top of page
  • Writer's pictureAnna María

Fyrirlestrar um hæfniviðmið, námsmat og skapandi verkefni í Hörðuvallaskóla

Updated: Oct 26, 2020

Ég var beðin að halda tvo fyrirlesta um hvernig hæfniviðmiðin og hæfnikortin geta gefið nemendum tækifæri til að hafa meiri áhrif á eigið námi. Fyrirlestrarnir voru fyrir sveitaskólana í kringum Akureyri og Grunnskóla Snæfellsbæjar og voru í þessari viku. Vegna Kóvid var fyrri fyrirlesturinn í gegnum Zoom en ég fór í Snæfellsbæ og hélt fyrirlesturinn þar. Kveikjan að þessari ósk var myndbandið sem nemendur mínir gerðu fyrir Menntamálastofnun um vinnuna okkar saman og hvernig þeir sæju fyrir sér að námsmat í gegnum Mentor væri. Myndbandið góða er hér. Þessum krökkum finnst viðmiðin alls ekkert flókin og eftir smá útskýringar og vinnu með nemendum í skólanum (Hörðuvallaskóla) var ótrúlega gaman að sjá nemendur vera upptekna af því að fylla út í hæfnikortin sín og "laga" viðmið sem voru ekki í litum sem þeim hugnaðist. Eftir smá stund, þá fékk maður það á tilfinninguna að ákveðnir nemendur væru stöðugt að hugsa um að fylla út kortin sín eins og þetta væru bingóspjöld. En þó að það sé auðvitað ekki markmiðið með þessu öllu og það er aldrei svo, að allir kennarar séu uppteknir að því að fylla allt út, þá sá maður að metnaður margra nemenda jókst.

Ég tók viðtal við nokkra nemendur sem voru að ljúka 7. bekk í vor. Ég ræddi við þá um verkefnin í vetur og bað þá svo að setja niður 5 spurningar sem þeir vildu svara eftir veturinn. Spurningarnar voru t.d, hvað var skemmtilegast, hvað var eftirminnilegast, hvað var gagnlegt... og þegar ég tók svo upp svörin þeirra, þá kom í ljós að hæfniviðmiðin og vinnan sem við fórum í með þau, voru það sem var efst í huga þeirra. Reyndar voru það ekki hæfniviðmiðin sjálf sem þau voru ánægð með, heldur það sem kallast viðmið um árangur. Nemendum var alltaf sagt hvað þeir ættu að gera til að uppfylla ákveðin hæfniviðmiðin. Það stóð ekki að nemendur ættu að skrifa rétt, heldur að nemendur ættu t.d. að sýna fram á að þeir kynnu ng/nk regluna, að það væri stór stafur eftir punkt og/eða punktar á réttum stöðum. Það var þá það sem kennarinn var að meta í því ákveðna verkefni. Það var sem sagt það sem nemendunum fannst svo frábært, en af því að það var alltaf tengt beint við hæfnivimiðin, þá settu þau samasem merki þarna á milli.

Þegar nemendur gerðu sér betur grein fyrir tilgangi náms síns, eins og að verkefnin í skólanum snérust um að æfa ákveðna hæfni, þá var eins og margir sáu námið nýjum augum og mér fannst metnaður og áhugi margra nemenda aukast.

Það eru enn margir kennarar sem eru ekki sáttir við þessi viðmið og sjá ekki hvernig þeir geta nýtt þau í eigin kennslu. Þeir eru vanir að prófa þekkingu nemenda og finnst ekki nóg að nemendur sýni hæfnina á öðru en prófum. Þessir kennarar ættu að reyna að prófa úr einhverju efni sem nemendur voru prófaðir í ári áður og sjá hversu mikið situr eftir. Ég held að það sé ekki mikið þannig að þá er spurning hver tilgangurinn var með prófinu. Ég er í háskólanámi og þarf stundum að taka próf. Ég get lofað ykkur því að ég læri ekkert á þeim. Ég aftur á móti man mjög vel þegar ég og samnemandi minn áttum að draga saman eina grein af leslistanum og kynna fyrir hinum í áfanganum. Við völdum grein sem við höfðum áhuga á og ég lærði helling af henni sem við svo miðluðum áfram. Ég vitna oft í það sem ég las í þessari ákveðnu grein sem opnaði augu mín fyrir íslensku aðalnámskránni (þó að greinin hafi verið um kerfið í Noregi). Ég man allt sem stóð í þessari grein enn mjög vel en ég man ekkert úr prófunum sem ég varð að taka. Þau próf voru meira að segja skrifleg og tóku marga klukkutíma. Það eru margir sem segja að maður muni meira af því sem maður skrifar niður. Það á ekki við um mig. Ég man það sem ég hef áhuga á að muna og að þvinga mig til að muna eitthvað fyrir próf, hjálpar mér ekkert.

Eitt af því sem ég var spurð af í vikunni var hvað ætti að gera við matsviðmiðin í 4. og 7. bekk. Ég fór á fund hjá MMS þar sem þau voru til umræðu (að þeirra beiðni eftir að ég sendi inn fyrirspurn þegar drögin komu út og þau skyldu ekki spurninguna mína). MMS lítur ekki á hæfniviðmið og matsviðmið sem sitthvorn hlutinn þó að hæfniviðmiðin séu ekki öll tiltekin í matsviðmiðunum. Ég held að besta leiðin til að útskýra notkunin er að þegar nemendur eru búnir að fylla út kortin fyrir 4., 7. og 10. bekk, þá horfum við á kortin og lesum matsviðmiðin. Ef að nemandi er með allt grænt á sínu korti en faggreinakennari er ekki sammála því að hann standist B hæfnina þrátt fyrir það, er skýringar líklega að finna í sögu á bak við viðmiðin. Síðasta matið er alltaf það sem sést, en það sýnir ekki endilega getu nemandans. Ef að sagan sýnir að nemandinn er oftast með grænt fyrir þetta ákveðna viðmið, þá verður kennarinn bara að bíta í það súra og sætta sig við að kannski er þessi nemendi með þessa hæfni, þó að honum finnist það ekki. Matsviðmiðin eru ekki til annars en að taka stöðuna á þessum þremur tímapunktum, þau eru ekki til þess gerð að meta ákveðin verkefni, til þess eru hæfniviðmiðin.

Annað sem fólk er að velta fyrir sér og það er hvernig best sé að setja Mentor upp (ég þekki ekki Námfús). Ég hef alltaf verið talsmaður þess að nota viðmiðin eins og þau koma af kúnni og ekki brjóta þau niður á árganga. Sé það gert eru nemendur ekki að vinna með hæfnikortin sín í 3-4 ár og það verður erfiðara að halda utan um hvað sé búið og hvað sé eftir og svo að meta rétt. Ég hef líka heyrt að sumir skólar sem fóru í að brjóta niður eftir árgöngum til að auðvelda kennurum að nota Mentor eða breyttu jafnvel textanum þannig að hann sé á "mannamáli", séu að skoða að breyta því vegna þess að það vantar betri yfirsýn. Það kom m.a. fram í samtölum mínum við kennara síðustu daga. Auðvitað verða allir að hafa þetta eins og þeim hentar, en mín fílósófía er alltaf að flækja málin sem minnst og alls ekki skapa mér meiri vinnu en nauðsyn krefur. Þar sem það getur verið flókið að uppfylla hæfniviðmiðin með yngri nemendum en þeim sem eru í 4., 7. og 10. bekk, þá er alltaf gott að nota viðmið um árangur. Ég útbjó verkefni fyrir kennara sem eru að stíga sín fyrstu skref í að hugsa námsmatið á hvolfi, þ.e. fyrst að ákveða hvernig metið verður og svo hvað á að læra. Það verkefni er að finna hér en ég er byrjandi í leiðsagnarnámi og leiðsagnarmati og það sem ég skrifa þarna er minn skilningur á fyrirbærinu.


Að lokum þá ætla ég að deila einu sem ég lærði á Twitter. Ég er alltaf að tala um að eitthvað sé kýrskýrt í þeirri merkingu að allir skilji það því að það sé svo augljóst. Kýrskýr maður er víst heimskur maður og það er skýringin á orðinu í orðabókum. Það er sem sagt ekki það sem égvar að tala um þegar ég notaði það orð!

123 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page