top of page
  • Writer's pictureAnna María

Áhugavert umræðuefni á ráðstefnu

Updated: Mar 14, 2019

Ég hef verið að fylgjast með ráðstefnu sem var að klárast Edinborg í dag og kallast Visual learning. Það voru reyndar engar beinar útsendingar þaðan, en ég fylgdist eins vel með og hægt er í gegnum Twitter og #Vlworld2019. Þarna voru gríðarlegir risar innan menntafræðanna að tjá sig og vekja okkur hin til umhugsunar. Eitt sem var til umfjöllunar eru væntingar til nemenda. Undanfarin ár hef ég séð það að þegar kennarar hafa litlar væntingar til nemenda, þá skilar það sér í eintómum vandræðum. Þeir sem standast auðveldlega kröfurnar eru búnir löngu á undan hinum og hafa nægan tíma til að þróa með sér skólaleiða eða jafnvel nýta tímann í að trufla aðra og meðalnemendurnir verða bara áfram meðal nemendur. Kennarar ættu alltaf að hafa miklar væntingar til nemenda þó að það verði aldrei þannig að allir standi undir þeim. En með því að leggja fyrir þá verkefni/kröfur sem eru meiri en sumir ráða við, er verið að svara þörf annarra og jafnvel efla hæfni flestra sem eru í miðjunni. Sé alltaf miðað við lægsta samnefnarann í kennslustundinni, þá verða svo margir af því tækifæri að vaxa í gegnum verkefnin.

Þegar við tölum um einstaklingsmiðað nám þýðir það einmitt að allir séu með verkefni við hæfi og í gegnum þau verkefni fái nemandinn tækifæri til að vaxa, hvar sem hann stendur. Eitt af því sem er best til þess fallið, er að vera með verkefnavinnu sem nær yfir langan tíma og inniheldur nóg af verkefnum eða nógu krefjandi verkefni til að allir hafi eitthvað að gera. Þannig verkefni gæti verið Sprellifix eins og það sem kennararnir í Langholtsskóla settu saman. Hér er góð lýsing á hvað það er: http://skolathraedir.is/2018/02/07/samthaetting-namsgreina-i-9-og-10-bekk-langholtsskola/


Annað sem mér sýnist hafa verið til umræðu á ráðstefnunni er sú staðreynd að okkur kennurum finnst við mjög örugg í okkar starfi og að það sé ekki eins mikil pressa á okkur að aðlagast kröfum 21. aldar eins og það er fyrir margar aðrar stéttir. Við þurfum bara að horfa á bókasöfnin til að sjá hvað sú þróun sem var farin að eiga sér stað þar, varðandi aukinn lestur rafrænna bóka, hafði jákvæð áhrif á söfnin. Þau fundu sér ný verkefni en starfsemin er enn byggð á sama grunni og áður, en það er að vera staður til að miðla. Nú eru mörg bókasöfn að bjóða upp á tækniaðstöðu, menningarviðburði og ýmislegt annað sem var lítið um hér áður fyrr. John Hattie varaði við því á ráðstefnunni að kennara ættu ekki að vanmeta áhrif gervigreindar á starfsöryggi sitt. Ég sá annað tvít sem sagði að ef að Siri gæti svarað spurningu sem væri spurð í skóla væri námsefnið úrelt (eða eitthvað í þeim dúr). Fyrir nokkrum árum kom fram orðatiltæki sem segir "technology won´t replace teachers, but teachers who use technology will replace teachers who do not". Þetta er því kannski ekki alveg rétt. Kannski mun tæknin leysa viss störf kennara af hendi hvort sem þeir nota tækni eða ekki en það er nokkuð ljóst að þeir sem byggja kennsluna sína eingöngu á þekkingarmarkmiðum, verða leystir frá störfum. Skólarnir munu bara ekki þurfa svona mikla áherslu á þekkingamiða kennslu og þurfa hana reyndar ekki í dag (nema fyrir samræmd próf og Pisa sem er sorgleg staðreynd). Við eigum að vera að kenna eitthvað sem gervigreindin veit ekki og getur ekki lært. Jack Ma stofnandi Alibaba og Aliexpress varar líka við þessu (hann er lærður kennari) og segir að við verðum að breyta kennslu frá ofuráherslu á þekkingarmiðað nám því að við munum aldrei geta keppt við vélarnar þegar að því kemur, með þannig áherslum. Hann segir að ef að við breytum ekki kennslunni í skólunum verðum við komin í stór vandræði innan fárra ára. Hann er ekki að segja að við eigum að hætta að kenna lestur og stærðfræði, heldur gera það af því að við viljum að nemendur okkar geti nýtt það til að efla hæfileika sem vélarnar fái aldrei eins og samhygð, gildi, sjálfstæða og gagnrýna hugsun og samvinnu. Það telur hann nemendur geti lært t.d. í gegnum listgreinar og íþróttir sem er eitthvað sem vélmennin muni aldrei verða betri en við í. Vélmenni geta kannski málað en þau geta aldrei skapað sjálfstætt, bara fylgt leiðbeiningum annarra. https://www.youtube.com/watch?v=rHt-5-RyrJk


Það er því nokkuð ljóst að við þurfum að breyta ýmsu en að því sögðu held ég að kennarar sem standa við töfluna og miðla af þekkingu sinni eða henda bók í nemendur sem innihalda texta og eyðufyllingar sem enda svo í kaflaprófi séu á undanhaldi í skólakerfinu. Það sem okkur vantar hinsvegar er meiri tími til skapandi starfs innan skólanna sem þjálfar þrautseigju, útsjónarsemi og allt annað sem verður mjög mikilvægt fyrir nemendur okkar í framtíðinni. Eitthvað sem þeir verða hafa til að geta lifað í heimi sem mun gera allt aðra kröfur en gerðar eru í dag einmitt út af gervigreindinni sem leysir svo mörg störf af hólmi. Hver er t.d tilgangurinn með að læra lögfræði eða hagfræði í dag þegar öll spálíkön segja að þetta séu fög sem hverfi innan fárra ára. Ekki geta allir orðið kennarar og ættu ekki að verða það. Þess vegna er mikilvægt að þegar við erum að tala um menntun að við séum með öll spilin á borðinu og veltum stöðugt fyrir okkur tilganginum með því sem við erum að kenna og hvað nemendur okkar græði af því sem við matreiðum ofan í þá.

Til að útskýra aðeins þetta með tilganginn þá er hér eitt dæmi sem ég þekki og hef oft rætt (það er ekki einu sinni langt síðan ég lenti í því síðast). Sumir kennarar hafa gríðarlega þörf á að halda fyrirlestra og segja að það sé mjög mikilvæg hæfni að geta hlustað með athygli, alltaf. Það er ekki nóg að segja að nemendur eigi að læra að hlusta og svo pína þá til að sitja yfir fyrirlestri um t.d. aðalatvinnuútveg norðmanna. Ég get lofað ykkur ef að þeir hefðu áhuga á efninu, væru þeir að hlusta. Þeir hlusta stöðugt á efni á Youtube og kunna það því alveg. Ef að það á að þjálfa þá í að hlusta, þá ætti það ekki að vera fyrir námsefnið í tímanum, fyrir næsta skólastig eða jafnvel það sem er fjarlægt markmið. Það þyrfti að vera af því að það er hæfileiki sem við þurfum öll í okkar daglega lífi. Ég vil nú reyndar halda því fram að við séum öll fædd með þennan hæfileika, en það eru víst ekki allir sammála mér þar. Nú fer ég á marga fyrirlestra í mínu starfi og ég get alveg viðurkennt að ef að mér finnst efnið leiðinlegt eða óáhugavert, þá hlusta ég ekki (ég eyði tímanum í að reyna að geyspa hljóðlaust). Ég hlusta ef að ég held að ég græði á því eða mér finnist það gríðarlega áhugavert. Nemendur okkar eru ekkert öðruvísi og því spurning um tilganginn með því að þvinga þá til að læra að hlusta á efni sem þeir hafa engan áhuga á og geta kannski bara spurt Siri um þegar þeir koma heim. Ég hef alveg komist í gegnum lífið án þess að hafa þann hæfileika.


Þessi ráðstefna sem ég nefndi í upphafi virðist hafa verið frábær og ég er kannski að draga ályktanir sem eru ekki upplifun þeirra sem þarna voru, en þessi tvít vöktu mig til umhugsunar um þessi efni. Ég hefði gjarna viljað vera þarna og heyra þessa miklu snillinga tjá sig um hvernig best sé að koma fram við nemendur, hvernig best sé að efla áhuga þeirra og hvernig best sé að standa að skólaþróun. Endilega kíkið á #VLworld2019 á Twitter.

44 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentarios


bottom of page