top of page
  • Writer's pictureAnna María

Verkkeppni Viðskiptaráðs Íslands

Um síðustu helgi fékk ég tækifæri til að taka þátt í verkkeppni í fyrsta sinn. Ég var elst í hópnum og sá yngsti var 28 ára. Þær sem á milli okkar voru eru mun nær mér í aldri en honum þó, þannig að ég stóð ekki allt of mikið út úr hópnum. Ég var þó elst af öllum þátttakendunum og það er í fyrsta skipti sem ég upplifi það. En verkefnið okkar var að svara spurningunni "Hvernig lærum við í framtíðinni? Hópurinn minn var mjög samstilltur og saman settum við upp hugmyndir af hvernig skólastarf fer fram í framíðinni enda gengum við út frá því að við breytum ekki því hvernig við lærum ef að við breytum ekki kerfinu. Þannig að við tókum allt kerfið til endurskoðunar og höfðum til þess eina helgi. Þetta var gríðarleg vinna og ég var ónýt eftir þetta. En niðurstaðan er eitthvað sem að við erum öll mjög stolt af. Eitthvað sem myndi auðvelda skólum að vera fyrir alla og stoppa allan ójöfnuð á milli landshluta, svo fátt eitt sé nefnt.

En það sem kom verulega á óvart var sú tillaga sem vann aðdáun dómara. Ekkert slæm hugmynd en eitthvað sem hefur verið marg reynt og líklega ekki eitthvað sem við munum notast við til að læra í framtíðinni. Hugmyndum snýst um námsefnabanka sem byggir á deilihagkerfi, þ.e. kennarar setja inn efni sem aðrir geta nýtt sér og geta fengið námsefni sem aðrir hafa sett inn. Þessi hugmynd varð að velheppnuðu verkefni í Bandaríkjunum og kallast Teacherspayteachers þar, en ég tók ekki nógu vel eftir því hvort að kennarar fengju greitt fyrir þátttöku í þessari hugmynd eða ekki. Fyrirtækið Costner er líka með álíka hugmyndir í gangi og selja núþegar aðgang að námsefni sem kennarar hafa búið til. Rektorar HR og HÍ, menntamálaráðherra, formaður Viðskiptaráðs og fulltrúi Dags B, voru öll sammála um að þetta væri lýsing á því hvernig við lærum í framtíðinni og kusu því sem bestu hugmyndina. Við hittum marga "mentora" um helgina sem komu frá fyrirtækjum og stofnunum. Einn þeirra sagði við okkur að hugmyndir okkar væru góðar, en menntayfirvöld hefðu engan áhuga á að hlusta á svona hugmyndir. Þær væru of mikil breyting á kerfi sem fólk vill frekar ríghalda í en breyta. Það sem veldur mér hugarangri er að við erum sífellt að greina fleiri og fleiri nemendur af því að þeir passa ekki í kassana okkar. Það þýðir hreinlega að börn hafa þroskast í aðra átt en okkur hugnast. Við þurfum því að breyta, því þetta gamla hentar ekki lengur.

4 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page