top of page
  • Writer's pictureAnna María

UT-nám - undirbúningur fyrir lífið

Updated: Aug 6, 2019

Mjög margir skólar hafa verið að endurskoða tölvukennsluna fyrir sína nemendur. Sveitarfélögin hafa verið misdugleg við að afhenda skólunum og nemendum hentug tæki í þessum tilgangi en það er alveg ljóst að upplýsingatæknimennt þarf að vera hluti af öllu námi í dag. Þar er þó oft misbrestur á. Það gæti verið stærðfræðikennari í einum skóla sem er duglegur að nýta tæknina, að kenna vel á töflureikna og sýna nemendum réttu leiðirnar til að nýta sér tölvurnar til að leita svara. Í öðrum skóla gæti tölvufæri kennarinn verið íslenskukennarinn sem nýtir tæknina til að hjálpa nemendum að öðlast skilning, en ég held að í engum skóla séu allir kennarar í öllum fögum duglegir við að þjálfa þessa færni eða gefa nemendum verkfærin sem eru til í formi smáforrita, vefsíðna eða kennslumyndbanda. Garðaskóli setti upp fína áætlun þar sem skilgreint var hvaða greinar beri ábyrgð á t.d. myndbandagerð, heimildaskráningu og kennslu í töflureiknum, en ég veit reyndar ekki hvort að þeirri áætlun sé framfylgt vel. Mér hefur ekki fundist kennarar endilega mjög spenntir fyrir þessu, þó að mér finnist þetta sniðug lausn. En þetta er góð lausn til að geta metið nemendur með hæfni í UT við lok 10. bekkjar sem við eigum jú öll að gera. Sjá hér: https://docs.google.com/document/d/1CQehP_c16FL3PdIPSN6T-FEBPDpNyOq6g1SKy55j_MU/edit

Í mínum skóla hafa allir nemendur frá 5. bekk og upp í 10. bekk góðan aðgang að tölvum, enda fá þeir afhenda ipada til einkanota. Skólinn á líka nokkrar borðtölvur og nokkra tugi Chromebook véla sem eru mikið notaðar. Yngsta stigið í skólanum er með bekkjarsett af spjaldtölvum sem þeir hafa aðgang að og nýta vel.

Kennarar skólans óskuðu eftir að fá að vita hvernig þeir gætu uppfyllt hæfniviðmiðin í hverjum árgangi og með hvaða leiðum. Þetta var eitt af fyrstu verkefnunum sem ég fékk þegar ég byrjaði í skólanum. Ég setti fljótlega upp áætlunina fyrir unglingastigið en er nýlega búin með 1.- 7. bekk. Ég kynnti þetta á fundi í skólanum um daginn og þá kom í ljós smá misskilningur. Ég ætlaðist ekki til að hluti yrði kenndur í 1. bekk svo yrði annað kennt í 2. bekk og svo framvegis. Allt sem er sett upp sem grunnur fyrir yngsta stigið er eitthvað sem á að vera að vinna með alltaf og svo byggjum við ofan á.

Ég setti áætlanirnar upp miðað við grunnþekkingu og svo hæfni náð og það á að vera nóg (C og B námsmat). Til að fá hæfni náð t.d. við lok 4. bekkjar er nemandinn búin að sýna að hann uppfylla alla hæfni sem þar er tilgreind. En þar sem við vitum að það er ekki nóg fyrir alla, þá gæti kennarinn farið með einhverja nemendur í efnið fyrir 7. bekk (miðjan) og gefið hærra námsmat, en að mínu mati er það óþarfi.

Ég setti þó upp þrjú stig fyrir unglingastigið af því að það skiptir máli þegar nemendur klára 10. bekk að þeir séu með eins hátt námsmat og mögulegt er í þessari grein. Mér þætti það líta illa út ef að við værum að útskrifa nemendur með lélegt námsmat í UT í skóla sem er svona vel búinn tækjum. Ég byggði A matið (framúrskarandi) á valfögum sem þjálfa UT (s.s. forritun og myndbandagerð) og svo á þrautseigju, úrræðahæfni og fleiri álíka eiginleikum sem ættu að fleyta nemandanum langt áfram í sínu lífi. https://www.kortsen.is/ut-kennsluaaetlun


UT kennsla er ekki sérstakt fag og við setjum það heldur ekki þannig upp í okkar skóla. Tölvur eiga að vera hluti af allri kennslu, enda getum við þannig þjálfað hæfni sem nýtist klárlega til framtíðar. Ég fer ekki út í búð og kaupi mér bók ef að ég ætla að læra eitthvað nýtt. Ég fer á Youtube eða nota frk. Google. Reyndar er það nú svo að ég kaupi flestar bækur rafrænt (helst námsbækur) og margar þeirra bóka sem ég les mér til yndis les ég líka rafrænt eða hlusta á þær. Mitt hlutverk sem kennara er því ekki að benda nemendum á að lausnin eða svarið sé í bók, heldur frekar benda þeim á aðferðir sem þeir geta nýtt sér í framtíðinni og þær eru flestar rafrænar. Þegar ég var að kenna danska málfræði þá lét ég nemendur ekki læra eitt né neitt utanbókar. Ég útskýrði reglurnar, setti upp æfingar (rafrænt auðvitað) og benti þeim á síðuna https://ordnet.dk/ þar sem svörin eru. Ég setti upp hugtakakort sem nemendur máttu skrifa upp og mæta með í eina prófið sem var hjá mér yfir veturinn, en það var málfræðipróf sem gilti svo lítið sem ekkert. En ég vildi fá betri stíla eftir þessa vinnu.

Nemendur í unglingadeild eru löngu byrjaðir að vinna í því að uppfylla þessi markmið í UT. En það er mest á þeirra forsendum. Geri þeir glærukynningu í íslensku, fer hún inn á Google Classroom síðuna fyrir UT námið. Geri þeir Toontastic verkefni í ensku, skila þeir henni líka þarna inn. Notist þeir við https://vefir.mms.is/stafsetning/index.htm, senda þeir inn mynd af æfingunni sem þeir klára. Þetta snýst alls ekki um að nemendur séu að sýna hversu færir þeir eru í notkuninni, heldur frekar að þeir viti af þessum möguleikum, hafi kynnt sér þær vel og geti leitað í þær ef að þeir telja sig þurfa. Nemandi sem hefur nýtt sér fjölbreyttar leiðir í verkefnum, veit af rafrænum verkfærum sem getur hjálpað honum í náminu eða lífinu almennt, hefur náð þeirri hæfni sem þarf í UT. Sérhæfingin fylgir í farvatningu og byggir á áhugasviðum hvers og eins.



Mynd á forsíðu: Wevio. (2019). Information & Communication technology (ICT) [Mynd]. Sótt af http://www.wevio.com/industries/information-communication-technology-ict/


266 views0 comments

Comments


bottom of page