Vegna aðstæðna sem eiga sér varla hliðstæðu í sögunni er mjög mörgum börnum meinaður aðgangur af skólum af ýmsum aðstæðum. Við sem höfum verið að kenna í einhvern tíma í grunnskólum þekkjum það vel að fá nemendur tætta í skólann eftir löng frí eins og sumarfrí. Mér fannst það einstaklega áberandi haustið 2018 þegar sólarstundir voru fáar í Reykjavík og það ringdi meira eða minna í júní og júlí en það er alltaf merkjanlegt þegar sumrin eru léleg hvað varðar veður.
Þar sem það búa ekki öll börn við gott atlæti heima eða fá nauðsynlegan stuðning í daglegu lífi er alltaf einhver hópur af nemendum okkar sem getur ekki unnið sjálfstætt á svona tímum. Þess vegna eru kennarar lykilpersónur í að sinna sálgæslu barnanna núna. Börn þurfa rútínu, þau þurfa svefn, áskoranir og hreyfingu. Þegar rútínan, áskoranirnar og hreyfingin er tekin frá þeim á einu bretti, þá þurfa heimilin að taka boltann að einhverju leyti. En skólarnir geta gert ýmislegt til að minna álagið sem af því hlýst. Það gefur augaleið að ef að nemendi á að gera mjög mörg verkefni á hverjum degi og á 2 - 3 önnur systkini sem þarf að sinna líka, þá verður álagið gríðarlegt ef að verkefnin eru mörg og flókin.
Af þessum sökum ákváðu stjórnendur í Hörðuvallaskóla að biðja mig að útbúa viðmið fyrir fjarkennsluna. Viðmiðin eru hér.
Ég ákvað svo eftir að hafa skoðað gríðarlegt magn af góðum og skemmtilegum hugmyndum sem kennarar voru að deila sín á milli, að margt af þessu ætti heima hjá "heimaskólunum" líka. Ég þekki til á nokkrum heimilum þar sem börn eru með stundaskrá á hverjum degi sem þau fylgja. Þessar stundaskrár mega ekki vera leiðinlegar fyrir börnin og því mikilvægt að hafa fjölbreytt og helst skemmtileg verkefni með. Þetta snýst alls ekki um að gera 100 dæmi á viku í stærðfræðibók ef að barninu finnst það leiðinlegt , heldur læra aðferðirnar á þann hátt að það gæti verið skemmtilegt fyrir barnið að tileinka sér þær. Í stað þess að gera fullt af dæmum til að reikna út ummál og flatarmál, hvernig væri þá að mæla herbergið sitt eða hluti í kringum okkur með þeim formúlum sem á að nota?
Til þess að koma til móts við heimaskólana þá hef ég verið að setja saman fréttablöð sem gætu gefið nemendum og foreldrum einhverja hugmynd um hvað sé hægt að gera og setja inn í rútínu dagsins.
En það er ekki nóg að gefa út leiðbeiningar og viðmið, það þarf líka að byggja brúa á milli kennara og heimila og það þarf að aðstoða kennara í nýjum veruleika. Til þess að fullnægja þeim kröfum, hefur skólinn að auki gefið út vefsíðu sem kallast einfaldlega Fjarnám í Hörðuvallaskóla. Síðan var bara sett í loftið fyrir tveimur dögum og eru kennarar og stjórnendur að týna til það sem á að fara þarna inn. Þetta verður því lifandi síða þar sem smá saman verður hægt að finna allt tengt fjarnámi, tölvunotkun, samskiptum og námsefni á einum stað.
Við erum svo heppin í Hörðuvallaskóla að við erum ansi vel undir þetta búin. Í mörg ár hafa allir nemendur frá 5. bekk og upp í 10. bekk verið með spjaldtölvur, kennarar hafa fengið gríðargóða aðstoð frá spjaldtölvuteyminu og því fátt að vanbúnaði að færa skólann úr rýminu sem hann starfar yfirleitt í, yfir á netið. Þeir kennarar sem hafa svo ekki verið að nýta sér tölvurnar í kennslu eða aðstoðina sem hefur verið boðin, koma ekki að tómum kofanum hjá hinum kennurunum. Það eru mjög margir sem geta aðstoðað á svona tímum þegar tæknilæsi kennara og nemenda hefur verið þjálfað í lengi.
Fyrir utan allt þetta þá er Facebook síða skólans mjög virk þessa dagana. Námsráðgjafi setur inn daglegar núvitundaræfingar og sálfræðingur skólans er með Mola vikunnar til að hjálpa okkur öllum að halda andlegu þreki.
Comments