top of page
  • Writer's pictureAnna María

20time verkefni og snillingaverkefni

Það er margt spennandi að gerast í Hörðuvallaskóla og ég er svo heppin að fá tækifæri til að byrja með skemmtileg verkefni sem vonandi lifa áfram í skólanum. Í síðustu viku hitti ég tvo bráðgera nemendur af þremur sem verða í "sérkennslu" á vorönninni. Þetta er tilraun og vonandi verða fleiri í þessum hóp síðar en þessir nemendur tilheyra allir 5. bekk. Ég hef sagt frá því áður að ég hef verið að hitta einn af þessum nemendum í vetur en okkur langaði að gera eitthvað fyrir svona nemendur sem þurfa meira en bekkjarkennslan bíður upp á. Það er alltaf gott að vera í samvinnu við metnaðarfulla og klára nemendur þegar kemur að nýbreytni í skólastarfinu. Þessir nemendur ætla að gera 20time verkefni sem byggir á hugmyndum frá upphafsárum Google fyrirtækisins, þar sem starfsmenn voru hvattir til að nota 20% af vinnutímanum í önnur verkefni en þau sem þeir voru ráðnir í. Það sem við ætlum að gera er að nota þann tíma sem er "dauður" hjá þessum nemendum þegar þeir eru búnir með bekkjarefnið. Einu sinni í viku hittast þeir svo allir hjá einum kennara á miðstigi þar sem þeir ræða um framgang hugmyndanna sinna. Einnig halda þeir úti sameiginlegri dagbók á Google Drive, en þær færslur geta þeir svo notað í vor þegar verkefnin þeirra eru tilbúin. Þá fer fram kynning á sal skólans. Þegar þeir svo kynna þetta, lærar aðrir nemendur nýjar aðferðir í verkefnaskilum og vonandi skilar þetta sér í auknum metnaði þeirra sem vilja taka þátt í svona verkefnum.


En þessi fyrsti fundur átti bara að vera kynning á verkefninu. Annar nemandinn sem mætti (sá þriðji var veikur), kom samt með fangið fullt af fótboltabókum. Hann sagðist hafa áhuga á fótbolta og vildi skrifa um hann. Eftir að ég var búin að kynna út á hvað svona verkefni gengur, sagðist hann vilja gera svona eins og einn nemandinn sem er á síðunni 20time.org. Sá nemandi setti upp Youtube rás sem hann vildi nota til að auka áhuga ungs fólks á lestri bóka. Þannig að ég spurði hvernig hann myndi vilja útfæra þetta. Í stað þess að skrifa bara um fótlbolta, ætlar hann að halda úti podcasti með það að markmiði að auka áhuga barna á íþróttum og þá sérstaklega fótbolta. Þar sem þetta var fyrsti fundurinn okkar, getur vel verið að hann breyti um skoðun, en mér finnst þetta brilliant hugmynd og alveg í anda 20time verkefna. Þó að maður sé bara 10 ára, þá geta hugmyndirnar verið stórkostlegar. Ég þýddi eitthvað af gögnunum sem ég fékk á Utís 2018 þar sem þetta var kynnt og þau má finna hér: https://drive.google.com/drive/u/1/folders/1-tccZepjfxmfYCtBy5139yCk0WJ0RTSq


En ég var líka að senda póst á kennara á miðstigi út af öðru verkefni. Ég fékk kynningu á því verkefni á Google Summit sem var hér í Reykjavík (2014 eða 2015). Jenny Magiera var þar að segja frá hvernig hún bjó til sérfræðingahóp nemenda sem fékk þjálfun í setja upp og kenna á ipadana þegar þeir komu í skólann sem hún var að kenna í á sínum tíma. Þessi hópur var svo öðrum nemendum og kennurum innan handar með tæknilega aðstoð. Ég hafði þó hugsað mér þetta verkefni á öðrum forsendum og aðallega út frá hugmyndum um fjölbreyttar námsleiðir. Ég myndi láta hvern nemanda fá eitt verkefni (forrit, app eða námsefni) sem hann lærir mjög vel að nota, kynnir það fyrir hinum í hópnum og svo fyrir öllum bekkjum á miðstigi. En til þess að ég fái nemendur sem eru á miðstigi til að hitta mig einu sinni í viku, ákvað ég að gera það á sömu forsendum og var hjá Jenny. Þetta yrði tími eftir að skóladegi nemenda lýkur og ég sendi umsóknarbréfið á umsjónarkennarana í þessari viku. Mér fannst ég ekki geta verið að bjóða upp á þetta þannig að ég væri að skerða kennslutíma nemendanna. Ég bíð því spennt eftir að sjá hvort að ég fái einhverja sjálfboðaliða í verkefnið. Afrit af umsókninni er að finna hér: https://docs.google.com/document/d/1OSXyXYIZ-1KrcGsj9VTl2YVy9gkrO8qwSBDXYhIQ4f8/edit

150 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page