top of page
  • Writer's pictureAnna María

Kennslumyndbönd

Ég hef verið að dunda mér við að búa til myndbönd til að kenna á Mentor og hin ýmsu forrit fyrir kennarana í skólanum mínum. Ég ákvað að fara þessa leið í stað þess að búa til leiðbeiningabæklinga eða senda út leiðbeiningar á annan hátt, því að mér sjálfri þykir best að læra af myndböndum. Ef að ég þarf að læra eitthvað, þá kíki alltaf fyrst á Youtube og því er ég viss um að þetta sé besta leiðin.

Það eru til margar leiðir til að búa til myndbönd, sumar kosta og hafa fullt af fídusum sem hjálpa til við að blokka út aukahljóð og annað fínerý en mér er alveg sama þó að það heyrist aðeins nefhljóð eða annar óþarfi í þessum myndböndum og þó að röddin mín sé fáránleg að mínu mati (en hverjum þykir það ekki?). Ég nota því frítt vefforrit sem heitir Screencast-o-matic og með því get ég tekið upp allt að 15 mínútna myndbönd og birt hvar sem er. Ég vista þau alltaf fyrst í tölvunni minni, set afrit á sameign skólans og svo hleð ég því upp á Youtube til að hafa alltaf aðgang að því og auðvelda mér að deila þeim.

Ég kenndi nemendum að nota þetta fyrir mörgum árum og fékk fullt af flottum verkefnum frá þeim þar sem þeir töluðu inn á það sem þeir voru að sýna af skjánum. Í mínum skóla hafa unglingarnir allir ipada og innbyggt í þá er upptaka af skjá, þannig að þeir notast heilmikið við þennan möguleika.

Fyrst þegar ég byrjaði að taka upp röddina mína, var ég alltaf með handrit af því sem ég vildi segja því að annars tók svo langan tíma að ná að taka upp myndband sem ég gat verið næstum sátt við. En ég er orðin nógu kærulaus núna til að láta það ekkert á mig fá þó að röddin mín hljómi eins og ég sé ný vöknuð eða allt of skræk. Aðalatriðið er að koma efninu frá sér þannig að það skiljist. Ef að einhver hefur svo gaman af því að ég hljómi undarlega, þá hef ég bara skemmt einhverjum þann daginn og það er aldrei slæmt.

Hér er tengill á myndböndin um forritin sem ég hef verið að kynna https://www.kortsen.is/verkfaeri-forrit

80 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page