Guðrún Hálfdánardóttir blaðamaður á Mogganum hefur verið að birta nokkuð mörg viðtöl sem hún tók við fólk sem tengist skólamálum. Greinaflokkinn vann hún mjög vel, en hún byrjaði á því að spyrja foreldra og aðra hagsmunaaðila hvað þeir vildu fá að vita um menntamál. Í framhaldi af því valdi hún viðmælendur. Þetta er gríðarlega flott umfjöllun um menntamál og ef að hún hefur farið fram hjá einhverjum, þá mæli ég með lestri á greinunum. Sjálf fékk ég tækifæri til að tjá mig, en það var um hvað hægt sé að gera fyrir bráðgera nemendur.
Það er bara eitt vandamál við þannig spurningu, kannski fleiri en það er að minnsta kosti eitt stórt vandamál við spurninguna. Við erum með stefnu á Íslandi sem heitir Skóli án aðgreiningar. Skólinn er því jafn lögbundin að bregðast við þörfum þessa nemenda og hinna sem þurfa sérkennslu af því að þeir eru hinum megin á kvarðanum. Við eigum það þó til að hunsa þau og eins og einn í kommentakerfinu á Facebook benti á, þá þurfi ekki að hafa áhyggjur af bráðgerum börnum, þau sjái bara um sig sjálf. Það er alls ekki rétt. Bráðgerir nemendur eyða oft stórum hluta grunnskólagöngu sinnar í að sýna mun oftar hæfni í einstaka þáttum en aðrir með því að fylla út í fleiri bækur. Þeir fá líka mun oftar frjálst, stundum heilu kennslustundirnar. Það þýðir að frá unga aldri læra þeir að leggja ekkert á sig, fylla út í eyðurnar og ná sér svo í Andrésblað. Þeir fá aldrei áskoranir og bregðast oft illa við þegar einhver krafa er gerð á þá. Ekki misskilja mig. Kennarar eru allir af vilja gerðir og redda sífellt meira efni og jafnvel skemmtilegu efni. En þegar nemendur spæna sig í gegnum efnið, er spurning hversu miklu við eigum að fórna af skógum jarðar í útprentuð aukaverkefni. Við þurfum að finna aðra leið. Þessi börn eiga rétt á námi við hæfi eins og allir aðrir, þeir eiga rétt á að fá áskoranir eins og aðrir og þeir eiga rétt á að fá að fara hraðar eða dýpra en aðrir í gegnum námsefni skólanna, þar sem þeir eru sterkir. Annars læra þeir aldrei að læra.
Nú ætla ég að skrifa aðeins um Pisa sem mælikvarða á gæða skólastarf (þetta tengist). Prófið er meingallað sem mælikvarði á einstaka skóla og það var aldrei hugsað sem slíkt. Í bókinni Kapphlaup þjóðanna, vangaveltur um Pisa kannanir og alþjóðleg próf er þetta skýrt á mjög fínan hátt. Einn ágætis punktur: Íslensk börn fengu ekki öll sama hluta af prófinu, enda er það mjög stórt. Þannig próf myndi taka mjög margar klukkutíma og því er misjafnt hvaða hluta hvert barn fékk. Prófið er gert til að prófa allt menntakerfið sem heild ekki einstaka hluta þess. Þess vegna var mjög undarlegt að lesa í sumum viðtölunum að Réttarholtsskóli og svo Garðaskóli væru góðir skólar af því að þeir skiluðu góðum árangri á Pisa. Ég mæli með lestri á þessari bók sem fæst líka á ensku (rafrænt) og heitir The Global Education Race: Taking the Measure of PISA and International testing. Í bókinni kemur fram að stigataflan sem er alltaf birt í fjölmiðlum segir okkur ansi lítið. Nú veit ég ekki hvaða stig íslendingar hafa fengið t.d. í lesskilningi, en segjum að það sé svona uþb 520 stig eitt árið. Landið lendir í 4 sæti á listanum góða en þar sem prófið er alltaf þemabundið þá er aðaláhersla einmitt á lesskilning það árið. Næst þegar er prófað er aðaláhersla á náttúrufræði og íslendingar ná 525 stigum í læsi en lenda í 12 sæti. Það fer enginn að velta fyrir sér að okkur fór fram, við fengum fleiri stig. Það einblína allir á að Ísland hafi fallið úr 4. sæti í það 12. Það er svo gríðarlega margt annað í þessu próf sem er gallað sem mælikvarði fyrir einstaka menntastefnur eða hvað þá einstaka skóla. Því er, að mínu mati, næstum ámælisvert að fólk í framvarðasveit í skólamálum taki þetta próf og hampi árangri einstakra skóla í þessari könnun þegar niðurstaðan er ómarktæk. Hvað þá þegar menntamálaráðherra segir öðrum að horfa á árangur þessa skóla og læra af þeim. Ég hef svo sem ekkert á móti þessum prófum sem slíkum. En við þurfum að læra að lesa úr þeim á réttan hátt og nýta þau eins og best verður á kosið. Að berja sér á brjóst yfir einhverju sem stenst ekki nánari skoðun er eitthvað sem við ættum að forðast.
Ég er samt ekkert á móti því að meta menntakerfið okkar. Ég er nefnilega öll fyrir það að okkur fari sífellt fram en vil ekki að við stöndum í stað. Ég vil alveg að landinn nái að sýna meiri árangur í læsi, í stærðfræði og í náttúrufræði (áherslur í Pisa). Ég er svo alveg sammála Andreas Schleicer hjá OECD um að við gætum gert meiri kröfur á krakkana okkar og þó að ég vilji að þeim líði áfram vel í skólanum og finnist skemmtilegt að vera þar, þá held ég að við getum alveg gert aðeins betur. En ég er nokkuð viss um að við gerum það ekki nema breyta einhverju hjá okkur. Ástæðan fyrir þessari skoðun er að ég hef kennt í nokkur ár og séð að nemendur sem koma úr öðrum skólakerfum (erlendum) standa okkar nemendur oft mun framar á mörgum sviðum, en alls ekki öllum. Mér hefur fundist nemendur koma með betri grunn í stærðfræði, í eðlisfræði og (kannski) þarf af leiðandi í rökhugsun. Þeir eru ekki eins vanir að vera mataðir af upplýsingum og okkar nemendur sem bíða oft eins og ungar í hreiðri eftir að fá svörin. Okkar nemendum finnst t.d. mjög eftir oft að skrifa texta eins og smásögu. Þeir vilja fá að vita hve margar blaðsíður, hve mörg orð, hve margar línur..... Þegar kennari segir að þetta eigi að vera bara saga með upphaf, miðju og endi, þá flækjast málin. Það eru ekki gerðar kröfur um það sem þeir vilja fá að vita og leiðbeiningarnar eru ekki nógu skýrar af þeirra mati. Þetta var eitt dæmi af mörgum, en ég er nokkuð viss um að við getum gert betur og þá án þess að stýra kennslunni hjá okkur og námi nemenda alltof mikið. Við gerum það núna t.d. í gegnum námsefnið sem sem við notum og er gefið út sem kennsluefni til skóla. Það er þó hægt að gera hlutina öðruvísi þó að það sé ríkissútgáfa sem sjái um námsefnið. Í Danmörk og Svíþjóð er öll stærðfræði rafræn í grunnskólum (að minnsta kosti alls staðar sem ég þekki til). Nemendur vinna í tölvum við að leysa dæmi bæði í skóla og heima. Í skólanum sem barnabarnið mitt var í þarna úti, var sett kvöð á foreldra að redda börnunum þeirra fartölvu áður en þeir byrjuðu í 4. bekk (okkar 5. bekkur). Yngri börn fengu tækin í skólanum. Öll önnur námsgögn voru frí. Þetta var gert til að allir gætu lært heima og unnið með tækin á skólatíma. (Ég sé þetta ekki alveg gerast hjá okkur.) Flestir nemendur þar fylgja þeim áætlunum sem eru settar fram (eins og flestir gera hjá okkur líka) en þeir sem geta meira og vilja meira geta í svona kerfi lært meira og hraðar. Ég fékk smá nasasjón af svona kerfi þegar ég var að kenna. Ég notaði Moodle í dönskukennslunni fyrir 9. og 10. bekk og eftir því sem ég hafði meiri tíma, setti ég inn meira efni og fleiri bjargir fyrir nemendur. Nemendur máttu fara eins hratt og þeir treystu sér í gegnum áfangana og það kom alveg fyrir að ég væri með nemendur sem voru byrjaðir á 10. bekkjar áfanganum í 9. bekk. Þeir kláruðu þá seinni áfangann fyrir jól og fengu efni sem ég vissi að var notað í framhaldsskólum eftir jól. Ekki til að fá það metið endilega, heldur bara til að ég gæti undirbúið þá og reynt að viðhalda áhuganum. Ég hef aldrei talið það vera í mínum verkahring að standa í vegi fyrir námsáhuga nemenda minna og þess vegna hef ég alltaf reynt að gefa þeim fullt af tækifærum til að æða áfram ef að svo ólíklega vildi til að danska væri í uppáhaldi. Auðvitað varð að vera vit í því sem þeir voru að skila inn en ef að það var ekki, var hægt að nýta áhugann í að gera betur.
Ég tel því að rafrænt námsefni geti komið okkur hraðar áfram og ýtt undir hraðari skólaþróun, meiri metnað og minni skólaleiða. Fái nemendur raunsvörun, þá skilar það sér strax til þeirra og þeir geta lært að gera betur í næsta dæmi, næsta stíl, næsta verkefni. Ég kenndi danska málfræði allan tímann sem ég kenndi það fag. Fyrst gerði ég það með verkefnaheftum frá Menntamálastofnun. Það reyndist þvílík tímasóun. Nemendur skrifuðu eitthvað sem þeir töldu rétt í 46 bls hefti og afhendu mér það svo. Ég eyddi svo ómældum tíma í að fara yfir þetta og gefa einkunn. Ég breytti þessu síðar í rafrænar eyðufyllingar þar sem nemendur fengu svörun strax og þvílík breyting! Allt í einu var ég farin að kenna danska málfræði því að nemendur mínir vildu ekki fá rautt (rangt) svar. Þeir spurðu mig bæði áður en þeir ýttu á skila-takkann hvort að eitthvað væri rangt en oftast eftir að þeir sáu að eitthvað var rangt hjá þeim. Þeir vildu fá að vita í hverju villan lægi. Ég var sem sagt farin að kenna þeim eitthvað. Þetta var þvílík framför sem skilaði sér svo í mun betri stílum, en það var í þeim sem námsmat um færni í málfræði fór svo fram. Sumt er ágætt að kenna á gamaldags hátt (eins og eyðufyllingar) og ef að tilgangurinn er skýr (eins og krafa um betri stíla) þá er það ekki til einskis að mínu mati. Ef að nemendur eru aftur á móti ekkert að læra á verkefnunum (eins og var áður hjá mér) eða ná að yfirfæra það sem þeir áttu að vera að nema, þá er það tilgangslaust og algjör tímasóun.
Bráðgerir nemendur og aðrir metnaðarfullir klárir nemendur eiga að fá að fara í gegnum námsefnið á þeim hraða og með þeirri dýpt sem þeim hentar. Sem menntakerfi ætti því ráðuneyti og MMS að einblína á einstaklingsmiðað nám í stað sama náms fyrir alla (útgáfa bóka). Að gefa út bækur (sem eru jafnvel ekki rafrænar) er tímaskekkja að mínu mati. Rafræn verkefni, samvinnuverkefni, kennslumyndbönd og annað sem ýtir undir að nemandi geti numið á eigin hraða ætti að vera stefna okkar. Ég nefndi það í viðtalinu í Mogganum að ég sæi alveg fyrir mér að í stað þess að vera með bekki og bækur, þá værum við með verkefni þvert á aldurshópa. Nemandi þurfi að sýna fram á að hann hafi tiltekna hæfni, en hvernig hann gerir það og á hvaða tíma á að vera í hans höndum (og foreldranna líka). Nemandinn sem ég sagði frá í viðtalinu hefði grætt heilmikið á því að fá að vera í efnafræði með nemendum á unglingastigi í fyrra ef að verkefnið hefði verið að gera tilraunir og læra um efnahvörf og ekki efnahvörf (ég minni á að ég er dönskukennari og þekki því ekki rétt "lingó"). Hann hefði lært af þeim og öðrum nemendum í skólanum sem hefðu sama áhuga og hann. Sama nemanda gæti svo vantað ýmislegt annað sem hann væri að þjálfa með yngri nemendum eins og skrift, réttritun, enska, staðreyndir um goðafræði eða Norðurlöndin.
Ég er með marga nemendur núna á minni könnu sem þurfa meira og ég hitti einn í 1. bekk í vikunni. Hann hefur gríðarlegan áhuga á náttúruhamförum og goðafræði en það er ekki hluti af námsefni 1. bekkjar. Hann var víst mjög svekktur þegar hann kom heim eftir fyrstu dagana af því að hann hafði ekki lært jarðeðlisfræði! Það er því okkar verkefni núna (míns og kennarana) að finna námsefni sem hentar honum og þjálfar hann í því sem hann þarf að þjálfast betur í á sama tíma. Ef að ég hefði í einhvern gagnagrunn að leita í sem gæfi honum færi á að læra meira um það sem hann hefur áhuga á og um leið æfir hann sig í því sem hann þarf að þjálfa betur, þá myndi ég telja að við sem menntakerfi værum komin á góðan stað.
Það er annað sem mér finnst gæti verið góð ástæða fyrir meiri aldursblöndun, en nokkrir af mínum kláru eða bráðgeru nemendum eiga erfitt félagslega (alls ekki allir samt). Þegar maður les um þessi börn þá sér maður að nemendur á sama aldri eigi ekki alltaf samleið því að áhugasviðið er ólíkt. Bráðger nemandi í 1. bekk þarf kannski frekar að kynnast nemanda í 3. bekk sem hann gæti talað við um sín áhugamál eða sitt áhugasvið. Mér finnst því að við ættum að hætta að horfa á aldurskiptingu í skólum út frá fæðingarári og fara að einblína á hæfnina sem hver og einn hefur.
Við eigum líka að finna nýtt námsmatskerfi sem hefur ekki þá stefnu að allir nemendur falli í einhvern flokk, því að í þannig kerfi náum við ekki að virkja snillingana því að þeir þurfa alltof oft að leggja alltof lítið á sig til að fá frábært námsmat. Ef að við viljum sýna fram á að við séum með þessa snillinga í Pisa (þeim hefur víst fækkað þar), þá þurfa þeir líka að fá tækifæri til að sýna sitt rétta andlit í skólanum og þá vantar okkur í skólanum góðan banka að leita í og námsmat sem hvetur þá til að sérhæfa sig innan síns áhugasviðs. Það er stundum ekki nóg að fá bara A.
Hér er svo viðtalið við mig: https://www.mbl.is/frettir/burdargrein/2019/09/19/dyrt_fyrir_samfelagid_og_skadlegt/
Σχόλια