top of page
  • Writer's pictureAnna María

"Student Power"

Updated: Aug 11, 2018


Hlýnun jarðar er eitt af vandamálum samtímans sem hefur áhrif á framtíðina

Það er tilvalið að nota þessa breyttu tíma í skólunum, þar sem áhersla virðist vera sífellt meiri á sköpun barna (sbr. nýr barnamenningarsjóður ríkisstjórnarinnar), í að hugsa um hvaða efni við viljum að nemendur okkar séu að vinna með og af hverju við teljum það vera þeim til góðs. Við vitum alveg hvað það er sem kemur þeim vel að vita þegar þeir eldast, við höfum sjálf farið í gegnum það ferli. Eitt af því sem kom fram í samtölum við kennara í Hólabrekkuskóla þegar við vorum að undirbúa þemavinnuna Nám á nýjum nótum í unglingadeildinni, var að þeir vildu að nemendur væru að vinna meira með vandmál samtímans.


Í einhverjum framhaldsskólum (collage) í útlöndum er verið að vinna markvisst með þetta og þar kallast þessi hugmynd "student power". Nemendur þjálfast í að kynna sér og berjast fyrir því sem þeir telja þess virði að berjast fyrir. Nærtækasta dæmið af svona nemendahreyfingu eru nemendur í Marjory Stoneman Douglas High School í Florída sem hafa víst fengið talsverða þjálfun í svona vinnu (skv. því sem kennarar þeirra sögðu) og hafa nýtt það til að berjast fyrir breytingum á byssulöggjöfinni í landinu eftir hræðilegan atburð sem þar átti sér stað á þessu ári.


Af nógu er að taka þegar við tölum um vandamál samtímans og hér eru nokkrar hugmyndir:


Hlýnun jarðar trónir á toppnum og það eru óteljandi verkefni sem hægt er að vinna út frá því vandamáli. Þar sem fólk er ekki einu sinni sammála um hvort að hún stafi af eðlilegum ástæðum eða af mannavöldum þá gætu nemendur lært heilmikið um þetta, um ólíkar skoðanir og lært að vitna í réttar rannsóknir máli sínu til stuðnings. Þeir myndu kannski líka horfa öðruvísi á eigin neyslumynstur í svona verkefnavinnu og læra að laga til í eigin ranni.

(- Eitt af því sem kennurum frá háskólanum í Minnisota fannst merkilegast þegar þeir heimsóttu okkur í Hólabrekkuskóla og ræddu við nemendur í 10. bekk árið 2017 var að nemendum okkar fannst endurnýjanleg orka ekki neitt merkileg þar sem okkar börn þekkja ekkert annað. Þessir kennarar voru hér á ferð yfir hálendið í tengslum við skólaverkefnið Changing Earth. Hér eru myndbönd frá þessari ferð, en verkefnið er líka eitt af því sem væri vel þessi virði að skoða í skólunum og taka þátt í. Það er hægt að fylgjast með þeim líka í gegnum Twitter og #choose2care sem er sérstaklega beint til ungs fólks til að virkja þá í að áhrif. Þetta er verkefni sem nemendur gætu unnið og notað til að læra um ólíkar aðstæður í heiminum sem verða vegna hlýnunar jarðar. Forsvarsmaður verkefnisins (Aron Doering) og teymið hans er líka örugglega til í að svara spurningum nemenda okkar).


Jafnrétti er annað sem er alltaf í umræðunni. Nemendur geta haft áhrif innan skólanna um þessi mál, ákveðið hvað þurfi að laga þar til að hreint jafnrétti sé til staðar þar og velt fyrir stöðu þessara mála á þann hátt að þeir geti myndað sér skoðun og komið henni á framfæri.


Tæknibyltingin er annað sem snýr beint að nemendum okkar. Þeir heyra stöðugt (og reyndar við líka) að um 60% starfa sem þekkt eru í dag, verði ekki til í framtíðinni. Við fullorðna fólkið tölum svo líka oft um skaðsemi og gagnsemi tækninnar án þess að vera sammála um nokkuð því tengt. Fái nemendur innsýn inn í þessar vangaveltur, þá geta þeir betur ákveðið fyrir sig sjálfa hvað beri að varast og í hverju er gagn þegar tæknin er annars vegar.

Það er líka fróðleg kenning um hvað geti gerst í kringum 2040/50 þegar sumir telja gervigreind vera orðna svo fullkomna að við mannfólkið getum ekki ímyndað okkur hvernig tæknin muni þróast á þeim tíma. Þessi kenning kallast "technological singualarity". Þetta er eflaust kenning sem einhverjir nemendur gætu fengið áhuga á og tengt hana við lífið á jörðinni á þessum tíma (eða út í geimi). Nemendur fá þarna tækifæri til að læra um tæknina, gagnsemi og það sem ber að varast og ákveða hvað þeim finnst um þessa þróun í stað þess að vera bara neytendur hennar.


Fátækt er samfélagslegt vandamál um allan heim og því tilvalið í verkefnavinnu. Hér væri hægt að benda á Candellight foundation verkefnið, Vision for Africa og önnur álíka félög sem hafa það að markmiði að hjálpa afríkubúum að berjast gegn fátækt og í þessu tilfelli að mennta afrísk börn. Einnig eru SOS þorpin verðugt verkefni að skoða og margt annað sem gæti sett okkar líf og lifnaðarhætti í samhengi við annarra, hérlendis sem erlendis og þannig ýta undir samhygð nemenda okkar.


Stjórnmál eru áhugamál og góð leið til að virkja nemendur. Sem dæmi þá hefur forseti BNA talsverð áhrif á heimsmálin. Hér væri hægt að velta fyrir sér hvort að einræðisherrar gætu komist til valda í lýðræðisríkjum og jafnvel velta fyrir hvað við sem kjósendur getum gert til að koma í veg fyrir slíkt. Hvernig er þessum málum t.d. háttað hér á landi þar sem sömu flokkarnir eru yfirleitt við stjórnvölin og nýir flokkar með nýjar hugmyndir eiga erfitt uppdráttar. Hér væru nemendur að þjálfa stjórnmála- og borgaravitund og fá rödd sem nýtist þeim og eflaust samfélaginu öllu.


Flóttamannavandamálið er annað málefni sem gæti tengst svo mörgu. Nemendur gætu sett sig í spor flóttamanna, unnið að mannúðlegum lausnum, velt fyrir sér ástæðum flótta fólks úr eigin landi og af hverju fólk sé að sækja um hæli í öðrum löndum sem búa ekki á stríðshrjáðum svæðum. Við höfum öll samhygð og hér fengu nemendur tækifæri til að efla hana og viðra skoðanir sínar.






24 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page