top of page
  • Writer's pictureAnna María

Nemendaviðtöl

Ég ákvað að taka frá tíma í vinnunni næstu vikurnar til að hitta nokkra nemendur í 8. og 9. bekk og ræða við þá einslega. Oft hef ég rætt við nemendur í vetur sem hafa komið inn á mitt borð vegna vanlíðunar eða hegðunarvandræða, en þessi viðtöl eru ekki vegna þeirra. Þau eru heldur ekki vegna þess að ég þurfi að tala við þá um mætingar eða neitt álíka. Samtölin eru bara okkar á milli um líðan í skólanum, félagsleg tengsl, námið þeirra (þ.a.m. hæfnikortin þeirra) notkun á snjalltækjum, lesstundir og annað álíka. Ég hef svolítið notast við hugmyndir um hugarfar vaxtar þegar ég ræði við nemendurna og það virðist opna augu þeirra eitthvað. Ég er bara ný byrjuð á þessu og ég valdi af handahófi úr hverjum bekk, en þetta er strax farið að skila mér og þessum nemendum einhverju. Þetta er afslappað spjall og við ræðum heilmikið saman. Ég ætlaði að reyna að ná 14 nemendum á viku upphafleg, en ég sá það fljótlega að þá myndi ég gera fátt annað. Hvert samtal tekur nefnilega 40-60 mínútur.

Í skólanum ættu nemendaviðtöl að vera á dagskrá og sumir kennarar eru duglegir að gefa sér tíma í þau, en það er bara ekki alltaf tími eða tækifæri fyrir kennara að fara í svona ítarleg einstaklingsviðtöl. Þar sem mín dagskrá er opin og ég get raðað svolítið sjálf inn í hana, þá hef ég þetta tækifæri á mínum vinnutíma. Ég hef heyrt að nemendum finnist þetta spjall gott, skemmtilegt og jafnvel að það sé upphefð að hafa lent í úrtakinu. En þó að þetta sé núna tilraunarverkefni til að efla þá nemendur sem voru "dregnir út", þá finn ég að svona nemendaviðtöl þyrftu að vera hluti af öllu skólastarfi en ég skil alveg að það geti verið erfitt að finna tímann þar sem hann er varla í boði í amstri dagsins. Þetta skilar þó ýmsu og ég læri svo ofboðslega mikið um hvernig nemendur sjá skólann, um kennsluna, hvað er skemmtilegt og hvað er erfitt og ég get gefið nemendum ráð um ýmislegt sem þeir eru að kljást við í skólanum t.d. í náminu, félagslega eða í samvinnuverkefnum (sem geta reynt á). Ég reyni líka að tengja það sem ég segi, við þau framtíðarmarkmið sem þeir eru að stefna að á þessari stundu.

Það hefur verið einstaklega fróðlegt að tala við nemendur um símamálin. Öfáum nemendum finnst það pínu spennandi tilhugsun ef að það væri símabann í skólanum en ástæðurnar eru alltaf þær sömu. Eitt er að þeim finnst leiðinlegt þegar kennarar ráða ekki við það að fá aðra nemendur til að setja símana niður (það er auðvitað bannað í skólanum að hanga í símanum í tíma) eða þá að þeir vilja fá afþreyingadót á sameignina hjá okkur og þannig fleiri tækifæri til að leika við vini sína. En aðeins eitt þeirra sem ég hef rætt við er með símann mikið uppi eða kannaðist við að síminn gæti verið vandamál og truflaði athygli í kennslutíma eða samveru með vinum (sumir skilja símarnir eftir heima, ofan í tösku og einn þeirra átti ekki snjallsíma heldur spjallsíma af ásettu ráði). Flestir sem ég ræddi við, sem eiga snjallsíma hafa líka slökkt á tilkynningum því að þeir vilja ekki að síminn sé að trufla sig á skólatíma. Kannski er það nýlegt, ég veit það ekki en ég veit að kennarar hafa verið að sýna þætti eins og Sítengdur sem var á RUV í vetur og ræða þessi mál í skólanum. Við fengum líka kennsluráðgjafa Kópavogsbæjar til að ræða við nemendur um snjalltækin nýverið og hvaða afleiðingar röng notkun þeirra gæti haft á líf okkar. En það er samt þannig að þó að nemendum finnst símarnir ekki vera vandamál hjá sér, þá geta spjaldtölvurnar verið það skv. kennurunum. Þeir nemendur sem eru til vandræða í tímum (sem eru alls ekki margir) eru frekar að gleyma sér í leikjum þar en í símunum sínum en eflaust er hægt að taka þá umræðu betur líka. Það eru jú símamálin sem eru að fá athygli þessi misserin í fjölmiðlum.

Markmið mitt með þessum samtölum er að svara spurningum nemenda varðandi námsmatið, varðandi kennsluhættina, ræða um mikilvægi þess að fara út fyrir þægindarammann og ég vil að nemendur viti að þeir eigi rétt á því að hafa áhrif á eigið nám þar sem skólinn er þeirra vinnustaður jafn mikið og hann er minn vinnustaður. Ég spyr því hvort að þeim finnist við geta gert hlutina öðruvísi í kennslustundum eða t.d. varðandi valfögin og ég setti upp hugmyndakassa (að ósk eins nemandans) þar sem nemendur geta sett inn hugmyndir sem stjórnendur skoða svo og athuga hvort að hægt sé að uppfylla. Mig langaði líka að athuga hvort að við værum með nemendur sem væru einangraðir og vinalausir en hingað til hef ég ekki hitt neinn þannig eða heyrt af nokkrum þannig í þessum bekkjum en auðvitað koma upp árekstrar hjá okkar nemendum eins og hjá öllum öðrum. Ég reyndi þó að útskýra þegar sú umræða kom upp (vegna tímabundinni samskiptavandamála sem koma upp í stelpuhópum) að það væri eðlilegur hluti af þroskaferli hvers og eins að læra að takast á við þannig áskoranir og læra að finna sameiginlegan grundvöll sem hægt væri að tengjast á.

Unga fólkið okkar er mjög upptekið, er í einni eða tveimur íþróttagreinum, á leiklistaræfingum, söngæfingum en það hefur ekki endilega áhrif á námsárangur þeirra því mörg þeirra eru að fá ágætis einkunnir (eða gott námsmat eins og það heitir í dag) sem sést líka á niðurstöðum samræmdra prófa hjá 9. bekk.

Miðað við það sem ég man úr minni grunnskólagöngu eru nemendur í dag mun meðvitaðri um svo marga hluti, þeir eru duglegir að taka til sín ábendingar um eitthvað sem þeir geta gert betur og virðast vel að sér um eigin styrkleika og veikleika og mér finnst þau bara nokkuð oft okkur fyrri kynslóðum fremri á mörgum sviðum.

205 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page