top of page
Writer's pictureAnna María

Meira um PISA

Updated: Sep 30, 2019

Eftir að hafa kynnt mér sérstaklega PISA rannsóknirnar (fyrir námið mitt) þá sé ég að þetta próf er afleitur mælikvarði eins og við höfum verið að nota það. Fyrir það fyrsta þá kom Hvítbók Illuga út eftir prófið 2012 þar sem 60% af prófinu var stærðfræði og 40% af því voru nokkrar spurningar um lesskilning og náttúrufræði. Í hvítbókinni segir “[n]iðurstöður úr PISA 2012 sýna að blikur eru á lofti í árangri íslenskra nemenda, eins og mynd 5 sýnir glögglega. Bæði hefur árangur í lesskilningi versnað frá fyrstu mælingu árið 2000 og eins hefur samanburður við meðaltal annarra landa orðið óhagstæðari”. Þarna er verið að bera saman próf (frá árinu 2000) þar sem lesskilningur var 60% hluti af prófinu og annað þar sem það var um 20%. Ef að við aftur á móti skoðum útkomuna 2009, þar sem lesskilningur var 60% af prófinu, þá er hægt að sjá að lesskilningi barnanna fer ekkert aftur. Næsta próf sem verður 2020 verður einmitt lesskilningspróf og þá ættum við að koma vel út en þá er spurning hver ætli að berja sér á brjóst fyrir góðan árangur. Það sem er þó ágætis mælikvarði á íslenskt menntakerfi í þessari rannsókn er að við komum alltaf illa út úr náttúrufræðinni. Við ættum því að leggja meiri áherslu á gæða náttúrufræðikennslu en að missa okkur yfir lesskilningi sem virðist ekkert vera neitt svakalegt vandamál þegar upp er staðið. En þar sem góð náttúrufræðikennsla gæti verið mjög dýr fyrir kerfið, er kannski erfitt að ákveða að það ætti að eyða orkunni í það fag og því betra og ódýrara að einblína á læsi landans. Þetta próf býður nefnilega upp á að það sé misnotað í pólítískum tilgangi.

Það er svo ótrúlega margt við þetta próf og allar yfirlýsingar varðandi það í fjölmiðlum og af öðrum, sem stenst ekki nánari skoðun. Það er fínt til að meta menntakerfið, t.d. vitum við að náttúrufræðikennslan okkar er ekki nógu góð, en það eru svo margar aðrar breytur við það sem er ekki hægt að yfirfæra á einstök menntakerfi eða hvað þá árangur einstakra skóla. Að fá að vita að einn skóli kom betur út úr því en annar er svipað og að meta á sama hátt alla einstaklinga sem eru þvingaðir í maraþon en sumir fá að nota hlaupahjól og aðrir þurfa að hlaupa í sjógalla. Það er því óeðlilegt að nýta niðurstöðurnar til að bera saman skóla og þar að auki er búið að gefa út að það eru ekki allir með sömu spurningarnar. Hver nemandi fær bara hluta af miklu stærra prófi og við vitum ekkert nánar um hvort að dreifingin á spurningunum sé algjörlega sanngjörn á milli skóla eða ekki. Í Morgunblaðinu 2017 var yfirlýsing frá Menntamálastofnun þar sem hún varar við að nota prófið til að meta einstaka skóla. Þar segir: „Stofn­un­in legg­ur áherslu á að PISA-rann­sókn­in er ekki ein­stak­lings- eða skóla­próf, held­ur er henni ætlað að meta mennta­kerfi Íslands sem heild í sam­an­burði við önn­ur lönd. Enn frem­ur að kanna stöðu ólíkra hópa inn­an­lands í sam­an­b­urði við önn­ur lönd sem og í sam­hengi við nú­ver­andi stöðu jafnt sem þróun fyrri ára. Upp­bygg­ing prófs­ins er með þeim hætti að hver nem­andi svar­ar aðeins litl­um hluta þeirra spurn­inga sem liggja að baki til dæm­is heild­armati á læsi og lesskiln­ingi og því eru áætluð meðal­töl fá­mennra hópa, eins og stakra skóla, afar óná­kvæm og vart mark­tæk.“ Það er því algjörlega ótrúlegt að menntafólk kasti þessu prófi fram til að berja sér á brjóst fyrir góðan árangur eða aðrir að vísa í að skólar sem komi vel út úr prófinu, séu til fyrirmyndar fyrir alla. Það er allt rangt við þannig yfirlýsingar og ég held að allir sem sem hafa notað prófin í þannig tilgangi, viti það. Það er bara spurning hvað liggi þar að baki. Ég var bara lesa mér betur til um þessar rannsókn því þetta er allt vel skráð og enginn nýr sannleikur í neinu af því sem hér kemur fram. En þetta vekur mann vissulega til umhugsunar um ýmislegt í umræðunni um þessa rannsókn og hvernig niðurstöður hennar eru túlkaðar til að uppfylla einhvern pólítískan áróður um íslenskt menntakerfi. Ég veit amk meira þegar niðurstöður úr næsta prófi koma 2021 og bíð reyndar spennt eftir að heyra þáverandi ráðherra hrósa sér og sínum fyrir betri útkomu. Reyndar má hann það alveg ef að við verðum miklu betri en 2000 og 2009 en ef að við komum út á svipuðum stað, þá held ég að það sé best að sleppa því. Útkoman gæti þó alveg orðið tilefni til að rakka niður stærðfræðikennsluna þar sem stærðfræði verður um 20% af prófspurningunum og jafnvel skrifa hvítbók um hana.

291 views0 comments

Comments


bottom of page