top of page
  • Writer's pictureAnna María

Til hvers að breyta?

Ég hóf minn kennsluferil frekar seint enda ákvað ég það bara að ég vildi verða kennari þegar ég var að nálgast fertugt. Ég hef starfað við þetta í 11 ár og einhverja hluta vegna hef ég ekki fengið mikið mótlæti frá nemendum í gegnum árin, nema þá bara frá þeim sem vildu ekki gera verkefnin sem ég lagði fyrir þá. Mín verkefni voru (og eru) líka yfirleitt þannig að nemendur fara langt út fyrir eigin þægindaramma til að byrja með og auðvitað er það ekki fyrir alla en þau hafa samt sjaldan verið erfið við mig samt. Ég man bara eftir einu dæmi um nemenda sem var virkilega dónalegur við mig. Hann vildi ekki sitja kyrr og taka Pisa próf og þegar ég bað hann að setjast, fékk ég að heyra það. En þessi eini nemandi sem var svona dónalegur við mig, fékk samviskubit og fór sjálfur til skólastjórans og sagði honum hvað hann hefði gert. Við leystum úr því, enda tók ég þessu nú ekkert allt of alvarlega.

Það sem furðar mig þó er að þó að ég hafi sjaldan lent í því að þurfa að kljást við svona vandamál, þá eru kennarar sem eru alltaf að lenda í því. Nemendur virða þá ekki og koma illa fram við þá. Oft sömu nemendur og höguðu sér alltaf vel hjá mér og flestum öðrum kennurum. Maður heyrir líka oft að heilu árgangarnir séu óalandi og óferjandi. Svo taka aðrir kennarar við þeim og þá allt í einu er allt í lagi með þessa nemendur. Kannski er þetta spurning um viðhorf og reyndar held ég að það sé oftast þannig. Einn kennari getur átt mun auðveldara með að takast á við fjöruga og skapandi einstaklinga en annar. Ein samstarfskona mín átti líka skemmtilega samræður við mig í sumar. Hún var reyna að segja mér að einn af okkar gömlu nemendum hefði komið í heimsókn en hún mundi ekki nafnið á honum. Hún spurði alla sem voru þarna, hvað hann héti drengurinn sem lærði bara í dönskutímum. Ég vissi alveg hvern hún var að tala um, því að sá drengur byrjaði með miklum mótþróa hjá mér en var svo eins og engill þau tvö ár sem ég kenndi honum. Eflaust var það vegna þess að honum þóttu verkefnin skemmtileg hjá mér, en ekki endilega fagið sem var danska. Ég man eftir einu skipti þar sem ég átti að kenna honum eftir hádegi. Ég heyrði það í hádegishléinu að hann væri einstaklega erfiður þann daginn. Ég fór því inn í tímann og sagði (við hann) að ég hafi heyrt að hann ætti slæman dag í dag, að það væri líka bara allt í lagi, en bað hann svo endilega ekki að gera þetta oft. Eftir 10 mínútur var hann farinn að læra eins og allir hinir. Og þá er ég komin að kjarna málsins.

Ef að kennari er stöðugt með mjög erfiða hópa finnst mér það vera hlutverk stjórnenda að skoða hvað fer fram í stofunni hjá viðkomandi. Það er allt of mikið um að kennarar fái ekki stuðning og fræðslu til að breyta til að geta komið til móts við alla nemendur. Ég er ekki að tala um að taka út "erfiðu" nemendurnar, heldur stuðning til að breyta námsefninu til að vekja áhuga fleiri nemenda. Reyndar finnst mér þetta fyrirkomulag um að faggreinakennarar séu einir með allar ákvarðanir um kennsluna sína, vera úrelt form. Það vex enginn í starfi ef að hann fær ekki tækifæri til að tala upphátt um það sem hann er að gera og tilganginn fyrir því sem hann er búinn að ákveða að nemendur eiga að gera. Hann á líka að fá tækifæri til að eiga þessar samræður við aðra kennara en bara faggreinakennara í eigin fagi.

Annað mál er að ef að nemendur tengja ekki við efnið sem er verið að nota, finnst það erfitt eða bara leiðinlegt, þá er fátt annað eftir en að gera ekkert í tímanum eða þá að trufla aðra.

Ég hef mikið verið að hugsa um þetta undanfarin ár, en ekki síst eftir að ég byrjaði sjálf í námi. Ég er í fjarnámi en á svo erfitt með að hlusta á fyrirlestra í 90 mínútur þegar kennarinn er miðpunkturinn og engin umræða á sér stað. Ég á reyndar ekki bara erfitt með það, mér finnst ég verða eirðalaus, pirruð og ég skil ekki tilganginn með þessu. Hvað með bara að láta okkur lesa þetta sjálf og leysa verkefni úr því? Við erum örugglega öll vel læs á þessu stigi. En ekki nóg með að ég þurfi að hlusta á fyrirlestrana, þá er ég að fara í krossapróf í næstu viku til að athuga hversu mikið af því sem ég hef lesið ég muni!!!!! Fyrirgefið, en er það ekki úrelt? Hvað í ósköpunum læri ég á því? Ef að það er ekki alveg orðið skýrt, þá finnst mér þetta nám tilgangslaust og svo lítið hagnýtt að það er ekki fyndið. En þar sem ég er að deyja hægum dauðdaga í þessu námi, verður mér oft hugsað til nemenda sem skilja ekki námsefnið (ég skil það alveg, það er ekki vandamálið) eða tilganginn með því. Hugsið ykkur að sitja í marga klukkutíma á dag undir slíku, viku eftir viku, ár eftir ár. Kennarar við Menntavísindasvið eru að vinna með fullorðið fólk, við í grunnskólunum erum að vinna með börn. Það er ekki í lagi að drepa niður allan áhuga og löngun á að læra með því að vera með námsefni sem hentar ekki öllum eða að minnsta kosti flestum. Við þurfum að efla áhuga nemenda á námi, því að það eru miklar líkur á að það verði hlutskipti þeirra að vera meira eða minna að læra alla þeirra starfsævi.

16 views0 comments

Comments


bottom of page