Eins og fram hefur komið (held ég örugglega) þá starfa ég sem kennsluráðgjafi. Í flestum tilfellum tilheyrum við þjónustumiðstöðvum en ég tilheyri nýrri deild sem heitir Skóla- og frístundadeild Breiðholts. Það þýðir þó ekki að hafi önnur verkefni en aðrir kennsluráðgjafar á þjónustumiðstöðvum. Ég fer í áhorf vegna almennrar kennsluráðgjafar og ég fer inn til að skoða námsumhverfi nemenda sem eru greindir með ADHD eða einhverfu. Ég geri mest af því, fyrir utan að vera á misgagnlegum fundum. Það sem ég hef lært í vetur er mjög margt og margt af því gríðarlega gagnlegt. Ég veit t.d. núna að með hverri greiningu fylgja ráðleggingar fyrir viðkomandi nemanda frá sálfræðingum. Þær eru svo eins fyrir aðra nemendur með sömu greiningu. Þetta vissi ég ekki áður. Flest þessara barna þurfa sjónrænt skipulag, beinar leiðbeiningar, ekki of langar lotur og margir þurfa reglulegar hreyfipásur. Þegar kennurum er bent á þetta er stundum sagt við okkur að það dugi ekki, það hefi verið prófað. Það dugar bara víst, það eru rannsóknir sem styðja að þetta dugi og ekki bara ein eða tvær, heldur hellingur af þeim. Ég sit líka oft tíma sem eru 60+ (alveg upp í 120) mínútur og sé að sumir nemendur hafa 7 mínútna athyglispan. Hvað heldur fólk að hinar 53+ mínúturnar séu gagnlegar í fyrir þá nemendur? Eftir 20 mínútur eru kannski helmingur nemendur í bekknum enn með athyglina á verkefninu, en samt er verið að eyða tíma í að reyna að fá nemendur til að hætta að tala, ekki standa upp og fókusa á námsefnið. Þar sem samtal á sér stað í kennslunni milli kennara og nemenda (sem ég sé mjög sjaldan) þá á samtalið sér stað á milli kennara og klárustu nemendanna. Hinir sitja dreymandi og bíða eftir tímanum ljúki. Þetta er ekki góð leið til að nám eigi sér stað, nema fyrir örfáa útvalda. En af hverju erum við að reyna þetta? Af hverju erum við með svona langar lotur þegar mjög margir nemendur ráða ekki við það?
Jú, bæði er það hefð og svo erum við með viðmiðunarstundaskrá. Samkvæmt henni er nám mælt í mínútum og þær eru ekkert fáar fyrir hvert fag. Í grunnskóla (1. -10.bekkur) er t.d. íslenska með 2.430 kennslustundir á viku og stærðfræði með 2.020 kennslustundir en það eru 33.11% af kennsluvikunni. Yfir þessi 10 ár er reiknað með 13.440 kennlustundum á viku og eru skólaíþróttir (sund og leikfimi) 8.93% af þeim. Þannig að það sjá allir að hreyfing er ekki mikilvæg svona dags daglega hjá okkur. En samt er hreyfing það sem krakkar þurfa sem hafa stutta athyglisgáfu. Það var mjög gott viðtal við Harald Erlendsson sálfræðing sem hægt er að sjá hér þar sem hann talar um að fólk með ADHD geti ekki og eigi ekki að geta setið í marga klukkutíma í einu án þess að hreyfa sig. Reyndar finnst mér ekki að nokkurt barn eigi að sitja löngum stundum án þess að hreyfa sig og segi stundum við kennara sem eru kvarta undan því að nemendur sitji ekki kyrrir í löngum lotum að þeir ættu að hafa meiri áhyggjur af börnum sem geti gert það, en þeim sem geta það ekki. Það á ekki að vera börnum eðlilegt að sitja kyrr á stól í allt of margar mínútur. En auðvitað eru þessar löngu lotur til að koma öllum þessum mínútum sem viðmiðunarstundaskráin kveður á um inn í skóladag barnanna. Ég hef sagt það áður og segi það aftur, finnar eru með miklu betra kerfi og gætu jafnvel verið með betra kerfi, en þar er hver kennslustund 60 mínútur og af henni eru 15 mínútur í útiveru eða heilapásu. Það væri best ef að það væri alltaf hreyfing innifalin. Viðmiðunarstundaskráin okkar bíður þó ekki upp á þetta, nema ef að við tökum valgreinar af börnum og setjum hreyfingu inn í staðinn sem er fáránleg lausn, því fyrir marga nemendur eru það lang bestu og skemmtilegustu tímarnir. Börn þurfa að hreyfa sig og eins og fram kemur í viðtalinu, þarf fólk með ADHD að hreyfa sig 5x á dag. Unglingar í dag ganga kannski í skólann (reyndar fá ótrúlega mörg börn far í skólann) og flestir ganga heim. Sumir fara á æfingar en þetta eru aldrei 5x á dag ef að þeir liggja í símum og tölvum þess á milli eða sitja kyrrir á stólum í skólanum. Ég er búin að reyna að fá skólana sem ég sinni til að taka upp Daily-mile verkefni en það hefur ekki enn gengið. Ég held þó að það yrði gríðarlega gagnlegt og þó að ég sé ekki hrifin af öllu sem Hermundur segir, þá held ég að hann sé alveg með það þegar hann segir að börn eigi að byrja daginn á hreyfingu. Við þurfum þó að losna við þessa viðmiðunarstundaskrá ef að við ætlum að mæta allri þessari hreyfingu sem börn þurfa.
Ég hef líka heyrt svolítið í vetur sem ég verð alltaf jafn hissa á að heyra. Ég fer á fundi með foreldrum sem eiga börn sem eru ljós eins og lömb heima, eru listræn fram úr hófi, dugleg í íþrótt sem þeir stunda eða tónlistarnámi en foreldrarnir eru orðnir svo þreyttir á samskiptum við skólana. Þau eru nefnilega alltaf á neikvæðum nótum. Stundum eru foreldrarnir líka farnir að tala um börnin sín sem vandamál, eingöngu af því að skólakerfið hentar þeim ekki. En það er einmitt málið. Það er ekkert að þessum börnum, það er eitthvað af skólakerfinu og umhverfinu sem við erum að bjóða þeim upp á. Ef að barninu líður vel utan skólans, þá er það augljóslega skólinn sem er vandamálið. Börn með ADHD eða einhverfu eru oft með hæfileika sem við hin höfum ekki en það er ekki þar með sagt að þeir hæfileikar komi að góðum notum í skólanum og með því kennum við þeim að það er eitthvað að þeim. Þeir séu ekki eins og fólk eigi að vera. Sem betur fer erum við ekki öll eins en við sem samfélag verðum að hætta að líta á börn sem vandamál, þau eru öll með einhverja styrkleika en bara á mismunandi sviðum. Ég var á fundi um daginn þar sem var verið að ræða um barn með greiningu (á miðstigi) og í byrjun var foreldrum sýnd saga sem barnið hafði samið. Það koma þeim skemmtilega á óvart, en það barn skrifar helst ekki neitt með blýanti og var því komið með það orð á sig að vera með námsörðugleika. Þessi flotta saga varð bara til af því að barnið fékk að nota tölvu til að skrifa hana, það skrifar enn ekki með blýanti. Þetta snýst nefnilega oftar um að mæta nemendum, ekki reyna að troða öllum í sama kassa. Það er líka óþarfi í dag þar sem við erum með fullt af flottum lausnum til að leysa alls konar áskoranir nemenda. Við þurfum þó að vera tilbúin aðlaga námsumhverfi þeirra þannig að það henti flestum ef ekki öllum nemendum.
Varðandi þetta viðtal þá finnst mér líka mjög áhugaverð pæling hjá Haraldi þegar hann talar um kennslu. Hvernig væri að við segðum við nemendur "nú ætlum við að læra um seinni heimstyrjaöldina. Sýndu mér hverju þú kemst að" í stað þetta að segja þeim að lesa námsbækur og finna svörin í þeim.
Nýtt: Þegar ég setti inn þessa færslu var þetta fína viðtal aðgengilegt en út af sottlu tók Sölvi allt efni sem hann hafði sett inn af netinu. Kannski er það til frambúðar, kannski ekki en ADHD samtökin hafa líka tekið mjög góð viðtöl við Harald sem hægt er að nálgast á vef þeirra.
Mynd fengin af: https://homebuildingtimeline.com/directionally-specific-claustrophobia/
Comments