top of page

Gæði kennslu - um hæfni, lýðræði, mælikvarða og ábyrgð í menntun til framtíðar

  • Writer: Anna María
    Anna María
  • 7 days ago
  • 9 min read

Undanfarin misseri er eins og margir afturhaldsseggir samfélagsins hafi loksins fattað út á hvað gildandi aðalnámskrá gengur. Þetta virðist sérstaklega eiga við um hægri menn sem í riti og ræðu vilja taka upp mælikvarða gærdagsins. En heimurinn er ekki eins og hann var í gær. Af hverju ættum við að mæla eitthvað sem við höfum enga þörf á að mæla?

Það er aðallega þrennt sem ég ætla að tjá mig um hérna en það í fyrsta lagi ákveðinn kafli í nýrri bók sem ber nafnið Gæði kennslu - Námstækifæri fyrir alla nemendur, í öðru lagi þessar skrítnu kröfur um að færa menntakerfið af þeirri vegferð sem það er á og í þriðja lagi áhrif samfélagsmiðla á börn, en auðvitað út frá sama grunni eða áhrifa menntunar. 


Umræddur kafli er fyrsti kaflinn í bókinni. Kaflinn nefnist Nám og kennsla á tuttugustu og fyrstu öld. Höfundar eru Hermína Gunnþórsdóttir og Rúnar Sigþórsson. Það sem ég tók fyrst eftir við lestur bókarinnar er að þau vísa í nýlegar fræðigreinar, sem er alltaf hressandi. Talsmönnum menntunar er tamt að vísa í löngu liðna fræðimenn til að styðja sitt mál, eða þegar þeir eru spurðir um hvaða kennimenn eða kenningar þeir styðja við, er oft fátt um svör. 


Það sem fram kemur í bókinni er þó ekki endilega eingöngu byggt á nýjum kenningum, því að það má sjá áhrif eldri fræðmanna eins og John Dewey og Yuri Bronfenbrenner í því sem er skrifað. En á meðan Bronfenbrenner útskýrir helst áhrif ólíkra umhverfisþátta á nám og þroska og Dewey á hvernig reynsla og lýðræðislegt nám þróar siðferðiskennd eru nýrri fræðimenn eins og Gert J.J. Biesta (sem er vísað til í umræddum kafla) að reyna að greina hvað menntun á að miða að og talar t.d. gegn því að leggja áherslur á mælanlega þætti í náminu og frekar hina sem eru ómælanlegir eins og siðferðileg ábyrgð, virðing fyrir öllu lífi og sterkri sjálfsmynd. En þó að þetta séu að ákveðnu leyti ólíkar raddir eiga þau vissulega samlegð. Í kaflanum er tafla sem sýnir hið nýja norm menntunar þar sem m.a. er fjallað um menntakerfið sem hluti af samfélagu vistkerfi og að nemendur eigi virka aðild að, ásamt kennurum að ákvörðunum um eigið nám. 


Allt af því sem Biesta skrifar um og kemur fram í þessum kafla á sterka rödd í aðalnámskránni okkar sem er frábært plagg, hvað sem sumum finnst um hana. Henni þarf ekki að breyta í grundvallaratriðum heldur þarf að passa að við horfum fram á veginn við þróun hennar, en ekki að við einblínum á að hún endurómi það sem fram fer í kennslustofum landsins án gagnrýnnar hugsunar. MMS sá um ytra mati í lengri tíma og í skýrslum frá þeim kemur í ljós að það sem eru  ríkjandi kennsluhættir í íslenskum skólum eru fræðandi (75%) á meðan leiðbeinandi (7%) eða blanda beggja (19%) eigi að vera ríkjandi skv. markmiðum yfirvalda https://mms.is/sites/mms.is/files/ytramat_grunnsk_arsskyrsla_2020.pdf .


Ef einhver sem les þetta veit ekki muninn á þessu, þá er hann þessi:

Fræðandi kennslustund er sú þar sem kennarinn er miðpunkturinn, heldur fyrirlestra eða útskýringar og stjórnar umræðu. Nemendur eru að mestu leyti hlustendur eða þátttakendur í umræðu sem kennarinn stýrir.

Einkenni:

  • Nemendur vinna einstaklingslega eða svara spurningum frá kennara.

  • Kennarinn miðlar þekkingu með fyrirlestri, töflunotkun o.s.frv.

  • Mikil áhersla á fræðileg viðfangsefni og innihald.

  • Lítil áhersla á vinnubrögð nemenda eða þátttöku í mótun námsferlisins.


Leiðbeinandi kennsla felst í því að kennarinn styður nemendur í að vinna með viðfangsefni á sjálfstæðari hátt. Kennarinn er virkur leiðbeinandi, ekki fyrirlesari. Kennslan byggir á virkri þátttöku nemenda, spurningum, samræðum og verklegum aðferðum.

Einkenni:

  • Nemendur vinna saman í hópum eða sjálfstætt.

  • Kennarinn spyr, hlustar og styður frekar en miðlar.

  • Lögð er áhersla á ferlið, rannsókn, sköpun eða samvinnu.

  • Vinna byggð á áhuga nemenda og tengd daglegu lífi þeirra eða reynslu.


Við þurfum að passa að öll endurskoðun horfi til framtíðar og eins og fram kemur í greininni, horfi til hluta eins og farsældar, að nemendur geti blómstrað á eigin forsendum og að þau læri að læra. Til þess að það sé hægt þarf í raun að horfa framhjá mörgu af því sem fram kemur í endurskoðuðum greinahluta aðalnámskrárinnar. Viðmiðin sem þar eru nefnd hæfniviðmið eru að mestu annað en hæfniviðmið. Þau eru leikniviðmið og/eða þekkingarviðmið sem eru vissulega hluti hæfniviðmiða en eru það ekki beint. Þessi þróun verður til vegna kröfu um mælanleika námsins. Nemandi á ekki bara að geta sýnt hæfni í að nýta fjölbreyttar aðferðir í sundi, hann á að geta synt 60 metra bringusund viðstöðulaust. Það er leiknin sem hann á að ná, hæfnin að geta synt er því ekki mikilvægust heldur hvað og hvernig sundið verður mælanlegt. Það er þessi mælanleiki sem er vandamálið.


Nú er ég ekki að tala gegn því að nemendur fái að vita hvað sé ætlast til af þeim, en í leiðsagnarnáminu erum við með annað hugtak sem kallast viðmið um árangur sem væri mun betri vettvangur fyrir þessi leiknimarkmið ef þau tengjast líka námsmarkmiðum fagsins og kennslustundarinnar. Þessi leikni- og þekkingarviðmið eiga heima þar en ekki sem hluti af hæfniviðmiðum. Þegar nemendur hafa tileinkað sér þekkingu og sýnt leikni í að nota hana þá verður til hæfnin til að nýta hana á fjölbreyttan hátt. Ég ætla að nefna dæmi. Nemandi sem læri í heimilisfræði að nota mælieiningar eins og dl eða ml en getur svo ekki skilið hvað þessar mælieiningar þýða þegar kemur að stærðfræðitímanum hefur ekki hæfnina sem þarf. Hann skilur ekki hugtakið eða hugtökin og þó hann hafi leikni til að nýta þau í heimilsifræðitímanum og hefur þekkingu til að nýta mælieininingar þar, hefur ekki hæfni til að nýta þau í víðara samhengi. 


Alfie Kohn, sem hélt fyrirlestur fyrir íslenska kennara á Utís 2022,  heldur því fram að stöðluð próf og einkunnir skekki áherslur í námi. Þau færi athyglina frá innihaldsríkum verkefnum yfir í að „standa sig vel á prófi“. Hann segir að þetta dragi úr áhuga nemenda og leiði til yfirborðskenndrar hugsunar. Haldreipi margra kennara, nemenda og foreldra eru þessi mælanlegu markmið en ef foreldrar eru spurðir  vilja þeir samt helst að börnunum líði vel í skólanum, að þeim líði vel í eigin skinni og að þau eigi í góðum og djúpum félagstengslum við jafnaldra. Það er eingöngu vegna kröfu framhaldsskóla um ákveðið námsmat, sem veldur því að foreldrar og nemendu vilja þessa mælikvarða. 


Nú hefur núverandi menntamálaráðherra sett fram litla sprengju um að framhaldsskólar eigi ekki að fá að velja sér nemendur eftir námsmati úr grunnskóla. Hann nefndi að hæfni nemenda er ekki skilgreind eftir hæfni þeirra í bóknámi, sem er mælanlegasta námið sem hægt er að leggja fram. Við erum með svarið sem við ættum að vera að einblína á fyrir framan nefið á okkur. Við erum með hæfni- og matsviðmið í lykilhæfni sem ættu að vera kjarninn í öllu okkar námsmati. Nemandi sem er með góða námshæfni, er kannski mun betur undirbúinn undir lífið og frekara nám en nemandi sem fær B+ eða A í bóklegu námi, sem hefur ekki þá hæfni sem lykilhæfnin leggur áherslu á.


Kjarninn í hæfniviðmiðum og matsviðmiðum í lykilhæfni í ANG felst í því að styðja heildræna færni nemenda sem nýtist í námi, daglegu lífi og lýðræðislegri samfélagsþátttöku. Þau eiga að vera leiðarljós í allri kennslu og móta viðfangsefni, námsmat og námsumhverfi. Í þessari „faggrein“ erum við með svör við flestum okkar áskorunum. Lykilhæfnin gengur út að hæfni er meira en það sem hægt er að mæla. Hæfniviðmið lykilhæfni fela ekki bara í sér „leikni“ eða „rétt svör“, heldur hvernig nemendur geta hugsað, metið, tjáð sig, unnið með öðrum og tekið þátt. Hún felur í sér dýpra nám en aðeins að læra staðreyndir. Í anda menntastefna sem leggja áherslu á farsæld fyrir öll og hugmynda fræðimanna eins og Biesta, þá snúast hæfniviðmið um að móta einstakling sem getur átt samskipti, verið skapandi og lausnamiðaður, stundað sjálfstætt nám og sýnt ábyrgð og sjálfsvitund.


Allt af þessu er eitthvað sem við þurfum að efla hjá nemendum okkar. Við hjá Ásgarðsskóla gerum það og leggjum mikla áherslu á lykilhæfnina í öllu okkar starfi en líka á grunnþætti menntunar sem eru m.a. jafnrétti, lýðræði, mannréttindi og sjálfbærni. Allt þetta er eitthvað sem gerir námið heildstætt, rauntengt og viðeigandi í dag á sama tíma og lykilhæfnin, hæfni í læsi  (þ.a. ritun og tjáningu), stærðfræði, samfélagsgreinum og náttúrugreinum (þ.a. rökhugsun og gagnrýnin hugsun) er þjálfuð með hæfni í UT og list- og verkgreinum. Til að vera viss um að við værum að ná því sem við vildum ná fram, fékk Kristrún Lind Birgisdóttir eigandi Ásgarðs og skólastjóri Ásgarðsskóla, fyrrum nemenda í viðtal. Það var gott að heyra hana lýsa sinni upplifun af kennslunni, því hún var alveg í takt við það sem við vildum ná fram: 

Ástæðan fyrir því að við fengum þennan nemanda í viðtal var að hún óskaði sjálf eftir því í vetur að fá að ræða við nemendur skólans um námið sem þar fer fram til að hjálpa þeim og það var þar sem við fengum staðfestingu á því sem við erum að gera og ná fram hjá nemendum okkar.


Þá er komið að síðasta punktinum eða áhrifum samfélagsmiðla á börn. Umræðan um það er alls ekki ótengt því sem fram hefur komið eða hvaða áherslur ættu að vera í námi.

Í frétta á RÚV sem var sett fram 19.4.2025 kemur fram að glæpahópar hér á landi nái til barna allt niður í níu ára. Það hlýtur að vera okkar hlutverk sem fullorðin eru, að slá þetta vopn glæpahópanna úr höndum þeirra. Við vitum að þessir tæknirisar sem stýra samfélagsmiðlunum hafa gríðarleg áhrif á allt okkar líf og lýðræðið okkar. Við sjáum skýr merki um misnotkun þeirra víða um heim til að styrkja stöðu einræðis á kostnað lýðræðis en það er farið að höggva ansi nærri okkur, þegar börnin okkar eru orðin að verkfærum misyndismanna. Við sjáum vaxandi haturorðræðu gegn alls konar minnihlutahópum, umræðu sem á rætur að rekja til miðla eins og YouTube,  Instagram, Snapchat og Tik Tok. Öll þessi verkfæri eru orðin hluti af lífi barnanna okkar. Þau hafa ekki aldur til að nota gagnrýna hugsun við notkun á þessum miðlun en það þýðir að við þurfum að gefa þessari umræðu pláss í skólunum okkar og inni á heimilunum. Ég var að frétta að margt ungt fólk í dag eru orðnir forfallnir spilafíklar út af öllum þeim auglýsingum og gylliboðum sem á þeim dynja á YouTube og öðrum samfélagsmiðlum frá veðmálasíðum.  Þarna eru nemendur orðnir söluvara og neytendur í heimi sem þeir hafa engan grundvöll til að fóta sig í hjálparlaust. Þetta ástand er andstæðan við því sem ég skrifaði um hér fyrir ofan um farsæld, um hæfni, siðferðilega ábyrgð og að nemendur geti tekið ábyrgð á sjálfum sér í námi og lífi utan þess. Að vera undir ægisvaldi fólks sem hefur ekki það hlutverk að bera ábyrgð á uppeldinu, vinnur gegn okkur og því sem við viljum ná fram með börnunum okkar, en ekki með okkur. Skólinn gegnir stóru hutverki hérna en til þess að hann geti það, þarf að skoða það sem fram fer innan hans fyrst og fremst. Hversu mikilvægt finnst fólki í alvöru að nemendur viti að Napólean tapaði orrustunni við Waterloo 1815 eða að þau kunni að finna andlag nafnorða? Víljum við ekki að þau hafi sjálfstraust, að þau þekki stöðu eigin þekkingar, að þau fái tækifæri til að kafa djúpt í námsefnið (í stað þess að fylgja klukku sem gefur þeim 40 mínútur til að klára x margar blaðsíður) og að þeim líði vel í eigin skinni og félagslega? 


Þessu getum við náð ef við horfum á kjarnann í menntastefnum íslenskra og margar erlendra menntayfirvalda og hættum að einblína á mælikvarðana. Kunni nemendur að læra og viti markmið með því sem við viljum að þau tileinki sér, þá er menntunin á góðum stað, á hvaða skólastigi sem er. Fyrir utan eina önn í meistaranáminu mínu, þá tók ég varla próf. Við mótmæltum þeim og þau voru tekin af nema hjá einum kennara sem ég skyldi ekki, því viðkomandi talar fyrir breytingum í þessu sem öðru. Ástæðan er líklega þetta haldreipi sem ég nefndi í upphafi. En hverju bætir prófið við? Ef við gerðum verkefnin, ef við gátum bætt hugmyndafræðinni sem var verið að kenna í okkar verkefni, hefði það þá ekki átt að vera nóg? Við værum þá að sýna hæfni og yfirfæra það sem við lærðum í verkefni sem við gætum svo kannski notað í eigin starfi.  Þetta á líka við um nemendur. Ef þeir geta tekið það sem þeir eiga að vera að læra og nýtt í ólíku samhengi, þá hafa þau náð hæfninni sem að var stefnt. Það er meira en nóg og sýnir að nemandinn kann að læra. 


Ég er búin að stikla á stóru hérna og mörgu sem snertir ekki beint efni kaflans, en ég mæli eindregið með lestri þessarar bókar. Kaflinn svarar vel hvað skiptir máli og nefnir m.a. fimm þætti sem stuðla að gæði kennslu:

  1. Inntak námsins

  2. Hugrænar kröfur (e. cognitive demand)

  3. Námsaðlögun og jöfnuður

  4. Sjálfsvald (e. agency), eignarhald og sjálfsmynd

  5. Leiðsagnarnám.


Skólafólk ætti að hafa þessa þætti til hliðsjónar við skipulagningu kennslunnar.

Gott skipulag með skýrum markmiðum er lykilþáttur í að ná fram mestu gæðum náms og kennslu. Markmiðin ættu að byggja á því sem skiptir máli eins og þau sem birtast í Náms-áttavita OECD (e. Learning compass) til 2030:

  • Heildræn hæfni: Auk hefðbundinnar þekkingar er lögð áhersla á skapandi hugsun, gagnrýna hugsun, samvinnu og siðferðislega ábyrgð.​

  • Nám alla ævi: Menntun er talin vera ferill/hringur þar sem einstaklingar læra og aðlagast stöðugt nýjum aðstæðum.​

  • Nemendamiðuð nálgun: Nemendur eru hvattir til að taka virkan þátt í eigin námi, setja sér markmið og þróa sjálfstæði í námi.​

  • Samfélagsleg ábyrgð: Menntun á að stuðla að virku lýðræði, sjálfbærni og félagslegu réttlæti.


Nemendur geta vel lært um íslendingasögurnar áfram en það væri þá betra að gera það á skýrari hátt en að bara að nemendur geti lesið þær. Hvernig tengjast þær grunnþáttunum? Hvað gerir nemandinn til að sýna góða lykilhæfni? Hvernig lærir nemendinn að temja sér gagnrýna hugsun við lesturinn? Hvað segir sagan okkur um samfélagslega ábyrgð sögupersóna? Hvernig getur nemandinn unnið með efni bókarinnar í öðrum faggreinum eða nýtt sér hæfni sem hann lærði í víðara samhengi?

Ég myndi vilja sjá mun uppýstari umræðu um þessi mál hérlendis eins og hvernig við metum hæfni og hvernig við gefum nemendum meiri rödd í eigin námi og um leið aukum þátttöku þeirra í eigin námi og skerpum á lýðræðishlutverki skólanna.



 
 
 

Comments


bottom of page