Eitt af því sem við kennarar gerum mjög mikið af er að endurmennta okkur. Við erum stöðugt að endurmennta okkur af því að annars gætum við hreinlega orðið úrelt. Við gerum það á mismunandi hraða en ég þekki engan kennara sem (þrátt fyrir háan starfsaldur) hefur ekki breytt áherslum reglulega. Þegar ég var í grunnskóla fólst tungumálanám í því að þýða texta frá íslensku yfir á markmál eða frá markmáli yfir á íslensku. Ég held ekki að nokkrum manni detti í hug að þetta eigi við enn í dag.
Ég er ein af þeim sem er stöðugt að endurmennta mig. Ég hef verið mjög upptekin af leiðsagnarnámi (eða leiðsagnarmati) undanfarin ár eftir að ég fékk leiðsögn í því hjá Eddu Kjartansdóttur sem ég var svo heppin að vinna með í tvö ár. Eins og margir vita er hún einn helsti sérfræðingur landsins í leiðsagnarnámi. Ég er heilluð af þeirri hugmyndafræði og er alltaf að læra eitthvað nýtt og spennandi sem tengist því. Ég hef líka kynnt mér mjög margt annað, því að það er ansi margt í boði sem við sem kennum getum tileinkað okkur. Það er þó líklega engum hollt að elta allar þessar stefnur sem eru að skila frábærum árangri af mismunandi ástæðum. En það er gott að þekkja þetta allt því að það er oft ekki mikill áherslumunur á tilgangi þessara aðferða. Við þekkjum verkefnamiðað nám, leitarnám, rannsóknarnám, umræðu og spurnarnám, vendikennslu og svo mætti líklega lengi telja. Það er áherslumunur á þessu öllu en það er líka margt sem þetta á sameiginlegt og það er það sem kennarar ættu að skoða vel, því að það er oft það sem skilar bestum árangri þegar þessar aðferðir eru notaðar.
Þessar aðferðir snúast nefnilega oftast um að gera nemandann sjálfbæran í námi sínu. Ég ætla að henda inn einu heiti í viðbót sem kemur frá John Hattie, en það kallar hann Visible learning. Í leiðsagnarnámi, sem er tengt hugarfari vaxtar og í textum sem fjalla um visible learners eða visible learning (það er ekki búið að íslenska þetta eftir því sem ég kemst næst) er talað um að tilgangur náms (námsmarkmiðin), árangursviðmiðin sem verða mæld og námsferlið sé vel skýrt nemandanum frá upphafi og í gegnum námsferlið. Ef að við hendum inn að hann megi nota áhugasvið sitt, eigi að rannsaka, vinna með öðrum, ræða um verkefnin sín og kannski nýta myndbönd frá kennara, þá erum við búin að sameina allar þær aðferðir sem ég nefni hérna áðan. Þetta er eflaust einföldun, en punkturinn sem ég er að reyna að koma á framfæri er að allt af þessu hjálpar kennurum að efla nemendur í að verða sjálfbærir í námi sínu.
En hvað græðum við á því? Við höfum akkúrat ekkert að gera með að mata nemendur sem verða eins og fuglar í hreiðri. Við viljum losna við að nemendur kalli að þeir séu búnir með verkefni, löngu áður en tíminn sem við vildum að þeir notuðu í verkefnin er búinn og við viljum losna við að nemendur spyrji, hversu mörg orð eða línur þeir eigi að skrifa. Við líka losna við að nemendur segist vera búnir þegar þeir eru alls ekki búnir með verkefnin. Við þurfum að virkja þá í eigin námi og það getum við gert með því að gera þá sjálfbæra námsmenn. Þannig geta þeir, þegar við sleppum þeim úr hreiðrinu, flogið sjálfir. Við þurfum því fyrst og fremst að gefa þeim verkfærin til að fljúga og það hlýtur að vera markmið okkar í skólunum.
Ein helstu mistök sem ég sé þegar ég fer á milli skóla (alls ekki allsstaðar samt) er að kennarar gera ráð fyrir að nemendur kunni margt sem þeir kunna samt ekki. Samvinna er námsferli, að taka þátt í samræðum er námsferli, að rannsaka eitthvað er námsferli, að nýta eigið áhugasvið á gagnlegan hátt (þ.e. gagnlegt fyrir námið) er námsferli. Kennarar sleppa oft þessu ferli og hoppa beint í að segja nemendum að uppfylla markmið sem þeir hafa litlar forsendur til að uppfylla. Ef að ég fengi 5 hráefni til að elda úr og ég ætti að búa til mat fyrir fjölskyldunna án þess að hafa uppskrift eða án þess að kunna að elda, þá yrði líklega lítið úr máltíðinni. Að elda er ferli og það krefst þess að sá sem gerir það, hafi ákveðna hæfni sem tengist ekki beint máltíðinni en tengist svo sannarlega ferlinu sem matseldin felur í sér (ég las tengda lýsingu í bók um visible learning). Að sama skapi þurfa nemendur að kunna handtökin sem við viljum að þeir noti í námsferlinu.
Kennarar þurfa að spyrja sig þegar þeir vilja að nemendur taki þátt í samræðum, hvort að þeir kunni það. Það geta allir sagt hvað þeim finnst, en það er sjaldnast djúpt. Margir nemendur segja ekkert af því að þeir vita ekki hvaða svari kennarinn er að leita eftir. Svo eru þeir sem halda að þeirra rödd skipti engu máli, því að aðrir nemendur hafa rödd sem kennarinn vill oftast heyra eða leyfir oftast að heyrast. Það er fínt tæki að nota t.d. tunguspaða til að velja þá sem eiga að svara, en það er engin trygging fyrir því að það sem nemandinn segir sé annað en það sem hann las eða hélt að kennarinn vildi heyra. Það dettur engum í hug að láta nemendur skrifa heimildaritgerð án þess að kenna þeim að nota og skrá heimildir. Að sama skapi þarf að þjálfa allt annað sem tengist náminu því aðeins þannig búum við til sjálfbæra nemendur sem geta orðið námsmenn alla ævi, sem aðalnámskrá segir að sé markmið skólanna.
Ég hef farið í of margar kennslustundir sem eru illa undirbúnar, ég kannski búin að sitja inni í tíma í 40 mínútur og hef ekki hugmynd að tíma loknum hver tilgangur hans var og mín tilfinning verður stundum að markmiðið sé að láta skóladaginn bara líða. Ef að kennarinn veit ekki þegar hann gengur inn í kennslustundina hver tilgangur tímans er, þá eru litlar líkur á að nemendur viti það. Stundum vita kennarar það en nemendur fylgja eigin ferli án þess að nokkur velti fyrir sér hvort að markmið tímans eða verkefnis séu að nást. Þegar ég spyr kennara að tíma loknum hver námsmarkmið tímans voru, er oft fátt um svör. Ef að nemendur fá hráefni án þess að vita hvað þeir eiga að gera við það, er þetta tímasóun að mínu mati og ég vona að það séu flestir sammála því. Að leggja fyrir bók frá Menntamálastofnun án þess að vita af hverju við erum að nota hana, hvað nemendur eigi að læra með því að fylla út í hana, er líka tímasóun og ekkert af þessu hjálpar okkur að gera nemendur að sjálfbærum nemendum. Ef að kennari notar þá aðferð og ef að markmið kennslunnar sé að klára bók A til að hægt sé að byrja á bók B, má líka spyrja sig hvort að kennarinn kunni að skipuleggja nám út frá námsmarkmiðum. Þá erum við komin í aðra vídd sem snýst um að kenna kennurum. Það er reyndar það sem starf mitt gengur út á eða að skoða hvað má gera betur og kenna kennurum að uppfylla það sem aðalnámskrá segir, það sem leiðsagnarnámið gengur út á og að koma með fjölbreyttar lausnir við áskorunum sem kennarar standa frammi fyrir daglega. Þannig að ég sinni því að kenna kennurum eitthvað sem að sumir kunna og aðrir ekki, alveg eins og kennarar þurfa að kenna og þjálfa hluti sem sumir geta auðveldlega gert og aðrir ekki.
Mig langar að mæla með því að kennarar kynni sér vel leiðsagnarnám og tileinki sér það, að þeir kynni sér aðferðir til að þjálfa það sem þeir vilja að nemendur hafi í sinni verkfæratösku (eins og að glósa eða taka þátt í samræðum) og að þeir kynni sér hvað liggi að baki því sem Hattie kallar Visible learning sem er kannski ekkert annað en tegund af sjálfbærninámi því að markmiðið virðist vera að gera nemendur sjálfbæra.
Comentarios