top of page

Finnsk og eistnesk menntakerfi

  • Writer: Anna María
    Anna María
  • 6 days ago
  • 10 min read

Updated: 4 days ago

Upplifun mín af finnska menntakerfinu

Það er margt gott í finnska kerfinu, en einnig margt sem okkur Íslendingum þykir framandi. Það eimir af eldri agakerfum og eftirseta er töluvert notuð til að hafa hemil á nemendum. Ég las einhvers staðar að um 30% kennara nýti hana, þó ég geti ekki fullyrt um heimildina. Nemendur sem ekki finna sig í skólanum þurfa annað úrræði en eftirsetu að mínu mati. Ef þeir mæta ekki (hún er klukkutími í hvert skipti) bætast við 15 mínútur í hvert skipti sem skrópað er. Bæði Hollendingar og Þjóðverji sem voru á námskeiðinu sögðu að slíkt væri gegn landslögum hjá þeim. Þetta er aðferð sem við myndum ekki telja skila árangri og miðað við hvernig nemendur voru í skólanum (bara eins og í öðrum löndum) þá er það ekki að hafa áhrif til koma í veg fyrir að börn hætti að vera börn.

Við sáum námsbækur í nokkrum skólum og það var viðurkennt að námsbækur stýrðu náminu, en kennarateymi velja sjálf bækur sem þau telja góðar. Það er samkeppni í námsbókaútgáfu í landinu. QUINT-rannsóknin sýndi hið sama og við sáum: allir vinna í sömu dæmunum á sama tíma.

Í stærðfræði í 5. bekk (samsvarar okkar 6. bekk) sáum við að hæsti hópurinn fékk eyðufyllingarblað sem undirbúning fyrir próf. Hópurinn þurfti enga aðstoð og fyllti út blaðið án mikillar hugsunar, efnið var of auðvelt og ekki krefjandi. Miðhópurinn var órólegri og kennarinn eins og þeytispjald milli nemenda. Sumir biðu eftir svörum og/eða voru óvissir um hvort þau væru á réttri leið. Ég skil ekki finnsku og veit því ekki hvort kennarinn var að gefa svör eða ýta undir hugsun. Þriðja hópnum mættum við ekki, en sáum hann. Kennarinn sem ég fylgdi, hafði fyrir framan stofuna sagt að þau væru „hægust“ og ég efa ekki að nemendur hafi heyrt það. Inni í stofunni var dofin stemning og nokkrir nemendur fengu aðstoð á ganginum. Þau voru ekki að undirbúa sig fyrir próf heldur að vinna í allt öðrum bókum en hinir. Þó að kerfið segi að þessi börn eigi að geta unnið sig upp, fannst okkur þetta vera skýr aðgreining. Ég sé ekki hvernig nemendur sem vinna ekki með sama efni og hinir geti unnið sig upp á sama þekkingarstigi.


Betri mynd á yngri stigum

Það sem við sáum á yngsta stigi var þó jákvæðara. Nemendur í 1.–2. bekk sem koma læsir inn í skólann fá áskoranir við hæfi í sér hópi, ólíkt heildarhópnum sem er að læra að lesa. Þau eru metin reglulega og hóparnir dragast smám saman. Þetta er mun betra en að láta þau bíða eða læra aftur grunnfærni sem þau kunna. En þegar sama fyrirkomulag er viðhaft í 5. bekk (okkar 6. bekk) verður þetta að hreinni getuskiptingu. Finnar segjast sjálfir ekki vera með fullkomlega „inclusive“ kerfi. Þeir hafa reyndar þak á fjölda nemenda með ákveðnar greiningar í bekk. Í 20 barna bekk mega mest fimm t.d. vera lesblindir eða með ADHD. Það hljómaði vel þangað til við heyrðum að það gætu verið 5 með ADHD, 5 með einhverfu, 5 lesblindir... Útskýringin var líklega ekki nógu skýr.


Það sem er sterkt í Finnlandi

Tónlistarnámið er frábært og mikið lagt í það. Við fengum einnig að heimsækja IB-skóla þar sem öll kennsla, nema finnska, fer fram á ensku. Þar var meira af nemendalýðræði en í öðrum skólum, þó innan ákveðins ramma.

Dæmi um þetta lýðræði var að fyrir utan líffræðistofu héngu mörg próf á veggnum. Nemendur þurfa að taka þau öll, en ráða hvenær og í hvaða röð. Lokaritgerð með rannsóknarspurningu er stór hluti námsins og byggir að hluta á dagbók í Google Sites þar sem þau ígrunda nám sitt og CAS-verkefni (Creativity, Activity, Service) alla 24 mánuðina sem námið varir. Nemendur þurfa að sinna CAS í minnst 18 mánuði. Sérstaklega heillaði mig „Service“ hlutinn, samfélagsþátttaka án endurgjalds í minnst 6 mánuði. Þetta styrkir samkennd og ábyrgð nemenda. Skólastjórinn sagðist vilja sjá CAS í öllu finnsku framhaldsskólanámi sem ég skil en ég myndi vilja sjá það í efri bekkjum grunnskóla hjá okkur líka.

Þó að ég hafi ekki orðið eins heilluð og ég var að vona, var margt sem aðrir á námskeiðinu tóku betur eftir en ég gerði. Á þessu námskeiði voru allmargir frá Ítalíu og þau töluð um að þegar þau færu heim ætluðu þau að taka með sér bros. Það vantar víst í marga ítalska skóla. Nokkrir töluðu um að þau sáu nemendur setja sér sjálfir markmið á yngstu stigunum, en ég sá það ekki, enda ekki í sömu skólum og þau. Það voru helst yngstu stigin sem heilluðu mest og svo glænýr verkmennaskóli (framhaldsskóli) sem nemendur voru með í að hanna, þar sem allir voru einstaklingsnámskrár og markmið. Einn skólastjórinn frá Ítalíu sagði við mig að það er of mikið af skipunum af ofan á alls konar miðlum í hennar skóla en of lítið um samtal og samvinnu, hvort sem er á milli kennara og stjórnenda, kennara og kennara eða nemenda og kennara. Það er eitthvað sem hún vildi laga þegar hún kemur heim og hún sá merki um hvernig þetta er framkvæmt í Finnlandi og í Eistlandi.


Hvað útskýrir PISA-árangur ekki?

Ekkert af því sem ég sá í Finnlandi útskýrir sérstaklega árangur þeirra í PISA. Þeir tala um frelsi og traust, en það er ekkert endilega minna hjá okkur. Sama gildir um Eistland, sem einnig skorar hátt. Eftirseta eða getuskipting skýrir ekki árangur. Aðrir þættir virðast gera það og ég kem að þeim síðar.


Eistneska leiðin og tæknilæsi

Bæði lönd leggja áherslu á „phenomenon-based“ nám (PB). Í Finnlandi hefst það í 5. bekk, en virðist fræðilegt í framkvæmd. Eistar tóku upp finnska kerfið en gera ákveðna þætti betur. Eistneskir kennaranemar (amk í háskólanum sem við fórum í) þurfa t.d. að kunna forritun og sköpun þar sem nemendur eru þjálfaðir í þessu allt frá yngsta stigi. Í 9. bekk hanna nemendur lausn fyrir raunverulegan einstakling, skapa hana og kynna fyrir notendum og "selja" hugmyndina. Fyrirtækjafræði er kennd samhliða. Margir nemendur hafa því stofnað fyrirtæki þegar þeir útskrifast úr menntaskóla.

Tækni, tæknilæsi og læsi í víðum skilningi eru lykilatriði í Eistlandi. Þó tengist það ekki beint PISA er „computational thinking“, rökhugsun og lausnahugsun hluti af grunnhæfni eða færni sem kemur sér vel í PISA. Ástæðan fyrir þessar áherslu er að ríkisstjórnin vill að landið skari fram úr í tækni og núþegar vantar þúsundir sérfræðinga í laus störf sem tengjast þeim geira. Það er þó mikill kynjahalli í þessum greinum. Eistar voru þar til í ár, með skólaskyldu til 16 ára eins og við. Þeir lengdu það til 18 ára á þessu ári. Skólinn sem við heimsóttum er tækniskóli fyrir nemendur frá 7 ára til 18 ára. Þegar kemur að þessum viðbættu árum, sem voru hingað til val, þá verður áberandi munur á stelpum og strákum. Sumir bekkirnir eru eingöngu strákar. Tölvutímarnir sem við fórum í voru litaðir af því að margir voru búnir með verkefnin sín og jólin á næsta leyti. Bekkirnir máttu velja Scratch eða Canva að gera jólakort og í einum bekknum voru allar stelpurnar í Canva en strákarnir í Scratch.


Námskrár og framkvæmd

Námskrár beggja landa eru sambærilegar okkar, þ.e. hæfnimiðaðar og samþættar, með mikla áherslu á teymiskennslu. Finnska námskráin er þó mun ítarlegri og ég hef ekki kynnt mér þá eistnesku alveg nógu vel. Eistneski námskeiðshaldarinn fullyrti að skólastjórar væru nánast alvaldir og mættu velja úr námskránni, en ég hef ekki fundið gögn sem staðfesta það. Hver skóli þarf að útfæra eigin skólanámskrá sem byggir á menntastefnu ríkisins og aðalnámskránni. Þannig er það í báðum löndunum og líka hjá okkur. Í samtali við skólastjóra eins skólans, þá var það líka skýrt tekið fram að þau eiga að fylgja aðalnámskránni en eins og hjá okkur, þá er það miðað við ákveðinn aldur. Við erum með ákveðna hæfni sem nemendur eiga að hafa náð við lok 4. 7. og 10. bekk og þau eru líka með þannig vörður. Hvernig þau vinna að því að uppfylla þessi markmið, er aftur á móti í höndum skólanna sjálfra - alveg eins og á Íslandi.


Hvar standa þau betur en við? — Námið sjálft

OECD hefur gagnrýnt íslenskt námsefni fyrir að ýta undir yfirborðskennslu þar sem aldrei er kafað dýpra. Áherslan er á að „klára bækurnar“ frekar en að læra efnið. Þetta er meginmunur á okkar menntakerfi og þessara landa.

Hvergi sá ég nemendur vinna eina í vinnubókum þó að ég hafi séð margar kennslubækur. Í báðum löndum vinna nemendur á sama tíma í sömu dæmunum, eða sömu verkefnunum (nema í tölvutímanum). Sem dæmi: Nemendur í ensku í 6. bekk voru að vinna með nýjan kafla sem heitir Christmas. Kennarinn bað þau ekki að opna verkefnabækur til að svara þar, heldur nefndi þau eitt af öðru og lét þau lesa á ensku og þýða setningar eða svara spurningum - allt munnlega. Hennar hlutverk var svo að dýpka spurningarnar. Í einu verkefni áttu þau að breyta texta í aðra tíð - núliðna- og þáliðna tíð. Hún byrjaði á því að spyrja þau hvað einkenndi þessar tíðir áður en þau byrjuðu að vinna. En þessi börn eru ekkert öðruvísi en önnur börn í öðrum löndum og þegar þau voru búin að svara, héldu þau að þau voru sloppin, en í hvert sinn sem þau voru að tala um annað, þurftu þau að svara henni, á ensku. Einn strákurinn var orðinn svolítið svekktur að vera alltaf að svara en fékk þá að vita að hann myndi sleppa betur ef hann væri ekki með hugann við annað. Þannig hélt hún nokkuð góðri virkni í tímanum sem ég hefði kannski haldið að gæti orðið leiðinlegur fyrir nemendur sem efnið er of auðvelt fyrir. Ég sá engan leiðast í tímanum en ég sá fullt af börnum sem öll fengu að tjá sig og sýna hæfni sína fyrir hvort öðru, kennaranum og okkur gestunum.


Skólastjórinn sem ég ræddi við í Eistlandi og kennari sem ég fylgdi þar (job shadowing) sögðu það sama. Árangurinn er byggður á úreltum kennsluháttum eldri kennara. Í báðum löndum er mikið um kennara sem kenna eins og þeir hafa alltaf gert því að kennarastéttin er að eldast, sérstaklega í Eistlandi þar sem meðalaldur kennara er 55 ára. Við viljum ekki taka upp þessar aðferðir og hvorki skólastjórinn né kennarinn sögðu þetta til eftirbreytni. Báðir fögnuðu yfirvofandi breyttum áherslu í PISA en þeir voru jafn vissir um að landið myndi hrapa í því prófi þegar að því kæmi því að það væri engin raunveruleg innistæða fyrir þessari velgengni.

Sérskólar eru viðurkenndir í báðum löndum, en í mörgum skólum í Eistlandi (eins og í Finnlandi) er sérdeild innan skólanna og börnin ekki endilega hluti af almennum tímum. Kennarinn sem ég fylgdi sagði að hann kenndi einu barni með einhverfu, önnur eru í sérúrræði. Hann kennir samt UT og er með marga mismunandi hópa. Börn sem eru í sérkennsluúrræðum taka ekki PISA prófið skv. kennaranum.

Skólastjórinn og kennarinn sögðu báðir að árangur þjóðarinnar byggi að stórum hluta á því að kennarar eru orðnir gamlir, nota gamlar aðferðir og að PISA prófið byggi á þannig færni. Hvorugur þeirra var þó hrifin af þessu og töluðu um að landið muni lækka um leið og gömlu kennararnir hætta þ.e.a.s nema prófið breytist og það gæti vel farið að gerast.


Hvað getum við gert betur?

Hvorki í Finnlandi né Eistlandi hafa þau farið þá leið að sameina náttúru og samfélagsgreinarnar. Landafræði er sér fag, efnafræði, eðlisfræði.... Kannski voru okkar mistök að draga úr vægi þessara greina eins og gert hefur verið. Í mörgum skólum á Íslandi voru flottar og dýrar efnafræðistofur en þær eru að mestu horfnar.

Ef teymiskennsla okkar virkaði betur, væri líka möguleiki á meiri samfellu í námi hjá okkur. Kennarar ættu að undirbúa námið saman, ekki í einangrun hvort sem þeir eru bekkjarkennarar eða faggreinakennarar. Þetta gæti bætt líðan, hæfni og jafnvel PISA-niðurstöður. Ef kennarar í teymi ákveða t.d. að nemendahóp vanti seiglu, geta þeir í sameiningu eflt þá hæfni hjá hópnum.


Við viljum ekki vera kennarinn sem sagði við mig þegar það var verið að skoða að samþætta faggreinar í skólanum: „Ég er samfélagsgreinakennari og ætla ekki að meta réttritun“ en taldi samt óviðunandi að nemendur ættu bara að skrifa stóran staf eftir punkt í íslenskutímum. Það var bara ekki hans verkefni að þjálfa það, það var allra hinna. Þessi hugsun er ekki ávísun á árangur en er kannski of algeng. Það stendur í íslensku námskránni að læsi á að fléttast inn í allt nám, en er það markvisst? Við biðjum vissulega nemendur að lesa faggreinabækur, en hvernig vitum við að þau skilji efnið, hafi tileinkað sér það sem við viljum að þau tileinki sér eða geti yfirfært þekkingu sína í aðrar aðstæður. Nemandi sem veit ekki að dl í heimilisfræði er það sama og dl í stærðfræði, er ekki með djúpan skilning á hugtakinu. Þarna er efni sem kennarar ættu að sameinast um að kenna á sama tíma. Það eru fjöldamörg hugtök sem við kennurum í skólum sem snerta fleiri en eina faggrein. Próf geta hjálpað til að finna út hvað nemendur kunna en sumir eru klárir að taka próf, aðrir ekki. Próf geta gefið okkur ágæta mynd en það sýnir ekki hæfni nemenda nema að litlu leyti. Góð teymiskennsla þar sem allir vinna að sama markmiði, er því að mínu mati svarið og gæti hækkað ránna hjá öllum okkar nemendum.

Við getum hætt að láta bækur stjórna námi nemenda og munað að við eyðum brota broti af því sem aðrar þjóðir eyða í námsgagnaútgáfu og því er námsefnið okkar lélegt, gamalt, oft yfirborðskennt en gæti verið fínt stuðningsefni. Lélegt efni sem stýrir kennslu og námi getur aldrei boðið upp á annað en slaka útkomu.


Við verðum að hækka ránna

Við verðum að hætta að lækka kröfurnar til að koma 90% nemenda í skilning um námsefni. Við þurfum að hækka þær. Nemendur sem eru klárir, en fá of létt efni, missa áhuga. Nemendur sem eru slakir og fá að halda áfram að vera slakir hafa litlar ástæður til að vaxa. Námið reynir lítið á þau og þau fara sjaldan út fyrir þægindarammann. Það er fátt sem fer meira í taugarnar á mér en þegar kennarar segja "mínir nemendur geta þetta ekki". Það eina sem ég heyri er að þetta eru ekki kennarar sem hafa trú á börnunum sem þeim er treyst fyrir og þeir eru líklega ekki góðir kennarar.


Eftir síðasta PISA kom fram að markmið íslensku námskrárinnar í íslensku séu á tveimur neðstu þrepunum af sex í PISA. Námskráin er með of lágan þröskuld skv. þessu. Við erum sem sagt með lélegar námsbækur og of lágan þröskuld í aðalnámskránni. Sem betur fer erum við sérfræðingar í okkar fagi og getum hækkað ránna fyrir alla nemendur, sýnt að við höfum trú á þeim og gert námið þeirra merkingabært. Það ætti að vera markmið allra kennara að kveikja innri neista nemenda þegar kemur að skólagöngu þeirra en ekki þröngva þeim inn í kassa sem sífellt færri passa inn í. Það á við í Finnlandi og Eistlandi líka og vegna þess að þau vita að börnunum þeirra líður ekki vel í því skólaumhverfi sem þau hafa byggt utan um þau, eru þau að leita nýrra leiða. Það sem við tökum því með okkur úr þessari ferð er að PISA er ekki góður mælikvarði á gæða skólastarf. Við getum vissulega bætt hæfni barnanna okkar í læsi, en ekki fyrir PISA, heldur fyrir þau.


Ég hef verið að ýja að breytingum í textanum en ég veit ekki hvernig þær munu hafa áhrif á PISA til framtíðar. Í mars á þessu ári (2025) samþykkti OECD að færa áherslur í menntamálum frá því sem er kallað Human Capital í Human Flourishing. Það má hlusta á útskýringu á þessu í þessu hlaðvarpi: https://open.spotify.com/episode/08NzEnt9KzdFrh6DWk1i4O?si=amiuyb-vQSq2WoxLRX1iGg Ef við hugsum til baka í eftirsetjuna og aðgreininguna sem hneykslaði okkur, er ég hrædd um að hún passi illa við þessi markmið en á bak við þessar breytingar eru m.a. Finnar og Eistar. Þannig að jafnvel bestu kerfi heims sjá að við höfum ekki verið á réttri leið eða með réttar áherslur. Það verður spennandi að sjá hvaða áhrif þessar breytingar (ef einhverjar) muni hafa á niðurstöður þessara þjóða eða hvort þau haldi bara áfram að vera í fremstu röð. Það er auðveldara að virkja sigurvegara til að leggja meira á sig en þá sem eru stöðugt á botninum.






ree

 
 
 

Comments


bottom of page