top of page
  • Writer's pictureAnna María

Nauðgunarmenning og hlutverk skóla

Updated: May 17, 2021

Undanfarna daga hef ég verið að lesa hverja söguna á fætur annarri af samskiptum kvenna (og karla) við karla sem telja það sinn rétt að beita þær (eða þá) ofbeldi, fýlustjórnun eða á annan hátt fá það sem þeir vilja með hvaða ráðum sem er. Ég er ekkert unglamb sjálf og þekki þetta vel, en það er ekki tilgangur þessarar færslu. Ég er að velta fyrir mér hlutverki skóla. Þessa umræðu ætti ekki að þurfa og í fullkomnum heimi væri þetta hlutverk foreldra, en við lifum ekki í fullkomnum heimi. Ég minni á að ég er ekki ung lengur og það eru jafnaldrar mínir sem eiga þessa ungu menn sem eru að beita ungar stúlkur ofbeldi, eitthvað sem þeir gerðu sjálfir þegar við vorum ung (og gera kannski enn) og við mæður þeirra höfum aldrei haft hátt um þetta, eða að minnst kosti ekki nógu hátt. Kalkyns vinir foreldra minna sem fannst í góðu lagi að bjóða mér í dans þegar ég var unglingur og káfa svo á rassi og brjóstum mínum eru dauðir (úr elli), þannig að þetta er ekkert að fara að breytast fyrr en við ákveðum að breyta þessu.

Einhver ákvað einhvern tímann að hlutverk skóla væri að kenna nemendum hluti sem engin veit af hverju við erum að læra (eða kenna). Ég er ekki tölvuleikjahönnuður eða verkfræðingur og ég hef ALDREI þurft að nota sínus, kósínus eða bara algebru (nema kannski í sinni í einföldustu mynd). Ég lærði um Sovétríkin, tempruð svæði og einverja sjúka útgáfu af sögu Ottómanveldisins (þeir voru sem sagt allir villimenn í mínum bókum). Já, og ég mætti í skólann með blekpenna, blekbyttu og þerripappír, því að ekki mátti sú hæfni deyja út!!!! Ekkert af þessu er gagnlegt í mínu lífi. Af hverju í ósköpunum var t.d. ekki talað um samskipti kynjanna? Hefði það ekki verið gagnlegra? Drengir á grunnskólaaldri segja að það ætti að hópnauðga stúlkum ef að þær eru leiðinlegar. Umræðan er gríðarlega eitruð og er eitthvað sem við getum ekki horft á áfram og ekki gert neitt í. Bæði við í skólasamfélaginu og svo samfélagið í heild.

Í samtölum við nemendur um þessi mál kemur í ljós að unglingstúlkum finnist þær enn þurfa að sofa hjá ef að þær eiga kærasta (til að þóknast þeim) og hvorki stúlkum né drengjum finnst ofbeldisfullt kynlíf vera ofbeldi ef að það gerist í sambandi. Það er sem sagt búið að kenna þeim að nauðgun geti ekki átt sér stað nema með ókunnugum aðilum. Kolbrún Hrund verkefnastjóri Jafnréttisskólans hefur oft rætt um þessi mál á snilldarhátt og hér er eitt frábært erindi frá henni. Sögurnar á Twitter þessa dagana sýna líka afleiðingarnar af þessu. Þær sýna okkur að þessar ungu stúlkur sem láta drengi stjórna sér, beita þær ofbeldi eða þrýstingi til að fá að hafa mök við þær, þær gleyma þessu ekki. Þær fatta á einhverjum tímapunkti að þetta var ofbeldi sem þær urðu fyrir og það eitrar líf þeirra. Hér er einmitt frétt um þetta

Það sem er alls ekki skárra er að karlmenn, frá ungum drengjum og upp í rígfullorðna menn eru víst farnir að neita að nota smokka. Það hentar þeim ekki og þeim finnst það réttur sinn að brjóta þannig á stúlkum og konum. Skítt með það þó að stelpan þurfi að taka pillu daginn eftir eða fær kynsjúkdóm. Virðingarleysi gagnvart stúlkum er ekkert minna í dag en áður og ef eitthvað er þá er það meira. Eins og Kolbrún Hrund hefur bent á þá tengist það líka klámáhorfi.

Menn á mínum aldri, yngri og eldri segja að við séum að ganga of langt með þessa umræðu. Þetta sé þreytt og það megi ekki gera neitt lengur. Að karlmenn þori ekki lengur að tala við konur. En það er engin að biðja um það, heldur bara að þeir séu ekki fávitar. Það er ekki í lagi að grípa í rass, brjóst eða píku á konum, það er ekki í lagi að segja við konu sem þeir þekkja ekki að þá langi að ríða þeim. Það er ekki í lagi fyrir yfirmenn að loka starfsmenn sína inni á skrifstofu hjá sér til að þukla á þeim (hvort sem það eru konur eða karlar). Maður segir ekki við konu að hún sé með appelsínur, melónur eru blöðrur framan á sér. Þetta eru brjóst og það þarf ekkert að ræða um þau og alls ekki þreifa á þeim, nema að það sé samþykki fyrir því. Svo er líka gott ráð að horfa í andlit konu þegar það er verið að ræða við hana í staðinn þess að horfa á brjóstin á henni. Það er ógeðslegt þegar gamlir karlar segja við ungar stúlkur að þær séu sexý, þær vilja ekki heyra það. Það sem Klausturbars-Miðflokksmennirnir töluðu um er viðbjóður gagnvart konum. Það er ekki í lagi að segja um einhvern sem vinnur með manni að viðkomandi sé ríðilegur, að það sé kroppur sem typpi passi í eða á nokkurn hátt tala með óvirðingu um annað fólk. Hvorki á þennan hátt né annan. Bara ekki vera fífl. Kynþörf einstaklinga er þeirra einkamál nema þeir fái samþykki til að gera eitthvað í málinu og hvernig það geti gerst. Þetta þurfa ungir menn að fá að vita. Bæði þeir og ungar stúlkar þurfa að læra um mörkin sem ekki má stíga yfir.

Annað sem karlar segja oft (við mig) er að konur séu ekkert skárri. Þetta er líka eitthvað sem ung börn segja þegar þau eru skömmuð fyrir eitthvað. Einhver annar gerði eitthvað verra. Konur eru ekki saklausar en þær eru í miklum minnihluta þeirra sem beita kynferðislegu ofbeldi. Ég hef þó sjálf orðið að hjálpa karli frá konu sem lét hann ekki í friði. Hún þuklaði á lærunum hans, límdi sig við hann í dansi og greip ítrekað í klofið á honum (og reyndar fleiri körlum á svæðinu). Þetta er líka merki um óheilbrigð samskipti milli kynjanna og er ofbeldi.


Ég legg til að við leggjum áherslur á eitthvað í námi nemenda sem gagnast þeim klárlega í lífinu, hjálpar þeim í að vera góð í öllum samskiptum og það gerum við ef að við kennum nemendum okkar að vinna saman og að taka tillit til hvors annars. Alveg sama af hvaða kyni, útliti eða öðru. Við þurfum að kenna þetta. Þetta sem er til umræðu núna er stórmál og eitthvað sem við getum ekki bara talað um í kynfræðsluvikum einu sinni á ári. Við erum að leyfa bíómyndum og klámmyndum að sjá um kennslu barnanna hinar 51 vikuna á árinu. Þetta snýst um gagnkvæma virðingu, að þekkja mörkin og að ræða þessi mál. Aðeins þannig náum við að breyta þessari eitruðu menningu sem tröllríður öllu í samskiptum fólks.


Við þurfum þessa umræðu því að við erum með ömurlegar fyrirmyndir fyrir ungt fólk. Við erum með grínista, leikara og alþingismenn sem hafa sannarlega beitt konur ofbeldi án afleiðinga fyrir þá. Einhverja hluta vegna þá fyrirgefst körlum fyrir ömurlega framkomu ef að þeir eru í glasi en konurnar sem verða fyrir ofbeldinu og eru í glasi, geta sjálfum sér um kennt.

Börn þarf að vernda og það er okkar hlutverk í skólunum að kenna þeim að þurfi í kynlífi en það þarf líka fyrir aðferðum sem eru notaðar. Það þarf líka að kenna þeim að Nei er alltaf nei og að eitt nei er nóg. Það þarf líka að kenna þeim að það er í góðu lagi að kyssast án þess að það verði sjálfkrafa krafa um eitthvað annað og meira. Ungar stúlkur eru ekki klámmyndaleikkonur og eiga ekki að þurfa líkja eftir þeim. Það þarf líka að ræða þetta með smokkana, þeir eru ekki eitthvað sem karlmenn eiga að hafa val um að nota eða ekki.

Ég heyrði athyglisverða umræðu á kaffistofu fyrir nokkrum árum. Þar voru tveir ungir menn að tala um kynlíf og hvernig í ósköpunum það gæti þótt eðlilega krafa að konur gleypi sæði eða að það sé réttmæt krafa karla að fá að stunda endaþarmsmök. Ég fyllist von þegar ég heyri svona. Þetta er umræða sem sýnir að menn geta vel sýnt konum virðingu í samtali sín á milli (ég heyrði þetta fyrir tilviljun) og ég fyllist líka von þegar ég sé unga menn skrifa á Twitter að þeir vilji vera hluti af lausninni en viti jafnframt að þeir hafi verið hluti af vandamálinu, sérstaklega þegar þeir voru ungir. Það eitt er ágætis ástæða fyrir því að þetta sé til umræðu reglulega í grunnskólum. Þeir sleppa þá kannski við samviskubit síðar á ævinni eða að hafa orskað eitthvað sem eitrar þeirra eigið líf.

Ung börn verða líka fyrir áhrifum af þessu og saklaus "læknisleikur" leikkskólabarna eða nemenda á yngsta stigi, getur líka haft skaðleg áhrif alla ævi. Við sjáum margar sögur um slíkt inni á Twitter. Börn leika eftir fullorðnu fólki og það er alls ekki óþekkt að mjög ungir drengir og ungar stúlkur fari í "þykjustu-samfaraleik" þar sem þeir skoða kynfæri hvers annars og reyna jafnvel að setja typpið inn í píku stúlknanna. Þetta er eitthvað sem að margir gleyma en þetta er líka eitthvað sem aðrir upplifa sem ofbeldi síðar á ævinni, sem það er í hugum einhverra. En það er það af því að þau vissu ekki betur og það var engin sem sagði þeim að þetta væri ekki rétt hegðun. Af því að þetta hefur afleiðingar, er þetta ekki eitthvað sem við eigum að sópa undir teppið af því að þetta séu nú bara börn og börn gera heimskulega hluti. Þetta er hegðun sem er ekki við hæfi og því þarf að takast á við hana áður en hún kemur upp svo að hún liggi ekki á sálinni um ókomin ár.


Samskipti við aðra ættu alltaf að vera á dagskrá í námi og kennslu og við getum gert það mjög vel í skólum ef að við erum meðvituð um að við höfum það sem markmið í allri vinnu að efla samskipti og virðingu nemenda þeirra á milli. Við þurfum líka að ræða um kynlíf við börn frá mjög ungum aldri, því að þetta er ekki feimnismál, þetta er eðilegur hluti af lífi flestra lífvera (að minnsta kosti ansi margra). Það hefur skaðlegri áhrif á einstaklinga að ræða þetta ekki, en það hefur að ræða þetta við þau. Það þarf ekki að vernda börn fyrir þessu en það þarf að kenna þeim hvað sé eðilegt og hvað ekki. Við skólafólkið þurfum að vera hluti af lausninni og við getum orðið jákvæðir áhrifavaldar ungs fólks um alla framtíð ef að við ætlum okkur það.




398 views0 comments
bottom of page