top of page
Writer's pictureAnna María

Gildi menntunar

Um miðja 20 öld velti heimspekingurinn Herbert Spence fyrir sér hvert væri gildi menntunar fyrir samfélagið. Það er góð spurning og spurning sem við ættum alltaf að vera að velta fyrir okkur. Hvað viljum við að nemendur okkar hafi í reynslupokanum þegar þeir koma úr menntakerfinu? Það er marg rætt að í langan tíma var markmið menntunar og skóla að fá starfsfólk til að vinna í verksmiðjum í kjölfar iðnbyltingar, allir áttu að ganga í takt og allir að læra að hlýða. Það hentaði mjög lengi, alveg frá upphafi iðnbyltingar og langt fram á síðustu öld. Það var ákveðin stéttarskipting sem fólk samþykkti og að mennta sig gat opnað dyr að betri starfi en að verða verkamaður. Þó ekkert endilega miklu betra starfi, því yfirleitt var samt verið að þjálfa fólk til að hlýða yfirmönnum. Það hefur breyst. Í dag snýst iðnmenntun t.d. ekki síður um að reka fyrirtæki sem var ekki þannig áður fyrr. Þannig að áherslur menntakerfisins breytast í takt við þarfir samfélaga en það er samt alltaf spurning hversu hratt við viljum að menntakerfi breytist og á hvaða forsendum.


Við sem samfélag þurfum alltaf að vera að velta fyrir okkur hvaða gildi við viljum hafa í hávegi í okkar menntakerfi. Mín tilfinning er sú að helsta vandamál okkar sé að við erum ekki sammála og reyndar ansi langt frá því. Það virðist ekki einu sinni vera þannig að menntayfirvöld séu sammála eigin stefnum og þau tala oft og vinna í kross við það sem þau segja. Augljósasta dæmið eru átök um aðalnámskrá. Hún byggir á hæfni nemenda en þegar útkoman úr Pisa er slök, þá allt í einu snýst umræðan um slaka þekkingu. Við fáum nýja námskrá sem byggir á einhverju allt öðru en skólakerfið þekkti áður og hún er sett í gang án alls stuðnings yfirvalda. Þegar það gengur ekki, þá er það ekki kerfinu um að kenna, heldur því hversu erfitt sé að breyta kerfinu. Ef að við ímyndum okkar að við séum að horfa á lið í ákveðnni keppni sem þekkir ekki breyttar reglur eða tilgang leiksins. Liðið gæti lært af mótliðinu en í samlíkingu við námskránna, væri líklega um tvö lið að ræða sem hvorugt þekkti reglurnar en í öðru þeirri væri einn eða kannski tveir sem hefðu smá hugmynd um hvernig leikurinn færi fram. Hinir í liðinu yrðu þannig að ákveða hvort að þessir aðilar væru í alvöru að taka réttan pól í hæðina eða hvort að þeir væru jafnvel á rangri leið. Á meðan engin skilur reglurnar eða tilganginn, þá breytist fátt. Ef að gildi okkar menntakerfis liggur í námskránnum sem við gefum út, þurfum við þá líka að sjá til þess að það og tilgangurinn skili sér þangað sem framkvæmdin fer fram. Í þessu tilviki væru það kennararnir.


Okkar nemendur hafa ekki sama hugtakaskilning skv. Pisa og aðrar svipaðar þjóðir. Það er gríðarlega mikilvægt að vita það. Við getum þá augljóslega bætt okkur hvað það varðar en við erum sjaldnast að nýta niðurstöðurnar til að laga það sem þarf að laga amk ekki þar sem það skiptir máli. Við notum það aðallega til að dæma hvert annað (aðallega kennsluna) eða til að setja einhverjar fleiri stefnur (sbr. Hvítbók Illuga) sem skilar sér ekki heldur þangað sem það skiptir máli. Ástæðan gæti verið að yfirvöld gefa okkur líka námsefnið og allt of oft gengur kennsla út á að klára blaðsíðurnar í þeim. Auðvitað er verið að vinna með rétt hugtök þar, en þegar nám nemenda gengur út á að klára blaðsíður, fylla út í eyður og/eða svara spurningum við enda kaflanna, þá er áherslan ekki á hugtökunum, heldur er hún á öðrum þáttum. Þetta sýnir Pisa okkur að við þurfum að skoða betur MEÐ kennurum. Það sama á við um læsi og lesskilning nemenda okkar.

Við erum stolt af því að okkur nemendum líður almennt vel í okkar kerfi og það sýnir Pisa líka. Þegar ég fór í heimsókn í skóla í Madrid fyrir nokkrum árum fór ég inn í tíma í 6. bekk þar sem margir nemendur voru órólegir, kennarinn náði ekki athygli nemendanna en var pollrólegur samt. Hann talaði fallega til þeirra, bað þá reglulega um að hafa lægra (af því að hann heyrði ekki í okkur gestunum), hann brosti til þeirra og það virkaði eins og að þrátt fyrir allt, þá liði öllum vel í tímanum. Líka kennaranum, enda var hann ekki stríði við nemendur vegna hegðunar þeirra. Hann sagði þeim aldrei að setjast eða þegja. Þetta var yngsti bekkur skólans og voru elstu nemendurnir 18 ára. Þar var allt annað í gangi. Þar átti mikil umræða sér stað um námsefnið, nemendur spurðu okkur gestina hellings og voru t.d. ótrúlega vel að sér um norræna menningu og betur en við sjálf. Sem dæmi var þarna nemandi sem vissi allt um íslenskar hljómsveitir sem eru eða hafa verið vinsælar. Það var annar sem vissi helling um finnska tónlistarmenningu og nemendur voru að velta fyrir sér af hverju það væri svona mikil gróska í tónlistinni í þessum tveimur löndum. Við vorum eiginlega lens og vissum ekki hverju við ættum að svara. En þetta vakti mig til umhugsunar. Þessi skóli og menningin innan hans var allt öðruvísi en ég átti að venjast. Þannig að ég spurði skólastjórann. Hann sagði mér að agi og hlýðni nemenda væri ekki það sem skólinn vildi standa fyrir. Hann sagði að ef að nemendum líði vel í skólanum, þá vilji þeir læra. Gildi skólans voru sem sagt augljós. Skólastjórinn var stoltur af því að gildið lægi í vellíðan nemendanna. Þó að við fögnum því að Pisa sýni að nemendum okkar líði vel, þá teljum við það ekki vera eins mikilvægt og annað sem Pisa sýnir að við stöndum okkur verr í.

Þá komum við að öðrum vinkli og það er hvert viljum við að gildi Pisa sé fyrir okkar menntakerfi. Viljum við að það stýri kerfinu eða viljum við nota það til að skoða hvort að það sé eitthvað í niðurstöðum þess sem við teljum vera hægt að laga í okkar kerfi á sama tíma og við höldum okkar striki við að efla hæfni nemenda okkar, vellíðan og annað sem aðalnámskrá segir til um? Í stað þess að auka faggreinatíma eða áherslur á Pisa fögin, þá gætum við hreinlega breytt áherslum. Greint hvað veldur slökum hugtakaskilningi nemenda okkar og unnið sérstaklega með það. Við vitum hvar vandamálin liggja, sem er reyndar ekki bara varðandi þennan þátt, heldur læsi og lesskilning almennt. Náttúrufræði er að koma verr út en hún þyrfti og við gætum vissulega bætt okkur í stærðfræði á prófinu. Ég skrifaði sérstakt blogg um leiðir til þess. Þessi staðreynd þýðir samt ekki að við þurfum að láta menntakerfið okkar stýrast af áherslum Pisa, við þurfum fyrst og fremst að ákveða hvaða gildi við viljum vinna eftir. Singapore hefur gengið mjög vel á Pisa, en þar er búið að ákveða að hætta að keppast við prófið því að áherslur þess henta ekki samfélaginu. Þeir vilja leggja áherslur á það sama og námskráin okkar bíður upp á eða allt aðra hæfni fyrir nemendur sína en bara að standa sig vel í Pisa.

Samtök iðnaðarins er með ákveðna hugmynd um hvaða gildi þeir vilja sjá í okkar menntakerfi og það er ágætis punktur. Þeir telja að menntakerfið eins og það er núna, henti ekki til að undirbúa nemendur undir störf í framtíðinni, að áherslurnar séu rangar. Ég viðurkenni að ég er að hluta sammála þeim. Fyrir nokkrum árum sagði kennari við mig að hann skyldi ekki áherslur námsefnisins og sagði að það væri mikilvægara í menntakerfinu að nemendur vissu að orðið bíll væri karlkyns nafnorð en að nemendur gætu skipt um olíu á bíl og svo spurði hann mig, hvort væri mikilvægari hæfni fyrir framtíðina. Það er ekki einu sinni þannig að við minnumst á þessa málfræði einu sinni heldur stöðugt, ár eftir ár. Ég spyr því eins og SI, hver er tilgangur þess sem við erum að gera í skólunum og getum við breytt áherslum þannig að við finnum sameiginleg gildi sem viljum að menntakerfið okkar standi fyrir.

Í leiksskóla undirbúum við nemendur undir að verða "skólatæk", annars kvartar grunnskólinn. Í grunnskóla undirbúum við nemendur undir framhaldsskóla eða næsta stig innan kerfisins, því að annars erum við ekki að standa okkur. Meira að segja snýst meistaranámið mitt ekki um stjórnun menntastofnanna per se þó að það heiti það, heldur að undirbúa okkur undir að gera lokaverkefni og svo fara í doktorsnám. Menntun er lykill að betri heimi bæði fyrir nemandann og fyrir samfélagið allt. En menntakerfi án gilda sem við sem samfélag getum verið sammála um, er of flókið menntakerfi.

Ég vildi óska að við myndum bara nota fyrri hlutann af aðalnámskránni og búa til þannig menntakerfi. Það er kerfi sem ég myndi svo sannarlega vilja standa við bakið á og vinna við áfram. Kerfi þar sem nemandinn sjálfur er í forgrunni og að efla hæfni hvers og eins en ekki kerfi sem byggir á að niðurstöðum Pisa eða annars sem þarf ekki að hafa áhrif á þau gildi sem við viljum setja í forgrunn í okkar menntakerfi. Ég fékk póst nýlega þar sem tilgangi náms er gerð skil eins og honum er lýst í lögum: „Grunnskóli skal í hvívetna haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna. Nemendur eiga rétt á því að njóta bernsku sinnar í öllu starfi á vegum skólans. Þess skal gætt að vinnuálag í skóla sé hæfilegt……“ Það er hvergi sagt að hlutverk eins skólastigs sé að undirbúa það fyrir það næsta. Lögin og námskráin snýst um hvern og einn nemanda og fyrir það eigum við að vera stolt. Við erum með áherslur á lykilhæfni og grunnþætti menntunar og það væru góð gildi fyrir okkur að byggja okkar gildi. Það eru ekki allar þjóðir jafn heppin og við.







44 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page