top of page
  • Writer's pictureAnna María

Essential Truths

Ég var að fá tvær litlar bækur í póstinum, en ég er búin að kaupa yfir 20 bækur í ár sem snúa að skólamálum og flestar keypti ég til að undirbúa mig fyrir mastersverkefnið mitt. En bækurnar tvær heita báðar Essential Truths og er önnur Essential Truths fyrir kennara og hin fyrir skólastjóra. Það er alveg sama hvað ég les um þessi mál, það er svo margt flott í svona bókum sem mér finnst vera "common sense" en ekki endilega eitthvað sem ég hef orðið vör við í skólunum.

Það er vel þekkt að skólayfirvöld eru sífellt að demba fleiri og fleiri kröfum á skólana, eða það er það sem við heyrum og við finnum á eigin skinni á hverjum vetri (eða þannig upplifum við það, hvort sem það sé satt eða ekki). Hin og þessi áætlunin á að vera til staðar og svo eiga fjármálin náttúrulega að vera í lagi og allt annað. Ég las grein í vetur í einu faginu sem ég var í þar sem kom fram að í lítilli rannsókn sem var gerð (örugglega fyrir mjög mörgum árum, þar sem flest allt lesefnið er mjög gamalt í þessu námi) í enskum skólum á skólastjórum sem leiddu góða skóla ("successful") að enginn þeirri innleiddi allar breytingar sem voru gerðar kröfur um, heldur tóku það sem passaði við skólann þeirra eða aðlöguðu að þeirri skólamenningu sem þar var fyrir. Það þarf auðvitað góðan skólastjóra til að það gangi upp því að það er mikilvægt að skólar þróist áfram og í takt við breytta tíma. En það sem gerði þá að góðum stjórnendum var að þeir tóku ekki bara eitthvað upp hugsunarlaust heldur mátuðu það við menninguna sem fyrir var í skólanum.

En við lestur bókanna þá geri ég mér grein fyrir að við erum oft ekki að gera hlutina alveg rétt. Við innleiðum í áætlunum flotta ferla sem við förum svo ekkert endilega eftir. En þeir líta vel út á pappír. Ein ástæðan er líklega sú að sumu starfsfólki skóla (aðallega þá kennarar) finnst að það sé hægt að finna hina einu ríkisleið sem henti öllum og þegar maður er komin með uppskrift (áætlun) sem við teljum hina fullkomnu leið, þá séum við á grænni grein næstu árin. Einn vinur minn segir að þetta séu kennar (á öllum aldri) sem mæti í flókaskónum sínum og eru komnir í sína kósý innivinnu. Þessu fólki er alveg sama um flottar áætlanir og í sumum tilfellum erum við öll í þeim sporum. Okkur finnst ekki að allar breytingar eigi alltaf við okkur. En það er alveg ljóst að starfið okkar breytist á hverju ári og á að gera það. Að vera í sérfræðingastöðu þýðir að við erum alltaf með puttann á púlsinum, því að án þess verður við fljótlega ekki lengur sérfræðingar í okkar stöðu. Breytingarnar tengjast þróun samfélagsins, hvort sem það er samfélag manna, samfélagið sem við búum í, samfélag skólans eða bekkjarins. Börnin vaxa og þroskast og við fáum nýja nemendur með nýja eiginleika og hæfileika. Við getum aldrei staðnað í okkar starfi og eins og hamrað er á í þessum bókum sem ég er að lesa snýst skólastarf um nemendur en ekki áhuga eða venjur fullorðna fólksins. Að sama skapi er það ámælisvert að mínu mati (og vonandi flestra annarra) að halda því fram að við þurfum ekki að innleiða aðalnámskrá af því að hún breytist hvort sem er við næstu kosningar. Aðalnámskrá á að vera í takt við tímann og aðalnámskrá sem virkar að eilífu er ekki góð námskrá. Þegar ég var að vinna við að gera matsviðmiðin fyrir 4. og 7. bekk fyrir nokkrum árum (sem eru ekki enn komin út, ég veit) þá voru 2 ár síðan faggreinahlutinn kom út. Þá þegar voru sumar áherslur í upplýsingatæknimennt úreltar eða á góðri leið með að verða það. Þetta gerist hratt og sem betur fer er búið að ákveða að endurskoða reglulega fögin í aðalnámskránni og aðlaga þau betur að þróun samfélagsins hverju sinni. Við getum víst á von á endurskoðun á íslensku sem annað mál mjög fljótlega og matsviðmiðin fyrir 4. og 7. bekk eru líka á leiðinni.

Það sama á við áætlanir í skólum. Þær þarf að endurskoða árlega. Ef að starfsfólk og nemendur eru að fylgja áætlunum skólans, þá þarf að meta mikilvægi þeirra og næstu skref. Ef að skólinn fylgir ákveðinni uppeldisstefnu, þá þarf að skoða hvernig það gengur. Eru allir með á nótunum? Er einhver sem hefur ekki trú á henni og af hverju er það? Getur verið að viðkomandi skilji ekki hvað hann eigi að gera? Í annarri bókinni (þeirri um stjórnendur) stendur "The best instructional initiatives do not count for much if the teachers are not empowered and supported by the administration to carry them out". Við erum oft send á námskeið innan skólanna og á fundi sem eiga að hjálpa okkur að ná þessari hæfni, en of oft sjáum við ekki hvernig þetta snertir okkur beint, kennsluna okkar og svo þegar við gætum nýtt okkur þessa hæfni, þá erum við búin að gleyma því sem við lærðum og við gerum það sem við höfum alltaf gert.

Ég held því að það sé eitt af því mikilvægasta sem stjórnendur gera er að ræða einslega við kennara reglulega yfir veturinn. Ræða við þá um vandamálin þeirra (við skulum gera ráð fyrir að þau séu alltaf til staðar, hjá öllum) og athuga hvort að stefnur skólans gætu komið til hjálpar. Reyndar þurfa skólastjórar ekki að vera með allt á hreinu, en ef að það er eitthvað sem þeir þekkja ekki nógu vel, ættu þeir að vísa viðkomandi á rétta manneskju. Aðeins þannig held ég að við náum að breyta hlutum og stýra þeim í þá átt sem við viljum fara.

Ég lærði mikilvægan hlut í vetur. Þar sem ég vissi ekki hvað ég var ráðin til að gera þegar ég byrjaði í nýrri vinnu og stjórnendur voru uppteknir í öðru en að finna það út með mér, þá notaði ég fyrstu dagana í að lesa ytra matið. Ég lærði helling um skólann þar og fékk aragrúa af hugmyndum sem ég vann með í vetur. En svo eftir einn tímann í náminu mínu í vetur, fór ég að leita að umbótaáætluninni. Ég vissi ekki áður að þannig áætlun væri fylgifiskur ytra matsins þrátt fyrir að hafa starfað í skóla í 11 ár. Þar rakst ég að svo flotta áætlun að mér fannst mikilvægt að allir kennarar skólans væru meðvitaðir um hana og tækju þátt í að gera hana að veruleika. Ég kom því áfram til stjórnenda með tillögum um hvernig hægt væri að uppfylla þessa áætlun með þátttöku allra. Stjórnendur tóku vel í hugmyndina, aðlöguðu mínar tillögur að eigin hugsjón og í vetur vinnum við öll áfram í átt að því að uppfylla það sem þar stendur. Þess má geta að stjórnendum finnst stundum alveg nóg um hversu brussulega ég vil breyta hlutunum og eru þarna til að halda mér og hugmyndum mínum í takt við þá stefnu sem þau fylgja. Ég held að það hafi verið einstaklega hollt fyrir mig að vinna með þessu fagfólki í vetur.

Í bókinni sem ég er að lesa stendur um áhrifaríka stjórnendur "they understand that you almost always make better decisions when you involve others in the process". Ég er hugsi yfir þessu. Það er nefnilega hægt að segja að með því að gefa mér val um A eða B en ekki C sem myndi henta mér best, þá er spurning hversu mikil áhrif ég hef á valið. Er líka nóg að segja við mig að skólaskrifstofan vilji að við setjum upp áætlun við einhverju og að okkar niðurstaða eigi að vera þessi og við megum velja hvaða letur við notum á okkar áætlun? Svo er líka þetta með það sem kennarar tala um sem eilífar innleiðingar á hinu og þessu. Ég hef setið mjög marga þannig fundi og ég geri það sem er ætlast til af mér. En svo geri ég lítið meira við það. En þegar kennararnir eru búnir að setja upp áætlun fyrir innleiðinguna, er hægt að setja hana á vefinn og skólinn búinn að uppfylla sína skyldu. Þetta er tímasóun. Ef að ég sé ekki hvernig þetta snertir mína kennslu og á kannski ekki að snerta hana, þá þarf ég annað hvort aðstoð til að ná betri skilning eða það á að sleppa því að setja mig í þessa vinnu.

Svo er það hinn handleggurinn. Þegar við ákváðum í Hólabrekkuskóla að vera með þemanám í skólanum fyrir unglingana var það fyrsta sem við gerðum að kynna okkur hvað aðrir voru að gera og svo hitta alla kennara og stjórnendur sem myndu tengjast verkefninu. Við (ég og skólastjórinn) sögðu þeim hvað við værum að hugsa og að við vildum fá þeirra hugmyndir. Við ræddum við þá einslega. Upp úr þeirri vinnu sá ég að þó að kennararnir voru ólíkir með ólíkar kennsluaðferðir, þá voru þeir sammála um svo margt. Við unnum áfram með það og var fyrsti veturinn gríðarlega vel heppnaður. En það sama átti ekki við um næstu ár, enda voru þá nýjir kennarar sem höfðu ekki sömu sýn og þeir sem upphaflega stóðu að breytingunum. Þannig að það er gott að tala við alla, en það þarf að vera á hverju ári. Þar gerðum við mistök. Það er nefnilega mikilvægt að muna að þó að við séum með góða áætlun þá hefur samfélagið allt áhrif á hvernig til tekst og við eigum að vera dugleg að aðlaga okkur að því umhverfi sem við vinnum í á hverjum tíma.

Ég mæli með þessum bókum annars, þær eru mjög stuttar, eru skrifaðar að starfandi skólastjóra í Alabama, Danny Steele og með-rithöfundur er starfandi prófessor við menntavísindasvið háskólans í Missouri, Todd Whitaker. Það sem þær hafa gefið mér er að hjálpa mér að ígrunda hvernig hlutirnir eru, sjá vandamálin sem skólar þurfa að leysa á hverjum degi í öðru ljósi og sjá fyrir mér hvernig skólastjórnandi ég myndi vilja vera. Það er ekkert í þessu sem eru ný fræði, en það er gott að hafa þetta hjá sér sem áminningu um að gera betur.

15 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page