top of page
Writer's pictureAnna María

Nemendur taka þátt


Nemendaverkefni - stærðfræði og spil

Það er alveg ljóst að ef að nemendur fá eingöngu tækifæri til að læra það sem kennarar og aðrir fullorðnir kunna, þá er ekki verið að undirbúa þá undir framtíð sem er að mestu hulin okkur fullorðna fólkinu. Að mínu mati ( og reyndar eru margir sammála þessu) er besta veganestið sem skólinn getur gefið nemendum nútímans, að kenna þeim að læra. Nemendur okkar verða að vera eilífðarnemendur, sífellt að læra nýja hluti í sí breytilegum heimi. Skólakerfið á enn langt í land að ná þessu, reyndar hjálpa valfögin sem eru í framhaldsskólum og háskólum eitthvað upp á þetta, þ.e.a.s. ef að nemendur fá að velja fög á öðrum brautum. Kennarar þurfa að horfa meira í eigin barm og velta fyrir sér hvernig þeir ná sér í nýja þekkingu. Þegar ég sjálf leita að upplýsingum og ætla að læra eitthvað nýtt, þá leita ég fyrst á Youtube. Af hverju ættu nemendur mínir að vera öðruvísi? Ef að ég vil að þeir noti aðrar leiðir, þá þarf ég að geta útskýrt af hverju og hvernig það gagnast þeim að læra á þennan hátt.

Ein leið til að ná að efla áhuga nemenda á alls konar kennsluaðferðum í grunnskólum (og í framhaldsskólum) er að gefa nemendum rödd varðandi eigið nám. Leyfa þeim að búa til verkefni (eða hjálpa okkur kennurunum við það) sem uppfylla aðalnámskrá en eru innan þeirra áhugasviðs og koma með hugmyndir sem okkur fullorðna fólkinu myndi líklega aldrei detta í hug. Ég hef mjög góða reynslu af þessu. Í Hólabrekkuskóla létum við nemendur fá aðalanámskránna og báðum þá að búa til verkefni, með matsviðmiðum. Þeir bjuggu til um 30 nýtanleg verkefni sem þeir fengu svo að velja sér sem verkefni næstu 4 vikurnar (reyndar bara á miðvikudögum). Eitt verkefnið var smíði á stól úr endurunnu efni og það voru 10 nemendur sem völdu að vinna í því, aðrir voru í t.d. fjármálalæsi, stjörnufræði og hagnýtri efnafræði, sum verkefnin valdi enginn, ekki einu sinnir þeir sem bjuggu þau til því að öðrum hafði dottið eitthvað meira spennandi í hug.

Síðustu árin sem ég kenndi dönsku settist ég niður með hverjum nemanda, fór með þeim yfir hæfniviðmiðin í faginu og við ræddum um hvar þeir teldu sig standa, hvað þeir töldu sig vera sterkir í og hvar veikleikar þeirra voru. Þeir settu sér svo markmið til að vinna eftir. Þetta skilaði ótrúlegum árangri. Ég sagði ekki mitt álit á stöðunni en ef að ég var ósammála þá var tilefni til að ræða það aðeins. Mín reynsla er reyndar að nemendur vita nokkuð vel hvar þeir standa sig vel og hvar þeir þurfa að taka sig á.

Í eitt skiptið bað ég nemanda að ígrunda hvaða verkefni hann hefði unnið með hverju hæfniviðmiði og skrifa hvernig hann stóð sig og hvort hann teldi sig uppfylla viðmiðið. Vegna tímaleysis var þetta bara einn nemandi, en ég er viss um að þetta hefði verið hollt fyrir þá alla. En hvort sem þessi aðferð er notuð eða ekki, er ljóst að nemendur þurfa að þekkja tilganginn með náminu sínu og ef að þeir hafa betri hugmyndir en við til að ná viðmiðunum, þá er það eingöngu til bóta.

Hér er myndband þar sem fjallað er um aðkomu nemenda að námi sínu í Iowa í Bandaríkjunum.

13 views0 comments

Comments


bottom of page