top of page
  • Writer's pictureAnna María

Niðurstöður samræmdra mælinga

Samræmdar mælingar hafa eitt markmið og það er að sjá hver staða menntakerfisins sé á hverjum tíma. Sumum skólum gengur bara vel í þessum prófum en öðrum miður vel. Skólar geta verið undir meðaltali ár eftir ár og jafnvel í áratugi og lítið breytist í þeirri stöðu. Nú er ég ekki að segja að þetta sé besta mæling á hvernig gæða kennsla fari fram og ég efa reyndar stórlega að próf eins og samræmd próf mæli hluti sem sýni það. En þeir mæla hluti eins og læsa og hugtakaskilning. Við hljótum öll að vera sammála um það og að það sé mikilvæg hæfni og þekking að hafa.

En hvað eigum við að gera til að bæta þessi atriði hjá okkur? Mér finnst það nokkuð ljóst, en kannski er það ekki svo. Þegar ég var byrjaði að kenna, byrjaði ég sem leiðbeinandi og var ekkert voðalega mikið að pæla í þessum hlutum. Ég var líka svo heppin að samræmd dönskupróf voru í síðasta skipti árið sem ég byrjaði að kenna. Þannig að drill fyrir það próf var hætt ári síðar og við gátum farið að skoða aðra hluti eins og framburð og annað sem prófið var alls ekki að mæla.

En segjum svo að þau hefðu verið áfram, ég hefði áfram kennt dönsku og ég hefði alltaf komið út undir meðallagi á landsvísu (eða nemendur mínir) þá tel ég það hljóta að hafa verið mitt starf sem sérfræðingur í þessu fagi að skoða af hverju mínir nemendur höfðu lélegri orðaskilning og væru verri í hlustun á dönsku en aðrir nemendur. Ég hefði sett niður aðgerðarplan um að bæta þessa þætti. Ekki með því að gera meira af því sama, heldur veit ég núna að ég hefði þurft aðra nálgun (ég vissi það svo sannarlega ekki á fyrstu árunum í kennslu).

Nemendur eru alls konar og þurfa alls konar kennslu. Ein ríkisleið hentar mjög illa hóp nemenda. Það skiptir í rauni engu hversu stór hópurinn er, hvaðan hann kemur upprunalega, hver námsgetan hans er, hvort að innan séu einhverjir með einhverfu eða ADHD, með slakt bakland eða hvað eina annað sem gæti haft áhrif á námslega getur hans. Mitt hlutverk hefði alltaf verið að kenna þeim miðað við það sem hentaði þeim, ekki mér. Ég er sérfræðingur í mínu fagi sem er að kenna og það þýðir að ég kann margar kennsluaðferðir, ég skil hvað getur ollið því að ein leið henti ekki öllum, ég veit að stundum þarf ég að leggja meira á mig fyrir suma nemendur en aðra. Ég er sérfræðingur. Það er lykillinn að lausninni.


Ef að skólar eða kennarar vilja bæta árangur í samræmdum mælingum, þá þurfa sérfræðingarnir (kennararnir) að greina hópinn, finna út hvernig hver og einn lærir best, bjóða upp á fjölbreyttar leiðir og síðast en alls ekki síst, stuðla að því að nemendum líði vel hjá þeim. Rita Pierson sagði það svo frábærlega í Ted fyrirlestrinum sínum, að nemendum sem líður illa hjá okkur, læra ekki. Nemendum sem líður vel hjá okkur eru mun tilbúnari til að leggja eitthvað á sig í náminu, það þekkjum við öll sem höfum kennt í einhvern tíma. Stundum er það líka þannig að nemendur bæði haga sér vel og eru duglegir að læra af því að þeim þykir svo vænt um kennarann sinn að þeir vilja gera allt til að hann sé stoltur af þeim.


Í mínum huga er lausnin sú að sérfræðingarnir setji niður aðgerðarplan um hvað sé hægt að gera til að hækka hæfni nemendanna. Ef að einn árgangur fær X meðaltal, þá ætti alltaf að stefna af því að fleiri nemendur nái sama eða betra markmiði næst og að hver og einn nemandi sýni vaxandi hæfni. Munum að það er ekki verið að dæma einn né neinn, það er verið að gefa okkur verkfæri til að ígrunda kennsluna okkar, sjá hvað það er sem er vandamálið og gera betur.


Ég held að okkar helsta vandamál sé það að námsbækur stýra kennsluna of mikið. Þetta er ekki tilfinning mín, ég sé þetta daglega í starfi mínu sem kennsluráðgjafi. Nemendur haga sér illa, þeim leiðist í námi sem þeir hafa ekkert að segja um og þeirra eina hlutverk er að lesa bækur og fylla út í eyður eða svara spurningum aftast í kaflanum. Þeir eiga líka allt of oft að sitja kyrrir í laaaaangan tíma. Ef að nemandi getur setið kyrr í 20 mínútur til hálftíma og unnið vel, er það þá ekki góður tími? Af hverju erum við að heimta það að þeir sitji í 20 - 40 mínútur í viðbót án þess að fá pásu, án þess að hreyfa sig og án þess að fá fjölbreyttara námsefni? Ef að mér gengur illa að skilja eitthvað, eða mér finnst það leiðinlegt, þá breytist það ekkert þó að ég sitji lengur við. Ég þarf eitthvað annað. Á þessum fjarfundartímum þá ættum við sjálf að hafa upplifað leiða og tíma þar sem við sónum út á fundum sem okkur leiðist á eða við skiljum ekki tilganginn með. Börnin eru ekkert öðruvísi. Hugsið bara um alla þessa starfsmannafundi sem hafa verið síðan Kóvid byrjaði að hafa áhrif á störf okkar og hvernig þið voruð á þessum fundum. Það gæti verið fín leið til að ígrunda eigin kennslu.


Það sem er alveg kristaltært er að við fáum ekki betri árangur með því að gera alltaf sömu hlutina. Það er gömul saga og ný en við erum alltaf að reyna að það. Við notum enn sömu námsgögn og kennsluaðferðir og við höfum gert, þrátt fyrir að margar viðvörununarbjöllur hafi hringt í langan tíma. Nú þurfum við að hugsa út fyrir boxið. Hvað sem okkur finnst um samræmdar mælingar þá er þetta tvennt, læsi og hugtakaskilningur eitthvað sem við vitum öll að nemendur okkar þurfa að hafa tök á. Við þurfum ekkert að bíða eftir menntayfirvöldum til að laga eitt né neitt (þó að ég yrði alsæl ef samræmd próf hættu í þeirri mynd sem þau eru núna), við þurfum bara að biðja kennara að laga þetta. Þeir hafa menntunina til þess, þeir hafa verkfærin og aðeins þeir geta hafa tækifæri til að bæta hæfni nemendanna. Biðjum þá að setja niður aðgerðaráætlun fyrir hvern og einn nemanda eða nemendahóp þannig að hæfni þeir eykst jafnt og þétt, hvort sem það er mælt í gegnum svona mælingar eða í innra mati á skólastarfinu.


Ég læt fylgja mynd sem ég hef ekki hugmynd um hvort að voru orð þessa mæta manns, en þau eru að minnsta kosti vel við hæfi hér.23 views0 comments

Comments


bottom of page