top of page
  • Writer's pictureAnna María

Nemendur með annað móðurmál en íslensku

Updated: Jan 16, 2021

Ég starfa í Breiðholti og finn að það er margt sem við sem samfélag þurfum að gera betur fyrir fjölskyldur af erlendu bergi. Það er svo sannarlega verið að spýta í lófana í hverfinu með verkefninu Betri borg fyrir börn, en skólunum vantar enn úrræði til að mæta nemendum betur. Þeir sem þekkja mig vita að það sem mér finnst mikilvægast í öllu námi er að nemandinn viti hver tilgangur námsins er. Þeir vita líka að ég segi stöðugt (og er næstum um eins rispuð plata) að markmið með námi er aldrei blaðsíður í bókum.

Ég var að lesa skýrslu frá OECD sem heitir Helping immigrant students to succeed at school - and beyond. Skýrslan er mjög forvitnileg og margt áhugavert þar að finna. Mér fannst t.d. mjög áhugavert að sjá að innflytjendum frá Tyrklandi líður betur í finnsku skólakerfi en því danska. Það var líka áhugavert að lesa að nemendur sem koma úr öðrum skólakerfum gengur oft betur í raungreinum en innfæddum og miklu betur en nemendum sem teljast annarrar kynslóðar innflytjendur. Þeim gengur reyndar verr í öllu sem tengist tungumálinu. Ég er með kenningu varðandi Finnland og Danmörk. Það sem ég þekki úr þessum skólakerfum er að annað byggir gríðarlega mikið á samvinnu nemenda en það er ekki eins útbreytt í hinu.

Ef að við hugsum aðeins út í það og sjáum fyrir okkur nemanda sem skilur lítið sem ekkert í tungumáli samfélagsins. Hann situr einn með bók og á að finna út hvað þar stendur eða hvers er ætlast til af honum. Ég veit að ég væri í slæmum málum ef að ég ætti að sitja fund á frönsku, þó að ég skilji eitt og eitt vel valið orð. Fundartíminn væri mikil tímasóun fyrir mig. En ef að ég fengi aðstoð annarra á fundinum til að finna kjarnann, skilja lykilhugtökin og setja þau í samband við það sem ég þekki á íslensku, þá gæti ég eflaust tjáð mig um efnið. Án þess gæti ég það ekki. Það sama á við um nemanda sem situr með náttúrufræðibók fyrir framan sig eða hlustar á innlögn kennara, hann græðir lítið sem ekkert á því. Hann getur ekki sagt sitt álit, því að hann skilur ekki hvað er verið að fjalla um. Ef að hann fengi aftur á móti að vinna í hóp, þar sem aðrir nemendur geta útskýrt fyrir honum hver séu lykilatriðin eða hugtökin sem skipta máli, þá gæti hann frekar nýtt sér það og verið betur með á nótunum í verkefninu.

Nemendur sem tilheyra þessum hóp (eru innflytjendur eða eiga foreldra sem teljast innflytjendur) og fara í leiksskóla gengur betur en þeim sem ekki fara í leiksskóla. Það kemur fram í skýrslunni að stundum er ástæðan sú að fólk þekkir ekki það kerfi frá heimalandinu en einnig tilheyri þetta fólk oft fátækustu hópum samfélagsins og því spurning hvort að við ættum ekki að gera betur fyrir þessi börn og bjóða öllum ókeypis leiksskólagöngu. Það virðist vera mun mikilvægara en ég gerði mér grein fyrir og hjálpar þessum nemendum að byrja í grunnskóla með mun betri hæfni og skilning á samfélaginu og tungumálin en þau börn sem missa af því skólastigi.

Hattie fann út í sinni meta-analýsu að fátækt hefði ekki áhrif á námsárangur. Samt sýna allar rannsóknir (m.a. ein íslensk sem er að koma út) að fátækt hefur áhrif á námsárangur, þ.e. börn sem koma af fátækari foreldrum gengur verr í skólum en þeim sem koma af betur stæðum foreldrum. Pisa hefur sýnt fram á að oft eru það innflytjendur sem skora hæst á Pisa prófinu. Þetta er skýrt með því að fólk sem flýr land eða ákveður að flytjast í annað land, gerir það oftast til að búa sér og sínum betra líf. Þetta fólk hefur miklar vonir til að börnin þeirra verði vel menntuð og fái betri vinnu en þau sjálf. Þetta er svo í engu samræmi við árangur þeirra í skólunum, en klárlega eitthvað sem ætti að vinna með. Það kemur fram í skýrslunni að í sumum löndum er mun meira um að talað sé annað tungumál á heimilum en í skólanum og er Ísland nefnt sérstaklega (ásamt fleiri löndum). Þetta gæti bent til þess að við (íslendingar) erum ekki að standa okkur í að fræða foreldrana um leiðir til þess að börnin þeirra geti skorað hærra og skilað betri árangri í okkar skólakerfi. Það er ljóst að innflytjendurnir okkar vilja læra íslensku og það kom bersýnlega í ljós núna þegar þeir sem eru á atvinnuleysisskrá fá að halda bótunum þó að þeir fari í skóla. Ásókn í íslenskunám var langt umfram framboð. Hvernig væri þá að bjóða foreldrum upp á íslenskunám í skóla barnanna þeirra (t.d. á kvöldin) þar sem þeir læra íslensku en fá um leið kynningu á tilgangi þess námsefnis sem börnin þeirra eru að vinna með. Munið að tilgangurinn er aldrei blaðsíður í bókum, heldur kjarninn í náminu sem á að eiga sér stað. Á þennan hátt yrði skólinn meira samfélagsmiðstöð hverfisins og jafnvel hægt að aðstoða foreldra að aðstoða börnin sín með smá inngripi, hvort sem þeir eru af erlendu bergi eða ekki. Þannig gæti þessi samfélagsmiðstöðvar-hugmynd gagnast öllu samfélaginu því að það er ekki bara erlendir foreldrar sem telja sig ekki í stakk búin að aðstoða börnin í náminu. Einangrun fullorðins fólks er líka gríðarleg þessa dagana og einmannaleiki er vaxandi vandamál. Þessi hugmynd að nýta skólana í þessum tilgangi gæti því verið lyftistöng fyrir alla íbúana.


Annað sem mér finnst mjög mikilvægt og það er hugtakaskilningur. Það kemur fram í Pisa (ekki í þessari skýrslu neitt sérstaklega) að það sem okkar nemendur eiga erfiðast með er hugtakaskilningur. Ég hef skrifað um það áður hversu mikilvægt það sé að við notum réttu hugtökin svo að nemendur skilji spurningar í samræmdum mælingum. Orðið plús er að ég held aldrei notað í þannig könnunum, en samlagning og summa frekar. Ef að nemandinn veit ekki hvað þau orð þýða (sem margir þeirra gera ekki), þá er ekki skrýtið að Pisa sýni að hugtakaskilningi sé ábótavant hjá okkur. Óháð samræmdum mælingum er mikilvægt að nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku skilji hugtökin og geti sett þau í samhengi við það sem þeir þekkja. Það er því að mínu mati gríðarlega mikilvægt að um leið og kennarar gera áætlun fyrir veturinn að þeir ákveðið hvaða hugtök þeir eru að vinna með og hvernig þeir ætlist til þess að nemendur nái að tileinka sér þau. Þessi hugtök á svo stöðugt að vera að ræða og taka svo stöðuna reglulega til að sjá hverjir hafa náð að tileinka sér þau og hverjir ekki. Þetta gæfi líka nemendum með annað móðumál en íslensku, tækifæri til að þýða þau yfir á eigið móðurmál. Glósubók sem inniheldur þessi hugtök er góð hugmynd en líka stöðug umræða og sjáanleiki á veggjum. Rannsóknin hans Hattie sýnir líka að glósur séu gagnlegar.


Að skilja hugtökin og geta sett þau í samhengi við erlenda tungumálið er sem sagt mjög hjálplegt. Það er erfitt að draga ályktun af nöfnum á hugtökum ef að manni vantar grunn í tungumálinu. Sem dæmi þá var ég á ferð í Istanbul fyrir nokkrum árum í Erasmus ferð. Við fórum á eyju sem er kölluð Büyükada. Þetta er stærsta eyjan við borgina og fyrir mér var þetta bara eitt af mörgum framandi nöfnum í því tungumáli. Orðið þýðir þó bara stór eyja og büyük þýðir stór. Ef að ég hefði vitað það, hefði ég kannski frekar getað dregið vitræna ályktun á því hvaða ada þýðir (eyja) þar sem ég vissi að þetta væri stærsta eyjan þarna. Ef að við þekkjum smá í latínu líka þá getum við sjálf dregið ályktun á hvað orð þýða. Sem dæmi þá þýðri intra - innan og orðið vena er æð. Ef að sjáum svo orðið intravenous þá getum við lesið það út að lyfið sem við vorum að lesa um er sprautað inn í æðarnar. Grunnurinn í tungumálinu er því gríðalega mikilvægur. Ef að nemendur okkar geta ekki dregið neina ályktun af okkar nöfnum og hugtökum, þá tekur óþarflega langan tíma að geta fylgst með kjarnanum í því sem námsefnið fjallar um. Ég er t.d. ekki viss um að margir hafi gert sér grein fyrir því þegar Eyjafjallajökull gaus árið 2010 og var í fréttum um allan heim að nokkrum hafi dottið í hug að þetta væri jökull. Það er því rétt að leyfa nemendum okkar að þýða yfir á eigið tungumál, að leyfa þeim að skrifa textann á því tungumáli og svo hjálpa þeim að þýða hann yfir íslensku. Þannig eru þeir að tileinka sér hugtökin og námsefnið um leið og orðaforði þeirra í íslensku eykst smá saman. Það er ekki boðlegt að láta þá sitja eina inn í kennslustundum með námsefni sem þeir skilja ekki. Það mætti meira að segja nota þetta fyrir íslenska nemendur sem stoppa í einhvern tíma í erlendum skólum og koma svo aftur heim. Þar læra þeir hugtakanöfnin á öðru tungumáli en við notum og því ætti alltaf að redda þeim hugtaka listum á báðum tungumálum. Það myndi flýta fyrir yfirfærslu hugtakaskilnings á íslensku.

Samkvæmt fréttum um niðurstöður okkar í Pisa varðandi nemendur af erlendu bergi þá er ljóst að við þurfum að gera betur. Við þurfum að fara meðvitað í þetta verkefni og sjá muninn á milli þessa hóps og innfæddra minnka jafnt og þétt. Við gerum það ekki með því að gera ekki neitt eða með því að gera það sem við höfum alltaf gert. Við þurfum að tileinka okkur önnur vinnubrögð. Þetta verður ekki lagað með því að taka nemendur úr jafningjahóp, heldur með því að vera með kennsluhætti sem taka á fjölbreyttum nemendahóp. Finnar nota samvinnu, þeim gengur vel í alþjóðlegum samanburði og nemendum líður vel í því skólakerfi. Er nokkuð vitlaust að draga þá ályktun að samvinna sé einmitt leiðin til að bæta líðan og árangur breiðs hóps nemenda?


37 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page