top of page
  • Writer's pictureAnna María

Virk hlustun og geðrækt nemenda

Á mörgum ráðstefnum i vetur, í allt of mörgum fréttum í blöðunum og á samfélagsmiðlum erum við að heyra og lesa um vanlíðan ungs fólks. Ég er oft spurð um ráð þegar skólar ráða ekki við nemendur sem eru alveg niður í leiksskóla aldur. Það sem ég sé þegar ég kem í skólana og fylgist með er að við erum að ræða um nemendur sem skilja ekki verkefnin, finnst þau leiðinleg og oft á tíðum er allt of langur tími ætlaður í eitthvað sem nemandinn hefur engan áhuga á.

Þegar ég vann sem kennsluráðgjafi í Reykjavík tók ég stundum tímann á hversu langan tíma nemendur á yngsta stigi gátu einbeitt sér. Ef að við segjum að í bekk hafi verið um 20 nemendur, þá voru fyrstu farnir að missa einbeitinguna eftir 7 mínútur. Eftir 20 mínútur var helmingur bekkjarins orðin órólegur og þá gerðu margir kennarar mistök. Þeir vissu að þetta væri nógu langur tími fyrir svona unga nemendur í einu verkefni, en það sem þeir gerðu var að skipta frá einni eyðufyllingarbók í aðra. Nemendur tóku yfirleitt allir vel í skiptinguna, en það voru ekki liðnar nema 5 mínútur þegar fyrstu misstu áhugann. Þegar við erum að tala um 40 mínútna tíma og það eru nemendur sem vinna í mest 13 mínútur, geta allir séð að í 27 mínútur var kennarinn ekki að kenna þessum nemendum eða nemendurnir að læra. Þegar það eru 5 kennslustundir yfir daginn, þá erum við að tala um 200 mínútur sem kennslustundirnar taka og ef að allir tímarnir voru eins og þeir sem ég sá, þá má reikna með að nemendur hafi unnið í 65 mínútur af þeim. Hvað heldur þú að þeir hafi gert hinar 135 mínúturnar?

Þeir skriðu á gólfinu, trufluðu aðra (því þeim leiddist), gengu um stofuna, urðu reið þegar þeim var bannað það eða jafnvel bara létu ekkert fyrir sér fara þvi að þeir vildu ekki athyglina. Það allra versta sem ég upplifði í hegðun var þegar kennari reif í nemendur til að troða þeim aftur í sætin sín. Oftast fengu þau athugsemdir frá kennurum og þar sem um neikvæða athygli var að ræða, þá var það sem aðrir nemendur heyrðu alla daga um nemanda sem hafði ekki eirð í sér að skrifa í eyðufyllingabækur í meira en 13 mínútur í hverri 40 mínútna kennslustund. Það sjá vonandi allir að þetta er ekki umhverfi sem ýtir undir vellíðan nemenda.

Hver og einn kennari ætti að spyrja af hverju hann mætir í vinnuna. Rétta svarið er að hann er þarna fyrir nemendur, ekki öfugt. Hann er sérfræðingur í málefnum barna og á að kunna aðferðir til að mæta nemendum þegar staðan er svona. En svo að ég sé ekki bara neikvæða Ninna, þá ætla ég að segja hvaða tímar gengu best hjá yngstu nemendunum. Það voru hringekjur þar sem námsmarkmiðin voru skýr og nemendur voru í mest 10 mínútur á hverri stöð. Önnur hvor stöð var hefðbundið nám á meðan önnur hvor var leikur eða hlutbundin kennsla sem snéri að því sama og nemendur voru að læra. Hegðunarlega gekk líka vel í þannig vinnu þó að lítið skipulag væri á kennslunni, en námið sem fór fram í þannig tíma, skyldi lítið sem ekkert eftir og nemendur vissu ekki hvað þeir hefðu verið að læra.

En nú vinn ég hjá Ásgarði í skýjunum og aðstoða kennar mjög víða um land með ýmislegt sem snýr að gæða kennslu. Þann 21. apríl vorum við með ráðstefnu í Reykjavík með kennurunum sem við aðstoðum sem starfa í skólunum á Vestfjörðum. Það voru 12 mismunandi verkefni kynnt og í öllum þeirra kom vel í ljós að þegar nemendur fá að hafa áhrif á nám sitt, þegar það er rauntengt og ekki bara eitthvað sem á að skila kennara, þá eru engin hegðunarvandamál og nemendur tengjast í gegnum verkefnin sín. En það er svolítið lykillinn í geðræktinni. Nemendur þurfa að hafa tækifæri til að kynnast, tengjast og eignast vini.

Þegar ég var Olweusar fulltrúi á sínum tíma þá voru það nemendur frá 4. til 7. bekk sem oftast komu inn á mitt borð. Það var ekki vegna þess að nemendur sem voru yngri eða eldri voru á borði einhvers annars, heldur vegna þess að á þesum aldri er ekkert mikilvægara en að eiga besta vin. Þegar það gengur ekki upp, þá liður börnunum illa.

Í Skóla í skýjunum eru nemendur sem sumum hverjum líður betur þar en þeim gerði í heimaskólunum sínum og það sem bæði börnin og forrráðamenn þeirra tala um er að þau eru loksins að eignast vini. Það skýtur kannski skökku við þar sem námið er allt í gegnum netið, en það er samt þannig. Þeir hittast og hanga saman eftir skóla því að þeir eru búnir að hitta einhvern í umhverfi sem ýtir þeim í samstarf og samræður með jafnöldrum þeirra. Við höfum verið með nemendur sem segja að þeir hafi aldrei áður verið í jafn miklum tengslum við aðra og hjá okkur. Það segir okkur eitthvað, því að þeir eru að koma úr skólum sem eru fullir af öðrum nemendum. Ef að það er ekki hægt að sinna félagsþroska þeirra þar, þá er hættunni boðið heim.

Leikir ættu að vera mun meiri hluti af skóladegi nemenda á yngsta stigi en oft er en það þarf líka að kenna þeim að tjá sig og hlusta á aðra. School 21 í London er með svarið. Þar er munnleg færni talin jafn mikilvæg og það að lesa og skrifa. Nemendur læra að tjá sig, að grípa inn í umræður á kurteisislegan hátt og að mótmæla því sem fullyrt er. Við höfum prófað þetta á kennarafundum sem mjög góðum árangri en við höldum ekki að þetta hafi verið prófað með nemendum ennþá. Það ætti að vera næsta skref. https://www.youtube.com/watch?v=2ADAY9AQm54. Það sem mér finnst gríðarlega áhugavert í þessu myndbandi er að eitt af umræðuefninunum er að einn menningarheimur er betri en annar. Það væri kannski lítið spennandi í einsleitum skóla á Íslandi en þessi skóli er í fjölmenningalegu samfélagi og nemendur sem tilheyra alls konar menningarheimum. Markmið er þó alltaf að hafa umræðurnar þannig að allir geti haft álit á þeim. Með því að henda fram þannig umræðuefni þá er hægt að kenna nemendum að setja sig í spor annarra. Oft er það fótboltavöllurinn sem veldur núningi í skólum og hverjir megi nota hann. Kennarar segja oft að það ætti að vera eitthvað sem nemendur myndu ræða um. Málið er ekki að láta þá ræða um skiptingu á vellinum, heldur að henda fram staðreynd sem stuðar. Það væri betra að segja að þeir sem æfa fótbolta eftir skóla, mega ekki nota fótboltavöllinn á skólatíma. Það er stuðandi, óréttlátt og allir hafa skoðun á því. En ef að einn nemandi hendir fram þessari fullyrðingu (kannski einhver sem æfir fótbolta), þá eiga aðrir að vera sammála eða ósammála og þeir nota til þess svokallaðar setningaskeljar. Endilega prófið þetta, þetta er gagnlegt og hjálpar nemendur að tjá sig.

Á netinu eru margar mismunandi leiðir til að efla tengsl og geðrækt nemenda í kennslustofunni. Við hjá Ásgarði tókum saman nokkur ráð fyrir okkar skóla sem við settum upp í veggspjald, sem öllum er velkomið að nýta sér https://drive.google.com/file/d/1BurtcrnGXhGIKPbPBtdLfqoFFw4fAr7m/view?usp=sharing. Veggspjaldið er líka að finna inn á kortsen.is undir Kennsluráðgjöf - verkfæri og forrit ásamt öðru efni sem kennurum er frjálst að nýta að vild. Þar eru líka veggspjöld sem innihalda ráð sem voru unnin þegar ég var á Þjónustmiðstöð Breiðholts af mér, sem kennsluráðgjafa, af sérkennsluráðgjafa í leiksskóla, af sálfræðingi og hegðunarráðgjafa (sem er líka sálfræðingur). Annað eru ráð fyrir kennara sem eru með nemendur með mikla hreyfiþörf og hin fyrir nemendur sem eiga við einbeitingarvanda að stríða.

Ráðin eru til og því er ekki hægt að segja að kennarar viti ekki hvað þeir geta gert. Þeir verða að nýta sér það sem vitað er að virki svo að nemendum þeirra líði vel, geti eignast góða vini og kunni að tjá sig á uppbyggilegan hátt.
10 views0 comments

Recent Posts

See All

Commentaires


bottom of page