top of page
  • Writer's pictureAnna María

Sjálfræði kennara

Updated: Sep 27, 2020

Ég er að gera verkefni í náminu mínu uppúr mjög athyglisverðri grein sem kallast Shifts in curriculum control: contesting ideas of teacher autonomy eftir Sølvi Maustehagen og Christina Elde Mølstad (2015). Rannsóknin sem er verið að fjalla um varð gerð í Noregi og fjallar um breytt námsmat, breyttar áherslur í aðalnámskrá og áhrif á sjálfræði kennara, eitthvað sem að við hér á landi getum auðveldlega tengt við. Það sem er áhugavert er að breytingar í aðalnámskránni þeirra virðast vera þær sömu og hjá okkur. Á meðan menntayfirvöld í landinu segja aðalnámskránna eigi að vera almennt orðaða þannig að það sé enginn einn skilningur á hvað hún stendur fyrir og þannig tryggt að í hverju sveitarfélagi (og kannski skóla) sé mögulegt að túlka námskránna á sinn eigin hátt, þá er það ekki vilji kennara að svo sé. Þetta orðalag þekkjum við vel frá okkar eigin námskrá. Þetta hefur valdið núningi í Noregi (eins og hér) en það sem er sérstakt er að á meðan kennarar vilji halda í sjálfræði sitt í kennslustofunni þá vilja þeir ekki taka að sér að túlka námsmatið eða viðmiðin í aðalnámskrá sjálfir. Þeir vilja fá leiðbeiningar að ofan. Vegna þessarar óánægju kennaranna mun norska aðalanámskráin líklega verða meira stýrð í framtíðinni og það er líka það sem íslensk menntayfirvöld eru að tala um. Hjá okkur er talað um að gera eins og svíar en Lilja hefur sagt að við eigum að þora að "bakka" eins og svíar sem ég hef ekki hugmynd um hvað þýðir en get ímyndað mér að það feli sér meiri stýringu.

Í greininni kemur fram að kennarasamtökin í Noregi hafi ekki viljað taka umræðuna um kennsluaðferðir og þannig losa skólana við hefðbundnari aðferðir sem henti ekki lengur, heldur ræða um sjálfræði kennarana og að það eigi að vera í þeirra höndum að þróast. Hér á landi er það ekki málið. Á ársfundi MMS í fyrra var ljóst að þó að allir þeir sem starfa í skólum og voru í pallborðsumræðum voru mjög ánægðir með áherslur aðalnámskrárinnar óskuðu fulltrúar KÍ eftir meiri stýringu á þeim grundvelli að kennarar réðu ekki við þær breytingar sem var verið að krefjast af þeim. Það er alveg skýrt í greininni að á meðan kennarar taka ekki við boltanum mun sjálfræði þeirra minnka umtalsvert. Þannig verður hlutverk kennara að framfylgja aðalnámskrá (deliver) í stað þess að þróa hana (develop) sér og nemendum í hag.

Ég er mjög hugsi yfir þessu öllu núna en ég er líka mjög hrifin af núverandi aðalnámskrá, svo að við höldum því til haga. Ég vil ekki meiri stýringu af ofan. Mér finnst mikilvægara að við einblínum á hæfniviðmiðin og kennum nemendum að læra á umhverfi sitt, hlutverk sitt í hinu stóra samhengi og læri að taka afstöðu byggða á staðreyndum í stað þess að leggja áherslu á að nemendur læri að nota ausuaðferðina í stærðfræði eða viti að bíll er hlutbundið nafnorð. Ég vil breytingar og ég vil ekki "bakka" (hvað sem það svo þýðir). En ég veit líka að það eru ekki allir sammála mér. Í mínum skóla hafa stjórnendur komið því mjög skýrt frá sér að hæfniviðmiðin eigi að vera notuð til að móta alla kennslu en ekki námsbækur. Það er lögð áhersla á að kennarar skoði hæfniviðmiðin fyrst og ákveði svo hvað eigi að taka fyrir í kennslunni en að bækur stýri ekki kennslunni. Viðmið með kennslu eru ekki blaðsíður í bók, heldur það sem nemandinn á að tileinka sér. En þrátt fyrir að hafa talað um þetta endalaust (að því er mér virðist) hafa ekki allir kennarar meðtekið þetta. Það var kennari að segja mér að það væri bara ein leið að kenna stærðfræði á miðstigi og það væri að þræða sig í gegnum alla stærðfræðibókina og sleppa engu. Ég benti viðkomandi á að það væri ekki markmið í kennslu að klára blaðsíður í bók. Kennarinn brást illa við og sagði að það yrði að koma frá stjórnendum ef að hann ætti að hætta að nota þessa bók.

Ég held því að niðurstöður rannsóknarinnar séu alveg réttar. Kennarar vilja ráða hvað þeir gera í kennslustofunni en aðeins upp að vissu marki. Þeir vilja fá skýr skilaboð frá yfirvöldum hvað nemendur eigi að læra og leggja svo áherslu á það í kennslunni. En þetta viðhorf getur verið skaðlegt fyrir nemendur. Ég var á Menntakviku um daginn og þar var starfsmaður frá Menntamálaráðuneytinu að tala um (í spjalli) að sumir skólar væru hættir eða búnir að draga verulega úr því að æfa ritun eftir að sá þáttur var tekin út úr samræmdum prófum. Lesskilningur og málfræði væri orðin aðaláhersluþættir íslenskukennslunnar. Þetta er eitt dæmi um hvernig kröfur að ofan geta haft óæskileg áhrif á kennsluna og sjálfræði í kennslustofunni. Markmiðið verður að ná góðum árangri á samræmdum prófum sem eiga þó alls ekki að stýra kennslu. Það vill engin kennari vera sá sem dregur meðaltal skólans niður í þessum prófum sem á móti dregur úr hvata til að standa fyrir breytingum.

En þar sem ég er að velta fyrir mér (fyrir lokaverkefnið) hvernig hægt sé að stýra breytingum í skólum á þann hátt að allir (eða flestir) geti sætt sig við það, þá held ég að kennarar sem vilja engu breyta, geti ekki haldið áfram að stýra kennslunni sinni á sama hátt og þeir hafa gert. Ef að við setjum þetta í annað samhengi og horfum á fyrirtæki sem ákveður að taka upp aðrar aðferðir af því að þær munu henta fyrirtækinu betur og viðskiptavinum þess. Hópur starfsmanna ákveður að ný stefna henti þeim ekki og neita að taka þátt í breytingunum á þeim grundvelli að viðskiptavinirnir hafi alltaf verið ánægðir með starf þeirra og það muni fara alltof mikill tími í að læra nýja hluti sem fara af þeim tíma sem þeir ættu að vera að vinna í verkefnunum sem þeir eru þegar með. Við vitum öll hvað myndi gerast hérna. Yfirmaðurinn myndi þurfa að taka ákvörðun um að láta fólkið fara eða þvinga þau á einhvern hátt inn í breyttar aðstöður. Sjálfræði er því alltaf takmarkað í öllum kringumstæðum. Við höfum því bara val um hvernig við fylgjum nýjum stefnum og breytingum, ekki hvort að við fylgjum þeim. Mér finnst þó að það eigi ekki að vera menntayfirvöld sem taki þessa ákvörðun, heldur eiga skólastjórar að gera það. Námskrá sem er opin fyrir túlkun er því málið að mínu mati.

Í "gamla daga" var námsmat oft þannig að próf voru 50 - 100% af námsmati. Þegar skólar minnkuðu það og ákváðu að verkefni ættu að vera stærsti hlutinn, ákváðu sumir kennarar að kaflaprófin þeirra hétu núna verkefni. Þessar breyttu kröfur, breyttu því engu. En ég var að heyra af skóla þar sem stjórnendur gáfu út að (að mig minnir) 60% af námsmatinu byggðist á samvinnuverkefnum nemenda. Þarna er verið að taka sjálfræði að kennurum en á skapandi hátt og eflaust verið að þvinga suma kennara inn í aðstæður sem þeim hugnast ekki. Það er ekki verið að þvinga kennara til að vinna saman sem ekki vilja vinna saman, heldur er verið að einblína á nám nemendanna eingöngu og hvernir breytingar geti gagnast þeim. Ég held að útkoman úr þessum breyttu kröfum eigi eftir að skila góðum árangri fyrir nemendur sem breytingar sem fela engar raunverulegar breytingar í för með sér, gera að sjálfsögðu ekki.

En þó að ég hafi sagt hér að bæði KÍ og margir kennarar (m.a. í norsku rannsókninni) vilji meiri stýringu því að þeir ætli sér ekki að bæta ofan á mikið vinnuálag að þurfa að útbúa verkefni og matskerfi, þá veit ég að margir íslenskir kennarar eru að gera frábæra hluti einmitt af því að þeir hafa þetta sjálfræði til að stjórna eigin kennslu. Þeir bera líka sjálfir ábyrgð á eigin endurmenntun og eru duglegir að sækja hana og nýta í eigin kennslu. #Menntaspjall á Twitter er góð vísbending um frábært skólastarf á landinu.

Ég vona að þeir íslensku kennarar sem eru enn að bíða eftir meiri miðstýringu fari að sjá ljósið, taki upp hæfniviðmiðin og skoði á hvaða hátt sé hægt að uppfylla þau án þess að vera stöðugt að máta sig við bækur Menntamálastofnunar. Í mínum skóla höfum við kennt nokkrum nemendum á hæfniviðmiðin og leyft þeim að uppfylla þau eftir eigin áhugasviði. Það hefur skilað frábærum árangri. Nú eru nemendur í einum 6. bekknum að lesa viðmiðin og ákveða hvernig þeir getið uppfyllt einhver þeirra þegar þeir jólaskreyta stofuna. Þeir eru búnir að finna út að þeir geti lært um fjarvídd, þrívið form, almenn brot, trúarlegar hefðir og margt annað í þeirri vinnu sem framundan er. Ég held að kennurum sé alveg treystandi í þetta svo lengi sem þeir viti að þeir hafi ekki val um að gera ekki neitt. Ef að kennslan þeirra er óbreytt eða lítið breytt frá 2011, þeir eru í vandræðum með að fylla út í hæfnikort nemenda, verkefnin ekki góð til að meta viðmiðin eða kennslan gríðalega íþyngjandi, þá er gott að horfa í eigin barm og leita eftir aðstoð til að breyta. Breytingar þýða ekki meiri vinnu, þó að sumum finnist það, þær þýða öðruvísi vinnu og oft vinnu sem dregur verulega úr álagi í starfi.

49 views0 comments

Comments


bottom of page