top of page
  • Writer's pictureAnna María

Of mikið álag við mat á verkefnum

Updated: May 17, 2021

Fyrirsögnin á þessari bloggfærslu er lýsandi fyrir það sem kennarar upplifa í skólum á hverjum degi. Við verðum líka vör við þetta í okkar skóla og þetta er eitthvað sem við höfum áhuga á að laga. Annar aðstoðaskólastjóra skólans er sérfræðingur í leiðsagnarmati (e. Formative assessment) - Edda Kjartansdóttir en hún hefur verið að reyna að fá okkur til að sjá ljósið. Ég er búin að því núna og hreinlega elska þetta.

Ég starfa sem kennsluráðgjafi (ekki kennari) en ég bý til kennsluefni. Oft hef ég verið að flækja málin óþarflega mikið með fullt af hæfniviðmiðum bara af því að þau passa öll. Það eru mistök. Eins og ég hef skrifað áður, þá höfum við verið að breyta hjá okkur í 7. bekk þar sem allar greinar eru samþættar og bara mismunandi þemu í gangi. Á haustönninni voru verkefnin svo mörg sem kennarar settu fyrir að það hlóðust upp verkefni sem þeir þurftu svo að fara yfir, meta og færa matið inn í Mentor. Þar sem þeir voru að drukkna vegna eigin dugnaðar, þá var farið af stað til að athuga hvort ekki væri hægt að aðstoða þá. Edda kenndi okkur á leiðsagnarmatið og viðmið um árangur. Hún sagði okkur líka að rannsóknir sýni að það skili engu námi til nemenda þegar kennari tekur af honum verkefni, fer yfir þau og gefur honum svo einkunn. Matið þarf að fara fram með nemandanum og fyrir framan hann.

Ég tók að mér að fara yfir eitt af verkefnunum sem eru í gangi núna með nemendum. Þemað er Evrópa og undir því voru nokkur kjarnaverkefni (til að þjálfa atriði sem nemendur þurfa að kunna í þemanu), fjögur samvinnuverkefni, ein heimildaritun og svo eiga nemendur að gera minnst 3 af 8 valverkefnum. Valverkefnin eru öll verkefni sem uppfylla hæfniviðmið sem nemendur hafa ekki unnið áður og því gæti það verið þeim til hagsbóta að uppfylla sem flest.

Verkefnið sem ég kynnti var heimildaritunin. Þar fengu nemendur að velja eitt af tíu viðfangsefnum sem öll tengjast sögu Evrópu frá upphafi 19. aldar til dagsins í dag. Þar sem nemendurnir eru yfir 70, þá útbjó ég yfir 80 miða og sýndi hverju pari sem ég tók viðtal við tíu þeirra sem voru valdir af handahófi af heildarfjölda miða (svona svo að vinsælustu miðarnir færu ekki fyrst, heldur hefðu allir sömu möguleika á að fá þá). Ég kenndi þeim á heimildaskráningu, útskýrði hvenær heimild væri góð og hvenær ekki, kenndi þeim að vitna í heimild inni í texta (þau kunna að búa til heimildaskrá), kenndi þeim að nota KVL kort og benti þeim á leiðir og bækur sem myndu hjálpa þeim í þessu verkefni (m.a. Neista). Eitt af því sem felst í þessu verkefni er að nemendur eiga að skila textanum inn þrisvar sinnum, fá athugasemdir frá kennara, laga textann og svo fá fleiri athugasemdir. Í lokin á textinn að vera þannig að nemendur geta verið stoltir af honum og við setjum alla ritunina saman í eitt "fræðslurit". Það rit verður svo aðgengilegt nemendum á lokuðu svæði og foreldrum einnig veittur aðgangur. Þetta verkefni er enn í gangi en nemendur eru búnir með eitt af skylduverkefnunum og það er eiginlega tilgangur þessa skrifa. Nemendur fengu verkefnalýsinguna og viðmiðið um árangur. Þeir fylltu sjálfir út í viðmiðin eftir að þeir kláruðu verkefnið, fóru með þau til kennara og sýndu honum á hvaða hátt þeir höfðu uppfyllt það sem þeir sögðust hafa uppfyllt. Ef að kennarinn var sammála, var búið að uppfylla viðeigandi hæfniviðmið. Í gær fóru fram kynningar á öllum verkefnum og kennararnir búnir að meta verkefnið. Það verður engin frekari vinna, nema að setja matið inn í Mentor. Sama aðferð verður notuð fyrir önnur verkefni í þessu þema og örugglega öllum verkefnum héðan í frá. Hér fyrir neðan er taflan sem inniheldur viðmið um árangur vegna heimildaskráningarinnar: Viðmið um árangur - heimildaritun.

Ítarlegra verður matið á heimildaverkefninu ekki og því er engin kennari að fara með ritunina heim til að fara yfir hana, öll yfirferð er framkvæmd áður en lokaskil eiga sér stað. Nemendur vita að þeirra ritun verður aðgengileg öllum nemendum í árganginum og foreldrum þeirra. Þeir vita líka að með því að fá aðstoð og athugasemdir þá er tilgangurinn að textinn í "bókinni" sé þannig að þeir geti verið stoltir.


312 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page