top of page
  • Writer's pictureAnna María

Skólaþróun sem tengist lýðræði í kennslustofunni

Updated: Jan 5, 2019

Alveg frá því ég byrjaði að kenna hef ég verið í því að breyta kennslunni minni og starfinu mínu í átt að meira nemendalýðræði, þ.e. ég vil að nemendur hafi meira að segja um það sem fram fer í þeirra eigin námi. Það sem ég hef gert er aðallega að leyfa þeim að koma með eigin útfærslur á þeim hæfniviðmiðum (áður bara rúbrikkur) sem ég ákveð hverju sinni að setja í forgrunn á verkefnum. Ég sagði þeim t.d. að útbúa verkefni um framtíðina, lét þá vita hvernig ég myndi meta verkefnin og svo fengu nemendur frjálsar hendur með útfærsluna. Stundum hef ég fengið mjög slök verkefni, oft í formi veggspjalds eða glærukynningar en ég hef líka fengið frábær verkefni þar sem þessar aðferðir eru notaðar. Ég hef fengið svo ótrúlega mörg verkefni sem voru svo miklu meira en ég gat nokkurn tíman reiknað með eða farið fram á, á svo fjölbreyttu skilaformi að mér hefði aldrei geta dottið sumt af þessu í hug sjálfri. Það kemur mér stöðugt á óvart hversu flottir nemendur eru þegar þeim er gefinn laus taumurinn. En til að vel takist þarf margt að ganga upp. Það er ýmislegt sem aðrir eru að gera sem er spennandi að skoða í þessu samhengi:

1. Ótrúlega flott verkefni er sjaldan eitthvað sem að nemendur finna upp á úr einhverju tómarúmi. Það þarf oftast að leiðbeina þeim. Að gefa nemendum stjórnina, þýðir líka að það þarf að undirbúa jarðveginn, t.d. með góðum kveikjum. Ég heyri oft að þessi eða hinn nemendahópurinn sé ekki nógu skapandi, metnaðarfullur, sjálfstæður..... til að koma upp með einhverja góða og frambærilega hugmynd af verkefni. Það er bara ekki rétt. Ef að hópur af nemendum er í vandræðum með hugmyndir, þýðir það að þeir hafa ekki séð verkefni sem að þeim gæti fundist spennandi að gera eða þeir fatta ekki að það er verið að biðja þá um eigin skoðun, en ekki skoðun sem þeir halda að kennurunum líki eða sé líkt því sem þeir kannist við úr kennslunni. Eða hreinlega að þeir hafa engan áhuga á því efni sem er verið að vinna með. Það er þó erfitt að segja að verkefni sé leiðinlegt sem nemendur ákveða sjálfir að gera og það er gott að hafa í huga í þannig tilfellum. Að gefa nemendum sem eiga erfitt í náminu val um skilaverkefni á meðan aðrir fylgja kennaraplani, er ekki endilega rétta leiðin. Það á að gefa þeim bestu og klárustu fyrst svoleiðis verkefni og þá fatta hinir (sem hafa fengið þau skilaboð í gegnum einkunnir að þeir séu hálfgerðir lúserar í skólanum) að þeir geta vel gert svona verkefni líka. Kannski fá þeir meira að segja hugmynd sem bætir þá sem fyrst kom þegar þeir gera hana að sinni eigin. Stundum er þetta besta leiðin til að vekja áhuga og metnað nemenda. Best er náttúrulega að raða vel í hópa þannig að þeir sem þurfi hjálp, fái hana frá þeim sem geta veitt hana. Þegar ég raða í hópa segi ég yfirleitt að allir hafi einhverja styrkleika og ég raði saman þeim sem hafi ólíka styrkleika til að þeir geti lært hverjir af öðrum.

2. Leyfið nemendum að búa til kennsluáætlunina fyrir önnina. Ég er að lesa frábæra bók sem ég heyrði af í Menntavarpinu hans Ingva Hrannars og heitir Dive into Inquire eftir Trevor MacKenzie. Hann talar einmitt um að leyfa nemendum að eiga hlutdeild í kennsluáætlunum vetrarins.Hann reyndar ákveður hvaða bækur eigi að nota, en nemendur ákveða hvað þeir vilja leggja áherslu á og hvernig þeir vilja vinna með efnið. Mér finnst það frábær hugmynd og þegar við vorum að taka þátt í verkkepni Viðskiptaráðs fyrr í vetur, þá var það einmitt hugmynd sem við unnum eftir. Við vildum að nemendur og foreldrar þeirra hefðu eitthvað að segja um kennsluáætlanir skólans. Ég get ekki skilið af hverju það ætti að vera einkamál kennaranna hvernig hæfniviðmiðum sé mætt. Ég mæli með þessari bók.

3. Í staðinn fyrir eilíf próf ætti að leggja þau niður (að mestu) og taka upp aðrar mælingar. Hvað með að byrja á því sem er erfiðast en það er að nemendur svari því hvernig kennarinn stóð sig á ákveðnu tímabili eða í ákveðnu verkefni? Ég þekki kennara í Finnlandi sem gerir það eftir hvern kafla sem hún vinnur með (https://ritakeskitalo.com/). Hún vill fá að vita hvernig hún getur bætt sig (hún kennir 12-14 ára börnum). Hún er líka með nemendur í matshópum sem mér finnst algjörlega brilliant. Þegar þeir kynna verkefnin sín, þá gera þeir það fyrir ákveðnum hópi nemenda sem svo ákveða í sameiningu hvaða einkunn viðkomandi aðili fái. Þeir þurfa að rökstyðja ákvörðun sína fyrir nemandanum og kennaranum. Fái nemandinn ekki þá einkunn sem hann er sáttur við, getur hann lagað það sem hann fær athugasemdir við og fengið að skila verkefninu inn aftur til kennarans. Hún er með allskonar mat yfir veturinn og er alveg með próf og mig minnir að ef að það eru próf, þá eru það oftast eins og samvinnupróf, próf með gögnum eða próf sem nemendur fá aftur í hendur til að laga eftir að hafa fengið að vita hvað var rétt og hvað var rangt. Ég sá líka á einverjum samfélagsmiðlunum hugmynd frá kennara sem gefur nemendum alltaf 3 mínútur í lok hvers prófs til að spyrja aðra í bekknum um spurningar sem þeir náðu ekki. Ég er hrifin af öllu sem er ekki bara gamaldags próf sem kannar hvað við munum úr efni sem kennarinn ákvað að væri mikilvægir punktar úr lesefninu sem hann ákvað sjálfur í upphafi að væri viðeigandi fyrir fagið.

4. Það þarf ALLT varðandi námið, tilgang þess og námsmatið að vera skýrt frá upphafi. Fái nemendur að ákveða þetta með kennaranum, þá er strax kominn skilningur á tilgangi, námsefninu og námsmatinu.

5. Ekki ákveða að það þurfi að fara yfir ákveðið efni (í kennslubók) á ákveðnum tíma. Þá er allt of mikil hætta á að við missum af tækifærum til að kenna það sem nemendur vilja læra betur því að við erum alltaf í kapp við tímann. Skoðum frekar innihald bókanna, látum nemendur ákveða hvaða kafla (efni) þeir vilji leggja höfuð áherslu á yfir veturinn og siglum hratt yfir það sem skiptir minna máli (eða sleppum því alveg). Það er svo mikið talað um að starf kennarans sé svo mikill keyrsla. Það þurfi að ná að fara yfir x mikið efni á x litlum tíma. Hver ákvað það? Kennarinn ræður ansi miklu um starf sitt og þetta er ekki maraþonvinna. Ef að það er klárt hvaða hæfniviðmið eigi að vinna með yfir veturinn (ekki kafla í bók), er hægt að leika sér heilmikið með þann tíma sem okkur er gefinn. Sem dæmi, þá stóð í fyrri námskrá að nemendur í 8. bekk ættu að geta sagt til vegar á dönsku. Það var líka örugglega kafli um það í einhverri bókinni (ég notaði þær svo sjaldan að ég man það ekki), en í staðinn fyrir að vera með fullt af eyðublöðum um efnið, ákvað ég að nemendur færu í fela-hlut í skólanum. Þeir áttu að útbúa leiðbeiningar (lige-ud, venstre, gå 5 skridt...) fyrir aðra nemendur sem áttu svo að finna hlutinn sem þeir földu. Svo fylgdu þeir næstu leiðbeiningum og svo koll af kolli. Þetta var skemmtilegt og þeir lærðu af því að fylgja fyrirmælum annarra og búa til sínar eigin. Þannig taldi ég mig uppfylla þessa skilgreindu hæfni. Það þarf oft ekki meira en eitthvað svona til að gera kennsluna skemmtilegri á sama tíma og nemendur eru að læra. Svona voru mörg verkefni hjá mér og því er það kannski ekki skrýtið þegar nemandinn sagði við mig í upphafi 10. bekkjar að það kæmi honum á óvart að hann gæti lesið bók á dönsku þar sem hann hefði ekkert verið að læra hjá mér, bara leika sér. En ef að einhverjum dettur í hug að ég hafi ekki verið að undirbúa nemendur undir næsta skref (framhaldsskóla), þá voru mínir nemendur (eða amk þeir sem nenntu að læra) alltaf háir í dönsku þegar þeir komu á næsta skólastig og töldu sig vera vel undirbúna undir framhaldsskólanámið.

6. Þennan punkt hefði ég kannski átt að setja ofar, en hann snýst um samskipti við nemendur. Ég hef svo sem skrifað um það áður, en það hefur alltaf valdið mér undrun þegar ég heyrði af því að nemendur sem voru duglegir hjá mér, en til vandræða hjá öðrum. Góð samskipti við nemendur eru lykilatriði til að fá nemendur til að læra eða nenna að hlusta á mann. Ég hef alveg lent í vandræðum, sérstaklega hvað varðar samskipti við foreldra sem ákváðu að sú kennsla sem ég var með, væri ekki fyrir þeirra börn. Ég hef bakkað með verkefnin og leyft þeim að ráða og hef því tekið upp eyðufyllingarbækur fyrir þá nemendur sem hafa óskað þess. Það er þó alltaf tímabundin ánægja tengd því, þar sem ég hef látið aðra nemendur halda áfram með skapandi verkefni. Þau eru alltaf skemmtilegri, en ég ákvað að fara ekki í stríð við þessa foreldra og börnin þeirra þegar það var orðið morgunljóst að ekki væri hægt að tala um fyrir þeim. Kennarar þurfa að vera sveigjanlegir. Við eigum líka alltaf að tala við nemendur eins og jafningja. Að eyða smá tíma í einkaspjall við hvern nemanda er gulls í gildi. Það getur breytt öllu starfinu til batnaðar. Sýnum hverjum og einum nemanda að við höfum trú á honum, að við viljum hjálpa honum að ná markmiðum hans og að okkur sé ekki sama um hann. Ég er ekki að tala um að gera þetta eftir tíma, heldur er mín reynsla sú að þegar nemendur eru uppteknir af skemmtilegum verkefnum, er í góðu lagi að setjast aðeins á ganginn fyrir framan stofuna og ræða einslega við einn nemanda í einu. Fara yfir markmiðin, ræða um líðan nemandans, hvað honum þyki skemmtilegt að gera, hvar hann telji sig standa sig vel í náminu og hvar hann þurfi meiri aðstoð. Þetta er mjög gagnleg notkun á kennslustund og ég mæli með því að fjárfesta tíma í það svona amk einu sinni á ári fyrir hvern nemanda. Þetta gerir samskiptin við nemendur svo miklu betri og jákvæðari. Ég hef líka séð nemendur sem sýndu lítinn sem engan metnað hjá mér, taka sig gríðarlega á eftir svona spjall, þar sem þeir fundu að mér var ekki sama um þá og ég hefði trú á að þeir gætu þetta. Meira þurfti ekki til.


348 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page