Sú furðulega umræða kom upp fyrir nokkur síðan þar sem skólastjórar ákveðinna unglingaskóla vildu að árangur þeirra á Pisa prófum yrði tekinn út og líklega með þeim tilgangi að sýna að þeirra skólar væru betri en aðrir. En þeir sem hafa smá skilning á Pisa vita að prófið er verkfæri til að skoða landið í heild (menntastefnur og árangur) en ekki einstaka skóla enda fá ekki allir nemendur sömu spurningarnar. Mér finnst þetta svolítið eins og þegar við erum að senda nemendur í framhaldsskóla með einkunn út frá prófum sem við búum sjálf til. Námsmat sem mínir nemendur fengu var alls ekki í neinu samræmi við próf sem aðrir nemendur tóku í öðrum skólum en samt gaf ég eina lokaeinkunn eins og aðrir. Kannski benti námsmat minna nemenda til auðveldara eða erfiðara námsefnis en það byggði eingöngu á því efni sem ég hafði sett fyrir. Ég var ekki með lokapróf, ég var reyndar bara með tvo pínulítil próf í 10. bekk og eitt próf í málfræði í 9. bekk því að mér finnst próf tímasóun. Þannig að matseinkunn sem mínir nemendur fengu var á engan hátt í samræmi við matseinkunn nemenda sem komur úr skólum þar sem bóknám og kaflapróf stýrðu námi og kennslu. Hver er þá tilgangurinn með því að gefa út eina lokaeinkunn? Ef að mitt námsmat byggði á munnlegri hæfni, á ritun og lykilhæfni og annarra á hæfileikum nemenda til að muna orð og svör úr textum, sjá allir að lokaeinkunnin var ekki samrýmanleg. Gefum okkur samt að við dönskukennarar höfum allir uppfyllt hæfniviðmiðin, þá var það örugglega á mismunandi hátt og með mismunandi áherslum. Þannig að lokaeinkunn milli skóla er aldrei samrýmanleg og Pisa niðurstöður sýna alls ekki réttlátan mun á milli skóla heldur.
Aftur af þessum unglingaskólum. Ég er hugsi yfir tilgangi þess að vilja gera árangurinn opinberan eða nota hann til samanburðar og þannig búa til keppni á milli skóla. Út á hvað gengi sú keppni? Er verið að skoða árangur ólíkra nemendahópa? Er verið að skoða mismun milli skóla sem eru með hátt hlutfall innflytjenda og hinna sem eru einsleitari? Er verið að athuga hvort að nemendur sem búa í hverfi með íbúa sem búa við verri félagslegan aðbúnað en í öðrum hverfum standi sig verr í skóla eða ekki? Er verið að keppast um gagnsemi hefðbundins bóknáms vs náms sem byggir á öðrum forsendum? Mér finnst tilgangurinn mjög óljós. Ég hef heyrt einn af þessum fyrrverandi skólastjórum segja að við þurfum að sinna betur grunninum og eins og hann sagði á ráðstefnu, þá á að vera eitthvað gegnumgangandi þema í námi nemenda, eins og Norðurlöndin í 6. bekk og Evrópa í 7. bekk til að tryggja að allir fái kennslu í þessum atriðum. Hann notaði ekki þessi dæmi, en ég man ekki hvaða dæmi nákvæmlega hann nefndi. Inntakið var þó þetta. Ég er að lesa núna bókina Creative Schools eftir Sir Ken Robinson og hann gagnrýnir einmitt þessa hugsun. Hann segir "A common mantra is the schoools have to get "back to basics."" Af hverju þó? Við viljum að nemendur okkar séu með á nótunum í dag. Er ekki mikilvægara fyrir þá að skilja hvernig tölvur virka en hvort að aðalútflutningsvara norðmanna sé fiskafurðir? Reyndar sögðu ein af dætrum mínum og vinkona hennar fiska-furðir þegar þær voru á miðstigi og voru að þylja upp efni kafla fyrir próf. Þær vissu hvorugar hvað afurð var og því var þessi undirbúningur algjörlega út í hött að mínu mati og tilgangslaus. Ef að ég hefði ekki leiðrétt þær og leiðbeint, hefðu þá aldrei fattað þetta sjálfar. En vegna þess að mér fannst þetta svo fyndið, þá gleyma þær heldur aldrei hver er aðalútflutningsvara norðmanna, eða fá ekki að gleyma því.
Sir Ken gagnrýnir menntakerfi Bandaríkjanna og Englands ágætlega í þessari bók og ég verð alltaf svo glöð þegar ég hugsa um okkar aðalnámskrár sem byggja á hæfni ekki þekkingu. En svo sé ég eitthvað sem ég sé að við eigum sameiginlegt við kerfin eins og Hvítbók Illuga sem átti að stuðla að eflingu læsis til muna hérlendis. Ég veit ekki hversu miklir fjármunir fóru í þetta "átak" en ég sé ekki að það hafi skilað nokkru ef að það fór þá einhvern tímann af stað. Ef að hraðlestrarprófin eru afraksturinn þá er árangurinn tvíræður. Sir Ken spyr sig hverju svona átök skili. Hann nefnir að Bandaríkin og England hafi eytt mikilli orku og fjármunum í að efla læsi og stærðfræðiskilning án þess að það hafi orðið til þess að árangur nemenda batnaði. Við erum að sjá nákvæmlega það sama hérna. Það er ekki eins og við vitum ekki hvað virkar í kennslu. Við vitum að það virkar ekki að láta alla fá sömu bókina, við vitum að einstaklingsmiðað nám er rétta leiðin fram á við, við vitum að líðan nemenda skiptir öllu máli, við vitum að góð samvinna kennara skiptir líka öllu máli og við vitum að samvinna nemenda er frábært verkfæri til að bæta árangur allra. Við vitum líka að upplýst börn í nútímasamfélagi þurfa að fá að vita hver tilgangurinn er með námi þeirra.
Til hvers ætti ég að leggja það á mig að læra sínus og kósínus ef að ég skil alls ekki tilganginn með þeim aðferðum? Ég tek það dæmi af því að ég var orðin vel miðaldra þegar ég heyrði son minn segja að hann þyrfti að rifja þetta upp fyrir námið sitt sem var í tölvuleikjahönnun (forritun). Þar sem ég hafði notað þetta dæmi þegar ég hélt fyrirlestra og var að tala um eitthvað sem ég skyldi aldrei þegar ég var í skóla, þá brá mér. Það tók hann eina mínútu að útskýra tilganginn fyrir mér, eitthvað sem ég hafði aldrei skilið þegar ég var að reikna dæmin og notaði til þess viðeigandi takka á reiknivélinni minni. Ekki að það hafi komið að sök, ég hef aldrei þurft að nota aðferðirnar eða takkana aftur. Hver var þá tilgangurinn?
Það sama má segja um námið sem ég er í. Ég er í námi sem kallast stjórnun menntastofnanna og minnst af því sem þar fer fram hefur nokkuð að gera með stjórnun menntastofnanna enda er tilgangurinn annar. Hvernig myndi það hjálpa mér í starfi að vita hvað Foucault fannst um vald? Ég veit reyndar að það er gott að hafa fræðilegan grunn til að byggja á þegar maður tekur ákvarðanir í starfi, en starf skólastjóra snýst um svo miku meira en það, þannig að undirbúningurinn er ekki fyrir starfið per se. Ég sendi inn fyrirspurn á forseta deildarinnar þegar ég hóf námið og spurði um þetta og fékk það svar að námið byggðist á því að ég væri undirbúin undir að gera lokaverkefnið sem ég er að gera núna. Ég er alveg sammála henni um að þetta nám er gagnlegur grunnur fyrir það, en þetta er að mínu mati frekar lélegur grunnur til að undirbúa nemendur undir starf sem skólastjóra. Þannig að ég er ekkert öðruvísi en ungir nemendur, ég vil fá að vita hver tilgangurinn sé með náminu mínu. Þar sem ég ákvað áður en ég fór í námið svona cirka hvað ég ætlaði að skrifa um, þá nýtti ég mér allt sem ég fann sem ég vissi að væri gagnlegt og reyndi að sía allt annað út. Ég sá ekki tilgang í að leggja það á minnið og reyndar las ég fáar greinar sem voru eldri en 5 - 6 ára. Mér finnst ekki við hæfi að vera að lesa eitthvað sem tengist skólastarfi sem er eldra en það því að það sem ég hef áhuga á, var ekki til mikið fyrr en þá (nema þá kannski Dewey). Tilgangurinn var og er mér alltaf mjög ofarlega í huga og ég er sjaldan til í gera hluti sem ég skil ekki tilganginn með. Ég get líka fullyrt að það sama á við um nemendur því að ég sá það þegar ég var með í að innleiða leiðsagnarnám og viðmið um árangur, hversu mikið nemendur blómstruðu í námi þegar tilgangurinn var skýr.
Þar sem við vitum hvað virkar og hvað virkar ekki er við hæfi að spyrja sig af hverju förum við ekki eftir því? Er það kennaranámið sem er þröskuldurinn eða er það menningin í skólunum? Þegar ég byrjaði að kenna 2007 þá var ég í námi ennþá. Ég tók diplómu í HÍ þegar það var enn í boði og þar voru eyðufyllingabækur og bækur með lestexta og kaflaspurningum gagnrýndar heilmikið. Ég var því mjög hissa að sjá þegar ég fór að líta í kringum mig að þær stýrðu næstum allri kennslu í skólanum. Ég notaði þær stutt og bara þegar ég vann með mér eldri kennara, en þegar hann hætti og ég tók yfir alla fagkennsluna hætti ég að láta þær stýra kennslunni minni. Ætli skilaboðunum sem ég fékk í HÍ hafi ekki verið haldið á lofti á MVHÍ er kannski ekki enn mörgum árum síðar? Ég vil meina að þau hafi gert mig að góðum kennara og kennara sem hugsaði í lausnum. Ég þótti mjög furðulegur kennari þegar ég byrjaði en eftir að ANG kom út 2013 sáu hinir kennararnir að kannski var mín kennsla svarið sem þeir þurftu. Þannig byrjaði ég sem leiðtogi í kennslu. Ekki endilega af því að ég var allt öðruvísi en aðrir, ég hafði bara fengið allt annað nám og annan undirbúning. Það kom sér gríðarlega vel þegar námskráin kom út 2011 og 2013, því að ég var vel undirbúin. Ef að það er nám kennara sem þröskuldurinn fyrir því að við nýti betri aðferðir í skólunum, þá er það námið sem þarf að endurskoða.
Ef að við viljum halda inni samræmdum mælingum, sem ég er svo sem ekkert algjörlega á móti (ég sé bara alls ekki tilganginn með hraðlestrarprófi, annað en að hann er auðmælanlegastur og eflaust ódýrasta leiðin til að mæla læsi) þá verðum við að vera með aðgerðarplan þegar framfarirnar standa á sér. Ég skrifaði í fyrra bloggi (Það sem ég hefði átt að gera) að ég var með nemendur sem ég sinnti illa af því að þeim gekk hvort sem er illa í öllu námi og sýndu skólanum lítinn áhuga. Ef að tilgangur prófa væri eingöngu að finna þessa nemendur og efla þá, þá endilega hafið þau og bara nóg af þeim. En ef að tilgangurinn er að ýta undir gagnslausa samkeppni, egó skólastjóra sem vilja skreyta sig skrautfjöðrum eða ef að skólayfirvöld halda að með því að gera alltaf það sama og búast svo við öðrum árangri, þá eru þau tilgangslaus. Mælingarnar mega ekki vera til að slá á puttana á skólastjórnendum eða kenna nemendum að ef að þeir eru í ákveðnum skóla, þá geti þeir átt von á góðu námi.
Tilgangurinn í hverju sem er innan menntakerfisins þarf að vera skýr og við þurfum að gera orðin "af því að við höfum alltaf gert þetta svona" útlæg úr menntakerfinu. Við þurfum heldur ekki að bakka, við eigum að horfa fram á veginn og ákveða hvort að tilgangur skólans sé að viðhalda sömu þekkingarviðmiðum og við höfum alltaf haft, eða setja inn önnur sem eru meira í takt við samtímann. Við þurfum breytingar til að ná betri árangri fyrir alla, ekki bara inni í skólastofu sumra kennara, heldur í öllu menntakerfinu með allt öðrum áherslum og við ættum að taka þær áherslur eingöngu úr okkar góðu námskrá (þ.e. 2011 námskránni). Við ættum ekki að horfa til gamalla hefða eða viðmiða.
Þar sem þessi skrif urðu til þegar ég var komin á bls. 15 í bókinni er nokkuð víst að ég skrifi aðra færslu úr sömu bók ;)
Comentarios