Í námi mínu í HÍ hef ég ítrekað lent á greinum sem segja það sama. Kennarar þurfa góða endurmenntun og þeir þurfa að sækja hana sjálfir. Það er oft gerð krafa um að skólarnir sjái um endurmenntunina og þegar kennarar eru búnir að mæta á þá fundi, þá telja þeir sig vera búna að uppfylla það sem ætlast er til af þeim. Ég veit ekki með aðra en mér finnst endurmenntun innan skólanna óttaralega tilgangslausa oftast. Hún er í lok dags, inn í sömu byggingu og maður er búin að vera allan daginn, maður er þreyttur og stundum höfðar efnið engan vegin til manns. Ég vil fara annað og hitta annað fólk. Ég vil vera innan um fólk sem talar við mig og hafa tækifæri á að tala við aðra. Ég vil ekki sitja undir fyrirlestrum svona í lok vinnudags.
Það sem ég græði mest á er samvinna og samtal við aðra kennara sem eru eins þenkjandi og ég, um efni sem ég hef áhuga á og ég veit að gagnast mér í starfi. Reglulega er eitthvað skemmtilegt í gangi í Twitter. Ég elska að taka þátt í #menntaspjalli þar og sakna þess að fá ekki tækifæri til að eyða tveimur sunnudagsmorgnum í spjall um skólamál eins og hægt var hér um árið. #12dagatwitter er annað skemmtilegt átak sem er í gangi núna í annað sinn (minnir mig). Þar getum við lært af öðrum, heyrt af áhugaverðum tækjum og tólum sem nýtast okkur og deilt því sem við þekkjum með öðrum.
Ef að ég væri að kenna eða með sömu hugmyndir um nám og ég var með þegar ég hóf að starfa sem kennari, væri ég löngu hætt. Ég hef lært svo miklu betri aðferðir en þær sem ég notaði í byrjun á undanförnum árum, ég tel mig skilja betur hvernig nám fer fram og ég hef lært að ótrúlegustu atriði geta vakið áhuga nemenda. Oftast eitthvað sem ég hefði alls ekki veðjað á að myndi vekja áhuga þeirra þegar ég fór af stað með verkefnin. Það sem ég hef lært fyrst og fremst er að þegar ég var ekki að þvælast fyrir náminu, þá voru nemendur mínir áhugasamastir. Þegar ég leyfði þeim að ráða för, fékk ég ekki að hleypa þeim fyrr út í frímínútur til að komast fyrr í kaffi. Mér var oft bent á að það væru 5 eða 7 mínútur eftir að tímanum. Þetta var aldrei þannig þegar ég stjórnaði náminu eða námið fór fram í kennslubókum en ég myndi líka aldrei kvarta yfir að sleppa fyrr af fyrirlestrum sem mér þættu ekki skemmtilegir. En ég hefði ekki verið með þetta lúxusvandamál ef að ég hefði ekki sífellt verið að leita betri leiða, sífellt verið að spyrja reyndari kennara eða sífellt verið að leita á netinu eftir betri aðferðum. Kennarar vita alveg hvað vekur áhuga nemenda og hvað ekki og ef að maður er ekki viss, þá prófar maður hitt og þetta þangað til að maður hittir naglann á höfuðið. Það væri örugglega líka fínt að biðja nemendur um að meta aðferðirnir sjálf.
Það er þó eitt sem ég hef tekið eftir sem kennsluráðgjafi og það er að kennarar eru oft að drukkna í eigin vinnu. Þeir telja sig þurfa að klára ákveðnar bækur, ákveðin verkefni eða taka inn nýjar aðferðir án þess að henda nokkru öðru út. Smá saman fyllist glasið þeirra og engin tími vinnst til að skoða hvað er mikilvægt fyrir nemandann og hverju megi sleppa eða að prófa nýjar aðferðir. Öll munum við eftir tilgangslausum hlutum sem við lærðum. Ég veit t.d. örugglega mun meira um Sovétríkin en ég veit um Rússland og öll hin löndin sem voru hluti af þessu gamla veldi. Ég man ekki eftir að lært um hlutbundin og óhlutbundin nafnorð og ég skil alls ekki tilganginn í því námi. Ég geri mér alveg grein fyrir hvað er átt við en hver tilgangurinn er fyrir nemendur, er mér hulinn. Þessi vitneskja hljápar þeim amk ekki að verða betri í ritun eða lestri. Ég hef heldur aldrei heyrt neinn nota þessa skýringu á einu né neinu í töluðu máli. Ég get amk alveg skrifað (og sagt ) að bíllinn minn þurfi að fara á verkstæði án þess að koma inn þekkingu minni á þessu atriði. Kennarar þurfa að vera óhræddir við að henda út því sem er tilgangslaust fyrir nemendur og taka upp það sem mun klárlega gagnast þeim í framtíðinni.
Tæknin er líka allt of lítið notuð í skólum til að létta undir með kennurum. Það stýrist af mörgum mismunandi þáttum. Númer eitt er tímaskortur og mikil þreyta eftir kennslu. Númer tvö er að það eru ekki allir sem telja sig nógu tæknifæra og þyrftu (ofan á allt annað) að læra á hana og hvernig hún geti dregið úr álagi. Allt of oft vantar okkur að geta nýtt tæknina til að meta hæfni nemenda. Við notum alls konar öpp en höfum ekki endilega tækin eða kunnáttuna til að meta hvort að þau séu að ýta undir meiri hæfni, nema ef að við prófum þau sérstaklega. Svo er þriðja ástæðan sú að kennarar sjá ekki alltaf tilgang í að leggja á sig þessa miklu vinnu, því að þeir vita ekki hvort að hún nýtist þeim meira en í þetta eina skipti. Ég kenndi bara dönsku og gat því alltaf nýtt mér það sem ég setti í námsumsjónarkerfi aftur og aftur. Ég gat aðlagað það að námshópum með engum fyrirvara og um leið ég var komin með verkefnin þannig uppsett að nemendur gátu gert þetta svolítið bara sjálfir, hafði ég allan tíma í heiminum til að sinna öðrum málum.
Ég hef verið óvenju mikið á fundum hjá Menntamálastofnun undanfarið út af ýmsum verkefnum. Þar segir fólk að hvorki bækurnar þeirra (né samræmd próf) megi standa í vegi fyrir skólaþróun og að það sé engin þörf að nota bækurnar frá þeim ef að betri eða hentugri aðferðir séu notaðar svo lengi sem nemendur fái svipaða þekkingu í lokin. Ég heyrði af kennara sem sagði að stærðfræðibækurnar (Stika) sem eru notaðar á miðstigi væru hannaðar af sérfræðingum, sérfræðingum sem væru búnir að rannsaka hvað hver árgangur á að læra og í hvaða röð og af þeim sökum væri ekki í lagi að sleppa því að kenna bækurnar. Þetta er ekki viðhorf stofnunarinnar. Skólar á Íslandi notuðu allt annað efni áður en þetta norska efni kom út og það er ekkert sem segir að við ætlum að halda okkur við þetta efni alltaf. Annað efni gæti verið á allt öðru meiði og því er er það alltaf hlutverk kennara að meta hvað eigi að kenna, hvað nemendur ráði við, hvaða aðferðir henti nemendahópnum og hvort að þekkingu sé náð, áður en haldið er áfram. Ókosturinn við bókakennsluna er einmitt að það verður svo mikil pressa á að klára og lítill tími til að tryggja að þekkingin sé til staðar áður en haldið er áfram. Svo þróast stærðfræðikennsla eins og allt annað. Ég rakst á frábæra grein í Skólaþráðum um eina aðferð sem mér sýnist vera árangursrík og ég veit er að notuð að hluta í Finnlandi (ekki þessi tiltekna aðferð, heldur svipaðar sem eru settar upp svipað): https://skolathraedir.is/2019/11/15/hvatt-til-hugsunar-i-staerdfraedi/ og skv. nýjustu upplýsingum frá OECD verður forritunarhugsun (computational thinking) hluti af stærðfræðinni í næsta PISA prófi (2021). Ein bók (eða bókaflokkur) má því alls ekki stjórna kennslunni. Kennarar eru sérfræðingar, þeir eiga að leita eftir bestu aðferðum fyrir þeirra nemendur, þeim er fullkomlega treystandi til að undirbúa nemendur fyrir næsta skólastig án þess að láta bækurnar stýra sér of mikið. En til þess að þeir geti það, þurfa þeir að sinna eigin endurmenntun. Ég mæli með menntabúðum, Twitter fyrir endurmenntun, heimsóknum í aðra skóla og samtali um skólamál á faglegum nótum við áhugasama kennara í því fagi sem endurmenntunin á sér stað í og svo eru Skólaþræðir og Krítin uppspretta fullt af flottum hugmyndum fyrir utan allar bækurnar sem er að finna á Amazon eða í bóksölu HÍ um menntamál. Ef að einhver vill byrja að lesa, má alltaf spyrja Twitter samfélagið hvaða bækur er mælt með undir #menntaspjall eða skella inn fyrirspurn á Facebook hópinn Skólaumbótaspjallið.
Comments