ekki vera lengri en 2 blaðsíður án heimildaskrár og mynda. Sumir frussuðu þegar ég sagði það, enda höfðu þeir aldrei skrifað nokkuð sem var lengra en hálfa blaðsíða. En þetta var svo gríðarlega vel heppnað að þegar aðrir kennarar í skólanum sáu bókina sem ég setti ritgerðirnar þeirra í, þá var einn sem sagði að það væri frábært ef að nemendur sem eru að ljúka 10 bekk kynnu þessi vinnubrögð.

Það sem var kannski best við þetta verkefni (fyrir utan frábæra vinnu nemenda) var að kennarar höfðu ekkert gríðarlega mikið að gera og fóru ekki heim með ritgerðirnar eftir lokafrest til að yfirfara þær. Ég útskýrði nefnilega fyrir nemendum að lokamarkmiðið væri bókin og það væri skylda að sýna kennara ritgerðina 3x til að fá ábendingar um hvað mætti gera betur. Hér er verkefnalýsingin og hér er taflan um viðmið um árangur sem sagði nemendum nákvæmlega hvernig þeir yrðu metnir. Svona töflur eru yfirfarðar með nemendum um leið og þeir skila inn. Námsmat á alltaf að fara fram fyrir framan nemendur því aðeins þannig læra þeir. Ég hef heyrt það að rannsóknir hafi sýnt (veit ekki hvaða þó) að námsmat sem á sér stað eftir að nemandi skilar inn verkefnum, sé tímasóun. Nemendur læra ekkert á því.

Það skiptir miklu máli í þessu ferli að þetta er mjög einstaklingsmiðað verkefni. Þeir sem eru t.d. ekki góðir í réttritun, gætu fengið ábendingar frá kennara um að skoða betur punkta og stóra stafi og þeir sem eru mjög góðir pennar gætu fengið ábendingu um að kafa dýpra í sambandi við eitthvað sem þeir fullyrða í textanum sínum. Þannig fá allir ábendingar sem gera þeirra texta betri og þar sem markmiðið var að setja þetta í bók sem foreldrum væri sent, þá voru nemendur gríðarlega ánægðir með þessar athugasemdir, enda sagði ég við þá að markmiðið með þessu væri að þeir gætu verið stoltir af sínum texta í bókinni.

Í vor ræddi ég svo við nokkra nemendur úr hópnum sem töluðu um hversu frábært það hefði verið að læra á hæfniviðmiðin og hversu miklu það hefði breytt fyrir þá í þeirra eigin námi! Við sem erum aðeins eldri höfum líklega aldrei hugsað þannig um þessi viðmið eða fundist þau alveg frábær, en ég skyldi hvað nemendurnir voru að tala um. Þeir voru að tala um þessar töflur um viðmið um árangur. Þar fær nemandinn nákvæmlega að vita til hvers er ætlast af honum, án allra túlkunaratriða (svo sem ítarlega, góða, frábæra, sæmilega....). Þetta er hluti af leiðsagnarnámi og er svona "game changer" í öllu skólastarfi að mínu mati. Ég sá notkun á þessum töflum breyta börnum í unglinga og verkefnin sem nemendur voru að vinna með og þau sköpun sem boðið var upp á, breyta meðal nemendum í framúrskarandi nemendur.

Allt þetta og sú gríðarlega mikla vinna sem kennarar í þessum árgangi unnu síðasta vetur, kenndi mér hversu mikilvægt það er að eiga samtal við einstaka nemendur og gefa sér tíma til útskýra hlutina í smærri hópum eða einstaklingslega og af því að við vorum stöðugt að leita að áliti nemenda um verkefnin og vinnuna. Þetta var því ákveðin rýni á starfið sem átti sér stað. Samtal milli kennara og nemenda og samantekt eftir hverja viku var líka hluti af kennslunni þarna. Nemendur svöruðu eftir vikuna hvað þeir höfðu lært og voru þannig að ígrunda eigið nám.

Það sem ég lærði líka eftir þessa tvo vetur mína í Hörðuvallaskóla var að nemendur telja nám verða að eiga sér stað í eyðufyllingabókum. Ég heyrði af einu barni (í öðrum árgangi) sem kom heim og sagðist ekkert hafa verið að læra þegar þegar það var spurt. En svo eftir smá stund fór það að tala um hversu margir deyja daglega úr hungri eða hversu mikið rusl er í sjónum sem ætti að endurvinna. Þetta var þó ekki nám í huga nemandans.

En af því að ég er að tala um rýni á eigið starf þá hef ég líka séð annað sem ég hef miklar áhyggjur af. Það er stærðfræðikennslan okkar. Stærðfræðibækur eru frábærar ef að kennarinn er með sérþekkingu á efninu, getur útskýrt með réttum orðum hvað er verið að vinna með og af hverju. Þar sem menntaðir stærðfræðikennarar starfa sjaldnast á yngsta og miðstigi, þá er raunveruleikinn allt annar. Nemendum eru afhentar bækur sem þeir eiga að fylla út í, án nokkurrar kennslu á aðferðum eða tilgangi. Ekki af því að kennararnir séu allir óhæfir, þeim vantar bara oft sérþekkinguna, stundum áhugann og bækurnar stýra kennslunni mjög mikið ef að markmiðið er að klára þær. Þar sem ég var að vinna með bráðgera nemendur þá var ég kannski í bestu aðstöðu að sjá hvaða afleiðingar þetta hafði. Mínir nemendur voru gríðarlega flinkir í að fylgja sýnidæmum, en þeir vissu ekki af hverju þeir voru að gera það sem þeir voru að gera, þeir gátu sjaldnast yfirfært aðferðir á eitthvað annað og þeir kunnu ekki tungumál stærðfræðinnar því að enginn hafði kennt þeim það. Kennari sem segir nemendum að gera plúsdæmi er ekki að nota tungumál stærðfræðinnar. Ég hitti einn sem var í vandræðum með orðadæmi sem ég hafði sett fyrir hann. Orðadæmið var einfalt, hann átti að finna mismun summu tveggja tala við margfeldi tveggja annarra. Nemandinn hafði reynt við þetta nokkrum sinnum þegar ég kom honum til aðstoðar. Það sem var vandamálið var að hann vissi ekki hvað summa talna er. Þannig að ég byrjaði að útskýra fyrir honum að maður notar plúsmerkið til að finna summu talna, þá sagði hann "ó er þetta bara plúsdæmi". Ég ræddi svo við annan snilling um þáttun. Hann hafði sýnt mér í Sprota að hann kunni að leysa þannig dæmi en hann var alveg ákveðinn í því að hann kynni ekki að þátta. Þegar ég útskýrði þá fyrir honum hvað þetta væri, þá kveiknaði ljós. Hann vissi ekki að þessi aðferði væri kölluð þáttun og hann vissi alls ekki að það kæmi að góðum notum að kunna þetta þegar kæmi að flóknari algebru.

Það síðasta sem ég ætla að nefna er að við öll sem skólasamfélag ættum að rýna í hvaða kröfur við gerum til nemenda okkar. Við vitum öll að við erum að dragast aftur úr í alþjóðlegum samanburði. Í Svíþjóð er byrjað að kenna algebru í 2.- 3. bekk (m.a. einfaldar jöfnur), við erum lítið að tala um það orð fyrr en í unglingadeild (við kennum þó mynstur en án þess að tengja það við algebru). Í Bandaríkjunum eru nemendur í sumum skólum í 2. bekk að setja saman heimildaskrár enda er þar algjörlega bannað að taka efni sem aðrir eiga án þess að geta heimilda. Ég er ekki að segja þetta af því að allt sé betra annað staðar, en ef að við byrjum ekki að tala um algebru fyrr en við lok miðstigs og erum að kenna samlagningu fram að unglingadeild, þá er klárlega svigrúm til að gera betur. Heimildaskráning er svo eitthvað sem er vandamál í framhaldsskólum hjá okkur af því að grunnskólinn er ekki að leggja nógu mikla áherslur á þann hluta námsins. Ég hvet alla til að skoða stærðfræðibækurnar sem flestir nota. Þetta eru sömu aðferðirnar aftur og aftur með smá þynginu á milli ára og gríðarlegum endurtekningum. Nemandi gæti þurft að gera mörg hundruð dæmi með sömu aðferðinni á hverju ári. Þrátt fyrir að rannsóknir sýni (aftur eitthvað sem ég heyrði frá sérfræðingi en veit ekki hvaða rannsóknir það eru) að það sé nóg að nemendur kunni aðferðina og geti svo haldið áfram. Þessi endurtekning er ekki að skila því sem fólk hélt. Mér fannst þó steininn taka úr þegar barnabarnið mitt fékk um 200 samlagninga- og frádráttardæmi til að vinna með eina vikuna og fór svo í margföldunarpróf (af því að það var kominn tími á það án þess að nemendur væru að vinna með þá aðferð). Þetta var í 5. bekk og þar sem hann var nýkominn frá Dk á þeim tíma þar sem öll stærðfræðikennsla var hlutbundin eða rafræn, nemendur að læra jöfnur markvisst frá 3. bekk og ýmsar aðrar aðferðir sem okkar nemendur læra fyrst í unglingadeild hjá okkur, þá kom þetta okkur spánskt fyrir sjónir. Á öllum stóru Norðurlöndunum eru skólar með aðgang að rafrænum stærðfræðivefjum á eigin tungumáli, við erum það ekki. Við getum alveg gert betur og við þurfum að gera betur og það gerum við með því að rýna í það sem við erum að gera og finna leiðir sem skila betri árangri til framtíðar.


44 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page