top of page

Viðnám við breytingum

  • Writer: Anna María
    Anna María
  • Mar 15
  • 4 min read

Við segjum oft að það sé álíka erfitt að breyta skólakerfinu og það er að handsnúa olíuskipi. Það er alveg ljóst að ákveðið viðnám er tilstaðar við breytingum þannig að við færumst kannski smá áfram en svo leitum við í fyrra horf. Þetta er einstaklega áberandi þegar ákveðinn kennari er aðaldrifjöður breytinga í skóla og svo hættir hann. Þá vill kerfið leita í þann farveg sem hann þekkir. Skólaþróunin og markmið hennar verða ekki það sem skiptir máli lengur.


Við erum að fá ný hæfniviðmið þessi misserin. Fyrir utan að fæst þeirra eru viðmið sem mæla hæfni, þá virðist markmið þeirra ekki vera að horfa fram á veginn, heldur voru12 ára gömul viðmið tekin og þau orðuð þannig að þau skiljist betur. Það er fátt nýtt þar. Ég hef alveg sagt það áður en viðmið í lykilhæfni eru kjölfesta í námi, hitt er suð. Nemandi með góða lykilhæfni er með góða námshæfni.


Fyrir nokkrum árum fór ég ásamt fleira skólafólki á fund með Anne Bamford. Hún var þá yfir menntamálum fyrir City of London og hefur einni góða þekkingu á íslenska menntakerfinu. Hún hefur t.d. verið ráðgjafi fyrir menntayfirvöld Reykjavíkurborgar. Hún sagði margt snjallt en það er eitt sem hún deildi með okkur sem snýr að þessu viðnámi. Í mínu starfi sem ráðgjafi þar sem ég er mest að leggja áherslu á leiðsagnarnám og einstaklingsmiðaða nálgun heyri ég (alltof) oft að fullorðið fólk er hrætt við að börnin séu ekki undirbúin undir næsta skólastig. Hvernig undirbýr maður nemendur undir nám sem er alls konar? Þau eru ekki öll að fara í bóknám. Þau eru ekki öll að fara í skóla sem leggja áherslur á próf. Hvað eigum við þá að undirbúa þau fyrir? Anne sagði að þau hafi átt þetta samtal við skólastigin í Englandi. Þau spurðu grunnskólann af hverju þau væru að kenna eins og þau gerðu og svarið var að það væri verið að undirbúa nemendur fyrir næsta skólastig. Þau spurðu framhaldsskólana þess sama og fengu sama svar. Svo þegar framhaldsskólar voru spurðir hvort þeir teldu það hlutverk grunnskóla að undirbúa nemendur undir nám á því stigi, var svarið nei. Það sama sögðu háskólarnir um framhaldsskólana. Það sem allir vildu var að nemendur kynnu að læra. Þegar sú hæfni er til staðar, þá er hitt suð.


Svo má líka alveg pæla í því að það verða alltaf til kennarar sem segja nemendur ekki undirbúna fyrir sína kennslu. Þau koma óskólatæk úr leiksskóla, þau hafa ekki klárað rétta námsefnið í 5. bekk og svo koll af kolli. Unglingadeildakennarar kvarta undan að nemendur koma alltaf verr undirbúnir undir nám á því stigi. Þetta hefur alltaf verið svona og á aldrei eftir að breytast á meðan þetta viðnám er svona mikið í skólakerfinu.


Umræða um samræmd próf er af sama meiði. Við viljum viðhalda viðnáminu þar og trúum að allt hafi verið svo miklu betra í gamla dag. Ég hef reynslu af því prófi og ég sé ekki gæðin sem gætu verið á bak við það. Ég hef áður sagt frá nýbúanum sem ég kenndi sem talaði bjagaði íslensku og var með þroskaskerðingar sem skoraði hærra en flestir aðrir unglingar í skólanum sem tóku prófið. Ástæðan var að hún giskaði á rétt svör. Svo eru þeir sem hafa hæst í þessari umræðu líka fólk sem ég hef heyrt hafi stundað það að leyfa ekki nemendum að taka þessi próf. Það hækkar meðaltal skólans. Mér verður alltaf hugsað til þess þegar niðurstöður úr Pisa voru einu sinni birtar. Þar var Fellaskóli lægstur í borginni en með 97% þátttöku nemenda. Fáir aðrir skólar voru með svo háa þátttökuprósentu. Annar nýbúaskóli í borginni var aðeins hærri en bara með 50% þátttöku. Á sá skóli að berja sér á brjóst og segjast vera betri skóli? Þetta er glötuð umræða. Þessi próf eiga ekki rétt á sér, við villjum ekki að allir séu bara góðir á bókina svo að þau komist í Versló, við viljum að þau nái framförum á eigin forsendum. Þess vegna bíðum við spennt eftir þessum prófum sem MMS er að fara að gefa út.


Það var mikil umræða sem spratt hér á landi fyrir stuttu síðan um nemanda sem hafi verið í námsbók í stærðfræði sem var of létt fyrir hann og hans aldur þegar hann fór í nýjan skóla. Kennarinn hafði orð á því að hann þyrfti ekki að vinna með námsefni sem væri fyrir yngri nemendur og hann dró þessa ályktun af því að nemandinn hafði verið snöggur að ná hinum nemendunum. Hér birtist viðnámið í námsefni sem MMS hefur sagt að eigi ekki að stýra kennslu, heldur sé ítarefni. Umræðan var á skjön að mínu mati. Nemandinn kom úr skóla þar sem mikil samþætting á sér stað, það sem lykilhæfni er stór partur af kennslunni, samvinna, tjáning og rökhugsun. Þar er samkennt eftir stigum vegna fárra nemenda og þá á heitið á bókinni ekki að skipta máli. Það sem skiptir máli er að nemendur hafi hæfni til að nota það sem þau læra til að dýpka eigin þekkingu miðað við eigin stöðu. Þar sem þau eiga að geta notað það sem þau læra á fjölbreyttan hátt. Það skiptir því engu máli hvað bókin heitir, það skiptir máli hvort nemendur kunni að læra eða ekki.


Góðu fréttirnar eru þó þær að flestir kennarar vilja stuðla að skólaþróun í eigin kennslustund. Það þarf bara einhver að sjá til þess að þeir fái tækifæri til að ræða hvað er best, rýna til gagns þegar aðferðir eru prófaðar og hjálpa þeim að tryggja að breytingarnar verði örugglega til að bæta nám nemenda. Ég sé það stöðugt í mínu starfi og stundum er bara smá aðstoð, smá ráð það sem þarf og allt í einu verður ómögulegur nemendahópur að fyrirmyndarhópi.





 
 
 

Comentarios


bottom of page