Undanfarnar vikur hef ég verið að reyna að finna leiðir til að mæta bráðgerum nemendum, sérstaklega á miðstigi. Mig grunar að það séu margir nemendur sem fara í gegnum skólakerfið sem hefði mátt mæta fyrr til að viðhalda áhuga þeirra á námi. Ég hef verið að lesa mér til um hvað fellst í því að vera bráðger og hvernig það birtist í skólakerfinu. Einnig langaði mig að vita hvernig best væri að koma til móts við þessa nemendur. En ég er búin að læra eitt. Það er engin "besta aðferð" til að gera þetta. Eina góða aðferðin er að vera alltaf með verkefni sem hentar öllum, leyfir sumum að þjálfast í grunnhæfni á meðan aðrir fá tækifæri til að kafa djúpt. Að vera bráðger er nefnilega ekkert eitt, það er svo margt.
Það er eiginlegt tvennt sem lýsir minni starfskenningu mjög vel.
1. Námsbækur geta alls ekki þjálfað alla hæfni eða náð til allra nemenda. Verkefni eru mun betri og best þegar nemendur velja sjálfir hvernig þeir mæta þeirri hæfni sem þeim er ætlað að tileinka sér.
2. Próf sem kanna þekkingu úr kenndu námsefni eru tilgangslaus fyrir nemendur. Ef að margir fá lágt á prófinu sýnir það að kennarinn útskýrði efnið ekki nógu vel. Ef að sumir eru alltaf að fá lágt námsmat, sýnir það að kennslan eða námsmatið er ekki án aðgreiningar og ef að sumir fá alltaf hátt á prófum eru þeir líklega ekki að vinna með námsefni við hæfi. Hvernig sem litið er á þetta verða próf meira prófsteinn á kennsluna en þekkingu nemenda. Ég veit að það eru ekki allir sammála mér hér en leiðsagnarmat er málið að mínu mati.
Eins og ég byrjaði að skrifa þá hafa bráðgerir nemendur verið mér ofalega í huga undanfarið en sérstaklega vegna þess að ég var beðin að hitta blaðamann núna til að ræða þennan hóp.
Það sem ég hef komist að er á meðfylgjandi veggspjaldi. Við þurfum ekkert að hugsa um þennan hóp sem eitthvað vandamál eða sérstakt verkefni. Við þurfum bara að hafa námið og kennsluna okkar þannig að þau henti öllum. Ég hef gert þannig verkefni og veit að það er ekkert sérstaklega flókið. Ef að nemendur fá að vinna með eigin þekkingu og byggja áfram á henni, þá erum við í góðum málum. Ef að við gefum þeim verkfærin til að ná í þekkinguna og jafnvel dýpka hana þá er við í enn betri málum.
Bráðger nemandi og sá sem telst vera með námsörðuleika (stundum er þetta sami einstaklingurinn) eiga oft erfitt félagslega en það er ekkert algilt samt. Þetta er alltaf hættan varðandi alla jaðarhópa. Varðandi bráðgera nemendur sem eru að velta fyrir sér einhverju sem er svo langt frá áhugasviði jafnaldra þurfa skólarnir að reyna að tryggja að þeir geti rætt áhugasvið sitt við einhvern. Í verkefni í mínum skóla í fyrra var nemandi í 5. bekk sem fór svo langt í efnafræði að stuttu eftir að hann byrjaði að velta þessu efni fyrir sér var enginn fullorðin nálægt honum sem hann gat rætt við um þetta áhugasvið. Kennararnir gátu ekki svarað honum, ég gat það alls ekki og foreldrarnir voru líka komnir út fyrir sitt sérsvið þarna. Ég kom honum í samband við leiðbeinanda hér í skólanum sem er lífeinda- og sameindalíffræðingur. Þau áttu dag saman þar sem hann fékk svör við öllum sínum spurningum og þegar ég heyrði í honum næst, sagði hann mér að þetta hafi verið besti skóladagur sem hann hefði upplifað. Ég held að þarna hafi við unnið stóran sigur, því að það er alltaf hætta að missa svona nemendur í skólaleiða. Eftir að ég kynntist honum fór ég að velta fyrir mér hversu margir að unglingunum sem ég hef kennt eða þekki sem sýna einmitt einkenni skólaleiða hafi mátt snúa á rétta braut ef að við hefðum tekið á þessu strax.
Það eru margir skólar farnir að vinna með áhugasviðsverkefni eða samþættingu faga. Það gefur nemendum tækifæri til að vinna eftir eigin getu, hvernig sem hún svo er. Í mínum skóla höfum við ákveðið að vera með sérstakt lokaverkefni fyrir alla nemendur frá 7. bekk og upp í 10. bekk í vetur. Við verðum svo áfram með sérstakt verkefni fyrir klára krakka í 5. og 6. bekk og jafnvel yngri nemendur sem þurfa "meira". Hugmyndin byggir á 20time verkefnum (sjá með því að gúgla eða hér).
Ég held að það mikilvægasta varðandi þennan hóp og skólastarf sé að nemendur sem eru fljótir að nema, þurfi ekki að sýna fram á þá hæfni mörgum sinnum. Það er leiðingjarnt að vera alltaf að vinna með eitthvað sem maður kann. Ef að það á að taka nemendur úr tímum í sérstök verkefni, þurfa þeir einstaklingsnámskrá, því að verkefnin eiga ekki að vera íþyngjandi á nokkurn hátt. Ef að þeir eiga að ná öllu sem aðrir eiga að fylla út og svo að auki gera önnur verkefni, þá erum við að skapa þeim óþarfa álag og þar sem bráðgerir nemendur eru oft fullkomnunarsinnar, þá getur þetta beinlínis verið þeim skaðlegt. Svo er líka spurning af hverju nemandi sem er kominn langt fram úr jafnöldum sínum á einhverju sviði þurfi að leysa verkefni sem eru innan hans áhugasviðs og sérþekkingar en mun léttara en hann ræður við. Undanfarna daga hef ég heyrt ansi marga segja mér að bráðgeru börnin þeirra fái ekki verkefni við hæfi í skólum. Skólinn kemur til móts við þá með því að leyfa þeim að fylla út í fleiri bækur en jafnaldrarnir sem er bara asnalegt. Hver er ávinningurinn fyrir þá?
En ég er alls ekki hlynnt því að viðbrögð skólans eigi að vera að færa viðkomandi á milli ára. Bráðger nemandi er kannski mjög klár á sumum sviðum, aðallega þar sem áhugi hans liggur en það þýðir ekki að þeir séu framar jafnöldrum á öllum sviðum. Ég held að til þess að skólakerfið geti komið til móts við alla sé best að horfa frá því að vera með bekki (nema fyrir tíma eins og bekkjafundi) og leyfa nemendum að vinna með verkefni þvert á aldurstig. Klári nemandinn minn hefði getað verið að vinna verkefni með nemendum í 9. bekk þess vegna og margir þeirra lært helling af honum.
Við verðum svo að velta fyrir okkur hvernig við metum þessa nemendur. Við erum að hrósa þeim fyrir verkefni sem eru langt fyrir neðan þeirra getusvið og þannig ýta undir að þeir reyna aldrei að vaxa í okkar höndum. Við í skólunum erum sátt við lágmarksframlag þeirra og það er þá það sem við fáum. Fyrir kennara er því vænlegast að horfa frekar á leiðsagnarmatið og tileinka sér kenningar um hugarfar vaxtar (Growth mindset - Carol Dweck) og skila því til nemenda sinna (sjá líka hér).
Comentários